Skip to main content

admin

Austfirskar fréttir


Nr. 1

TF-RTO á Egilsstaðaflugvelli 17. júní 1977. Við vélina standa flugmennirnir Kolbeinn Arason og Sigurður Björgvinsson. Austramynd (ljósmyndara ekki getið).

Nr. 2

Flugfélag Austurlands fær nýja flugvél , Piper Chieftain. Við vélina standa (frá vinstri): Þorkell Þorkelsson flugvirki, Stefán Friðleifsson flugmaður, Gústaf Guðmundsson flugmaður, Steinar Steinarsson flugmaður, Jóhannes Fossdal þjálfunarflugmaður og Rúnar Pálsson umdæmisstjóri Flugfélags Íslands. Myndin birtist í Austra 25. september 1986. Ljósm: Örvar Þór Einarsson.

Nr. 3

Unnið að gerð heyköggla að Stangarási í Vallahreppi. Við verkið var notuð færanleg heykögglaverksmiðja. Frá vinstri: Björn Hólm Björnsson, Guðmundur Hjálmarsson og Eysteinn Einarsson. Myndin er úr safni Kaupfélags Héraðsbúa.

Nr. 4

Austfirskar konur að koma heim af velheppnaðri kvennaráðstefnu í Turku í Finnlandi. Fulltrúar í bæjarstjórn Egilsstaðabæjar fagna þeim með rósum. Á myndinni eru (talið frá vinstri): Einar Rafn Haraldsson, Helgi Halldórsson, Elísabet Sveinsdóttir, Anna Ingólfsdóttir, Ágústa Þorkelsdóttir og Þuríður Backman (aðrir á myndinni eru óþekktir). Myndin birtist í Austra í ágúst 1994. Ljósm: Arndís Þorvaldsdóttir.

Nr. 5

Í júní 1988 var þessu sumarhúsi komið fyrir á grunni hjá ferðaþjónustunni á Skipalæk í Fellum. Myndina tók Sólveig Dagmar Bergsteinsdóttir fyrir vikublaðið Austra.

Nr. 6

Á árabilinu 1976-1986 fóru fram endurbætur á kirkjunni á Klyppstað í Loðmundarfirði. Sumarið 1986 var boðað til messu sem var vel sótt af bæði lærðum og leikum. Í kirkjudyrum standa (frá vinstri) prestarnir Sverrir Haraldsson, Sigmar Torfason og Magnús Björnsson, en þeir tóku allir þátt í athöfninni. Myndina tók Inga Rósa Þórðardóttir, sem var á staðnum fyrir hönd Svæðisútvarps Austurlands.

Nr. 7

Halldór Sigurðsson frá Miðhúsum var aðal hvatamaður þess að farið var í viðgerðir á kirkjunni á Klyppstað og vann mikið að þeim sjálfur. Hér er hann í ræðustóli í kirkjunni sumarið 1986 og lýsir endurbótum þeim sem gerðar voru. Myndasafn Svæðisútvarps Austurlands. Ljósmynd: Inga Rósa Þórðardóttir.

Nr. 8

Handagangur í öskjunni í söltunarstöðinni Austursíld á Reyðarfirði haustið 1986. Myndina tók Örvar Þór Einarsson blaðamaður á Austra.

Nr. 9

Landað úr Snæfuglinum á Eskifirði í september 1988. Myndina tók Guðrún Benediktsdóttir blaðamaður Austra.

Nr. 10

Blaðamenn vikublaðsins Austra lögðu sig fram um að birta fréttir frá síldveiðum og síldarlöndunum á Austurlandi og brugðu sér öðru hvoru á vettvang. Hér er verið að skipa síldartunnum upp í Eskifjarðarhöfn haustið 1990. Austramynd. Ljósm: Sólveig Dagmar Bergsteinsdóttir.

Nr. 11

Myndin hér að ofan er elsta myndin á sýningunni, en hún prýddi forsíðu Austra þann 24. október 1985. Þarna gefur að líta Jón Sigurðsson bónda á Sólbakka á Borgarfirði og Sigurgeir Þorgeirsson, sauðfjárræktarráðunaut hjá Búnaðarfélagi Íslands á hrútasýningu í Brandsbalarétt á Borgarfirði. Með þeim á myndinni eru feðgarnir Þistilkóngur og Lambi sem unnu til fyrstu og annarra verðlauna. Um Þistilkóng, sem vóg 119 kg, sagði Sigurgeir að hann væri djásn að allri gerð og á meðal bestu hrúta sem hann hafði skoðað það haustið. Þess má geta að tveim árum síðan var Þistilkóngi slátrað vegna niðurskurðar. Austramynd. Ljósm: Björn Aðalsteinsson.

Nr. 12

Í nóvember 1986 birtist í Austra viðtal við Karl Jóhannsson, loðdýrabónda á Þrándarstöðum í Eiðaþinghá. Myndina tók Örvar Þór Einarsson af Karli við það tækifæri.

Nr. 13

Myndina hér að ofan tók Björn Aðalsteinsson myndatökumaður Austra á Borgarfirði eystra. Sýnir hún liðsmenn í björgunarsveitinni Sveinunga á björgunaræfingu í mars 1988.

Nr. 14

Sigfús Árnason slökkviliðsstjóri Brunavarna á Héraði. Vorið 1988 birtist viðtal við Sigfús í Austra. Þar var það Sigrún Björgvinsdóttir sem rakti garnirnar úr slökkviliðsstjóranum en einnig hún er á bak við myndavélina.

Nr. 15

Guðlaug Sigurðardóttir frá Útnyrðingsstöðum tekur fyrstu skóflustunguna að gróðurhúsi Barra hf. haustið 1990. Aðrir á myndinni eru (frá vinstri): Einar Gunnarsson, Sveinn Jónsson, Jónas Magnússon og Jörundur Ragnarsson. Austramynd (ljósmyndari óþekktur).

Nr. 16

Trjáplöntur vökvaðar í gróðurhúsi Barra haustið 1993. Það er Þórhallur Sigurðsson sem stýrir kerfinu. Austramynd. Ljósm: Arndís Þorvaldsdóttir.

Nr. 17

Þorleifur Guðjónsson og María Rós Valgeirsdóttir, nýir eigendur Hótels Öskju á Eskifirði, kynnt í Austra vorið 1997. Myndina tók Arndís Þorvaldsdóttir.

Nr. 18

Seinni part vetrar árið 1997 sagði Austri frá grisjun í Geitagerðisskógi þar sem unnir voru girðingastaurar. Myndin sýnir Hákon Aðalsteinsson skáld og skógarbónda við störf. Austramynd (ljósmyndara er ekki getið).

Nr. 19

Myndin er tekin í Atlavík og sýnir opnun báta- og hestaleigu vorið 1996. Í forgrunni er Jóna Björt Friðriksdóttir, en aðrir á myndinni eru óþekktir. Austramynd. Ljósm: Sigurður Björn Blöndal.

Nr. 20

Haustið 1991 sagði Austri frá miklum uppgangi hjá umboði Toyota bíla á Egilsstöðum. Myndin sýnir Sigurð Elís Rögnvaldsson afhenda Hreini Pálssyni og Öldu Pétursdóttur frá Reyðarfirði fjögurhundraðasta bílinn. Austramynd (ljósmyndara er ekki getið).

Nr. 21

Starfsmenn Svæðisútvarps Austurlands, Hjalti Stefánsson myndatökumaður og Jóhann Hauksson fréttamaður, í fréttaleiðangri inn á Eyjabökkum. Viðmælandinn er listakonan Rúrí. Myndin er úr myndasafni Svæðisútvarps Austurlands.

Nr. 22

Starfsmenn Svæðisútvarpsins, Hjalti Stefánsson myndatökumaður og Björn Malmquist fréttamaður, taka púlsinn á Neistaflugi í Neskaupstað. Myndin er úr myndasafni Svæðisútvarps Austurlands.

Nr. 23

Myndin sýnir Gunnar Hjaltason og Höllu Einarsdóttur við útsaumssaumavél til sérmerkinga á fatnaði. Fréttin birtist í Austra haustið 1997. Ljósm: Sigurður Björn Blöndal.

Nr. 24

Snorri Styrkársson kynnir nýja framleiðslu Mjólkursamlagsins í Neskaupstað. Um var að ræða nokkrar bragðtegundir af súrmjólk og vöffludeig. Myndin birtist í Austra í nóvember 1996. Ljósm: Sigurður Björn Blöndal.

Nr. 25

Lagning ljósleiðara í götuna Laufás á Egilsstöðum haustið 1996. Símamennirnir Elíeser Helgason og Guðmundur Þorleifsson ræða við Vilhjálm Emilsson, íbúa í götunni. Austramynd. Ljósm: Marinó Marinósson.

Nr. 26

Í júní 1997 sagði Austri frá því að Verkfræðistofan Hönnun og ráðgjöf hefði tekið í notkun GPS mælitæki til landmælinga. Myndin sýnir þá Bergstein Metúsalemsson og Björn Sveinsson við störf. Austramynd. Ljósm: Sigurður Björn Blöndal.

Nr. 27

Þann 12. júni 1997 var vígt nýtt tollhús á Seyðisfirði. Myndin, sem tekin var við það tækifæri, sýnir Magnús Skúlason arkitekt, séra Kristínu Pálsdóttur og Sigurbjörgu Flosadóttur ferðamálafrömuð, um borð í Norrænu. Austramynd. Ljósm: Sigurður Björn Blöndal.

Nr. 28

Í júni 1997 var frétt í Austra um hestaferðir. Myndin sýnir Stefán Sveinsson á Útnyrðingsstöðum á Völlum sem áð hefur í Útmannasveit og tekið tali Geirmund bónda á Sandbrekku. Austramynd. Ljósm: Sigurður Björn Blöndal.

Nr. 29

Þann 27. júlí 1994 var 70 fermetra sólpallur við Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum opnaður formlega og var sagt frá opnunni í Austra. Myndin sýnir Sigurð Ananíasson, Hörpu Einarsdóttur og Svein Sigbjarnarson njóta veitinga í sumarblíðu. Myndina tók Arndís Þorvaldsdóttir.