Skip to main content

admin

Áramótakort og jólakort Héraðsskjalasafns

Jóla- eða áramótakort hafa verið gefin út á vegum Héraðsskjalasafns frá árinu 1978 að undanskildu árinu 1995.


Jólakort 1978

Fyrsta kortið sem Héraðsskjalasafnið gaf út og gæti talist jólakort var gefið út árið 1978. Efni þess var helgað séra Sigurði Gunnarssyni prófasti Suður-Múlaprófastsdæmis 1863-1874. Sigurður var fæddur í Öxarfirði árið 1812. Hann var prestur á Desjarmýri 1845-1862 og á Hallormsstað til æviloka 1878. Kona hans var Bergljót Guttormsdóttir prests Pálssonar í Vallanesi.

Jólakort 1979

Sigfús Sigfússon, f. 21.10. 1855, d. 6.8.1935. Sigfús hóf ungur söfnun þjóðsagna og sinnti því áhugamáli sínu meðfram vinnumennsku og daglaunavinnu fram á elliár. Þjóðsagnasafn Sigfúsar, Íslenskar Þjóðsögur og sagnir, sem var endurútgefið á 10. áratug 20. aldar telur 11 bindi og er austfirskur fróðleikur og persónuþættir þar í öndvegi.

Jólakort 1980

Halldór Stefánsson, f. 26.5. 1877, d. 1.4. 1971. Halldór kom að mörgu um ævina. Hann var bóndi, verslunarmaður, alþingismaður fyrir Norður-Múlasýslu og forstjóri Brunabótafélags Íslands. Halldór hafði mikinn áhuga á byggðasögu Austurlands og sendi frá sér bækur og ritgerðir um þau efni. Jafnframt stóð hann ásamt fleirum að útgáfu ritraðarinnar Austurlands.

Jólakort 1981

Séra Einar Jónsson, f. 7.12. 1853, d. 24.7. 1931. Einar varð prestur á Kirkjubæ í Hróarstungu árið 1885, Desjarmýri í Borgarfirði árið 1909 og Hofi í Vopnafirði 1912-1929. Hann starfaði einnig að félagsmálum og sat á þingi fyrir Norðmýlinga 1893-1901 og 1912-1913. Eftir hann liggja ritsmíðar um ýmis efni en viðamest verka hans er ættfræðiritið Ættir Austfirðinga með hátt í 15 þúsund ættarnúmerum.

Jólakort 1982

Ásmundur Helgason, f.18.8. 1872, d. 23.5. 1948. Ásmundur stofnaði nýbýlið Bjarg í Helgustaðahreppi og stundaði jöfnum höndum landbúnað og sjósókn. Í stopulum frístundum fékkst hann við ritstörf og ritaði m.a. ævisögu sína, Á sjó og landi, sem er gagnmerk heimild um byggðaþróun við Reyðarfjörð. Ber þar hæst þáttur hans um útgerð í Seley.

Jólakort 1983

Dr. Stefán Einarsson, f. 9.6. 1897, d. 9.4. 1972. Stefán lauk meistaraprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1924. Var við nám í Helsingfors og Cambridge og tók doktorspróf í íslenskri hljóðfræði í Osló árið 1927. Stefán var prófessor í Baltimore í Bandaríkjunum frá 1928-1962. Þrátt fyrir búsetu erlendis skrifaði Stefán mikið um íslensk fræði og gerði heimabyggð í Breiðdal einkar góð skil. Einnig

Jólakort 1984

Eiríkur Sigurðsson, f. 16.10. 1903, d. 17.11. 1980. Eiríkur var kennari að mennt. Hann hóf kennaraferil sinn á Austurlandi en flutti til Akureyrar árið 1933 og starfaði þar óslitið við kennslu og skólastjórn til ársins 1967. Eiríkur ritaði margt um málefni skóla og bindindissamtaka. Hann þýddi barna- og unglingasögur og skrifaði frumsamið efni fyrir sömu aldurshópa. Einnig lagði hann sinn skerf til ritunar byggðasögu Austurlands með útgáfu fjögurra bóka um austfirskt efni .

Jólakort 1985

Þorsteinn M. Jónsson, f. 20.8. 1885, d. 17.3. 1976. Þorsteinn var kennari að mennt og starfaði sem kennari og skólastjóri, fyrst á Borgarfirði eystra og síðan á Akureyri þar sem hann var skólastjóri Gagnfræðaskólans á árunum 1935-1955. Jafnframt rak hann bóka- og ritfangaverslun og var mikilvirkur bókaútgefandi um árabil. Hann safnaði og skráði þjóðsögur sem birtust í Þjóðsagnasafninu Grímu sem hann gaf út og bjó einnig Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar til prentunar. Þorsteini var umhugað um austfirskan menningararf og var einn af þeim sem kom að útgáfu Austurlands, safni austfirskra fræða.

Jólakort 1986

Halldór Ásgrímsson, f. 17.4. 1896, d. 1.12. 1973, og Anna Guðný Guðmundsdóttir f. 7.12. 1895, d. 20.11. 1978. Á 10 ára afmæli Héraðsskjalasafns Austfirðinga var jólakortið helgað minningu hjónanna Halldórs og Önnu Guðnýjar sem áratug áður gáfu nýstofnuðu Héraðsskjalasafni bókasafn sitt, sem taldi liðlega 4.600 bækur auk fjölda tímarita og bæklinga. Anna Guðný var kennari að mennt og stundaði kennslu bæði á Borgarfirði og Vopnafirði en Halldór samvinnuskólamaður og kaupfélagsstjóri. Þau hjón voru bæði mjög virk í félagsmálum, hvort á sínu sviði, og kjörin til ýmissra trúnaðarstarfa. Halldór var þingmaður Austfirðinga um 20 ára skeið.

Jólakort 1987

Gísli Helgason, f. 9.2. 1881, d. 30.12.1964. Gísli kenndi sig gjarnan við bæinn Skógargerði en þar var hann bóndi í tæp 60 ár. Hann lét félagsmál mjög til sín taka bæði innan sveitar og utan en lagði auk þess stund á fræðimennsku og ritstörf. Árið 1949 sendi hann frá sér bókina Austfirðingaþætti en ritsmíðar hans birtust einnig í bókaflokkum, blöðum og tímaritum.

Jólakort 1988

Sigmundur Matthíasson Long, f. 7.9. 1841, d. 26.11. 1924. Skólaganga Sigmundar var aðeins í skóla lífsins en hann hneigðist ungur til skrifta og handritasöfnunar. Tvítugur hóf hann að halda dagbók sem hann skrifaði í daglega til síðasta dags. Æviferill Sigmundur var all skrautlegur. Um tíma var hann veitingasali á Seyðisfirði en sá rekstur fór í hundana. Síðan bjargast hann naumlega úr snjóflóðinu 1885 en missti þá heimili sitt. 47 ára að aldri fór Sigmundur til Winnipeg þar sem hann vann við saga eldivið fyrir fólk og baukaði jafnframt við skjalasafn sitt sem hefur geyma margvíslegan fróðleik.

Jólakort 1989

Benedikt Gíslason, 21.12. 1894, 1.10. 1989. Benedikt var bóndi framan af ævi. Árið 1921 tók hann við búi á á föðurleifð sinni, Egilsstöðum í Vopnafirði, og bjó þar til ársins 1928. Þá flutti hann í Hofteig á Jökuldal þar sem hann bjó næstu 16 árin og var þá á meðal fjárríkustu bænda landsins. Fimmtugur lét Benedikt af búskap og gerðist þá mikilvirkur rithöfundur og skrifaði bækur sínar undir höfundarheitinu Benedikt frá Hofteigi. Var saga lands og þjóðar að fornu og nýju honum hugleikið efni.

Jólakort 1990

Guðfinna Þorsteinsdóttir, f. 26.6. 1891, d. 23.11. 1972. Guðfinna var rithöfundur og skrifaði undir höfundarnafninu Erla. Lengst af ævinnar var það hlutskipti hennar að vera húsfreyja á annasömu sveitaheimili á Vopnafirði. Allt var unnið heima og börnin urðu níu talsins. Engu síður tókst henni að sinna fróðleiksfýsn sinni og sköpunarþrá og urðu bækur hennar fimm talsins. Jafnframt var hún annáluð hannyrðakona og prjónaði fyrir hálfa sveitina.

Jólakort 1991

Á jólakorti Héraðsskjalasafnsins árið 1991 gefur að líta rithönd Jóns Sigurðssonar, fræðimanns í Njarðvík, f. 13.5. 1802, d. 7.1. 1883. Fróðleiksfýsn var þessum fátæka bónda í blóð borin. Hann safnað fróðleik um þjóðtrú og ættfræði og færði í letur, einnig sagnir af mönnum og viðburðum. Jón var einn af þeim sem lagði til sögur í Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar. Frægastar þeirra munu vera frásögnin af Nadda og Snotru Álfadrottningu.

Jólakort 1992

Guðmundur Eyjólfsson, f. 20.9. 1889, d. 2.9. 1975. Ævistarf Guðmundar var búskapur. Hann var alla tíð búsettur í Geithellnahreppi og bjó seinast á Þvottá. Á efri árum fór hann að sinna ritstörfum og birtust frásöguþættir hans, sem fjölluðu um menn og viðburði á liðinni tíð í Geithellnahreppi og nágrannabyggðum, í blöðum og tímaritum. Árið 1979 kom út eftir Guðmund bókin Heyrt og munað sem rithöfundurinn Einar Bragi bjó til prentunar.

Jólakort 1993

Halldór Pjetursson, f. 12.9. 1897, d. 6.6. 1989. Halldór var fæddur á Héraði en flutti rúmlega þrítugur suður og var ásamt konu sinni Svövu Jónsdóttur einn af frumbyggjum Kópavogs. Hann gerðist afkastamikill rithöfundur þegar leið á ævina og ritaði fjölda blaðagreina um þjóðfræði, dulspeki og þjóðfélagsmál. Jafnframt skrifaði hann bækur sem innihéldu dulrænar frásagnir, minningaþætti og þjóðlegan fróðleik af ýmsu tagi. Einnig skrifaði hann sögur fyrir börn.

Jólakort 1994

Séra Stefán Ólafsson prestur og skáld fæddist að Kirkjubæ í Hróarstungu og er fæðingarárið talið vera 1619. Eftir nám í Skálholti sigldi hann til Kaupmannahafnar og hóf nám við Hafnarháskóla. Á námsárum sínum þýddi hann Völuspá og hluta Snorra Eddu á latínu. Við heimkomu gerðist Stefán prestur í Vallanesi og hélt því starfi til æviloka en hann andaðist 29. ágúst 1688. Stefán er talinn eitt af höfuðskáldum 17. aldar og eru mörg kvæða hans sungin enn þann dag í dag.

Jólakort 1996

Ólafur Jónsson, f. 23.3. 1895, d. 16.12. 1980. Ólafur fæddist á Freyshólum á Völlum og kenndi sig jafnan við þann bæ. Hann lærði búfræði á Hvanneyri og í Kaupmannahöfn. Við heimkomuna gerðist Ólafur framkvæmdastjóri Ræktunarsambands Norðurlands, en gegndi jafnframt starfi ráðunauts og ferðaðist um landið og hélt fyrirlestra. Ólafur hóf ritferil sinn sem ritstjóri búnaðartímarita en sneri sér á efri árum meira að náttúrufræði og jarðfræði. Hann safnaði heimildum um skriðuföll, snjóflóð og berghlaup og gaf út bækur um þau efni. Einnig gaf Ólafur út þriggja binda ritröð um Ódáðahraun, skráði ævisögu sína, gaf út ljóðabók, skáldsögu og smásögur.

Jólakort 1997

Guðmundur Jónsson, f. 26.11. 1862, d. 3.4. 1950. Guðmundur hóf búskap í Húsey í Hróarstungu 1888 og kenndi sig jafnan við þann bæ. Hann þótti góður og duglegur bóndi en á hann féllu ábyrgðir sem leiddu til þess að hann flutti með fjölskyldu sína til Kanada, þá eignalaus maður, árið 1903. Í Kanada hóf Guðmundur að skrifa ævisögu sína sem hefur að geyma merkar heimildir um menn og lifnaðarhætti á Fljótsdalshéraði á seinni hluta 19. aldar. Birtust verk hans í ritsafninu Að vestan.

Jólakort 1998

Bjarni Þórðarson, f. 24.4. 1914, d. 21.5. 1982. Bjarni er þekktastur fyrir störf sín að sveitastjórnarmálum, en hann sat í bæjarstjórn Neskaupstaðar í 40 ár og var þar bæjarstjóri hátt í aldarfjórðung. Að ritstörfum kom Bjarni aðallega í gegnum blaðamennsku. Hann skrifaði greinar í Uppreisn og Lýð, málgögn kommúnistadeildarinnar í Neskaupstað, og ritstýrði Árbliki málgagni sósíalista. Árið 1951 hafði Bjarni forgöngu um að stofna vikublaðið Austurland og ritstýrði hann því til dauðadags, að undanskyldum tveimur árum. Jafnframt hafði Bjarni mikinn áhuga á ættfræði og sagnfræði og ritað töluvert um þau efni.

Jólakort 1999

Nicoline Marie Elise Weywadt, f. 5.2. 1848, d. 20.2. 1921. Nicoline fæddist á Djúpavogi þar sem faðir hennar var faktor við verslun Örum og Wulf. Foreldrar hennar voru bæði dönsk og fór Nicoline ung að árum til Kaupmannahafnar og lærði ljósmyndun. Að loknu námi árið 1872 stofnaði hún ljósmyndastofu á Djúpavogi sem hún flutti síðar að Teigarhorni. Ljósmyndastofa Nicolene var sú fyrsta sem stofnuð var á Austurlandi og var hún fyrsta íslenska konan til að nema þessa iðn. Nicoline starfaði við ljósmyndun í 30 ár og eru myndir sem hún tók á nokkrum stöðum þar sem þéttbýli var að byrja að myndast í hópi mestu menningargersema Austfirðinga.

Jólakort 2000

Sigurður Vilhjálmsson, f. 7.3. 1892, d. 25.2. 1968. Sigurður var gagnfræðingur frá Akureyri. Hann kynnti sér síðar félags- og landbúnaðarmál í Danmörku. Eftir heimkomuna fékkst hann við verslunarstörf í Reykjavík en flutti síðan í heimabyggð sína Seyðisfjörð og varð kaupfélagsstjóri Kaupfélags Austfjarða. Árið 1928 hóf hann búskap á föðurleifð sinni, Hánefsstöðum í Seyðisfirði, en var jafnframt sýsluskrifari á Seyðisfirði og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir heimabyggð sína. Sigurður var vel ritfær og skrifaði fjölda greina um þjóðmál sem birtust í blöðum og tímaritum. Einnig ritaði hann töluvert um sagnfræði og ættfræði.

Jólakort 2001

Árið 1997 afhenti sóknarnefnd Hofteigskirkju Héraðsskjalasafni Austfirðinga Guðbrandsbiblíu til varðveislu. Þetta mikla listaverk var prentað á Hólum og er talið að prentun bókarinnar, sem prentuð var í u.þ.b. 500 eintökum, hafi tekið sjö menn alls um tvö ár. Prentun lauk 6. júní 1584 en þá átti eftir að binda bækurnar og tók það um eitt ár. Hvenær Hofteigskirkja eignaðist biblíuna er ekki vitað, en ekkert mælir gegn því að það hafi verið stuttu eftir að hún kom út.

Jólakort 2002

Vigfús Sigurðsson, f. 3.8. 1880, d. 13.9. 1943. Vigfús var trésmiður að mennt en allt lék í höndum hans og er sagt að hann hafi ungur búið sér til myndavél og notað glerin úr gleraugum ömmu sinnar við smíðina. Segja má að þar hafi átt við málshátturinn „snemma beygist krókurinn“ því Vigfús gerðist ungur áhugaljósmyndari. Ómetanlegar er myndir sem hann tók af fólki, bæjum og atburðum í heimasveit sinni Fljótsdal, á fyrstu áratugum 20. aldar. Þá var Vigfús ágætur teiknari og dró upp í vasabækur sínar smámyndir af bæjum og landslagi á Héraði, en einkaskjalasafn hans er varðveitt í Héraðsskjalasafninu.

Jólakort 2003

Helgi Gíslason, f. 22.8. 1910, d. 27.5. 2000. Helgi stundaði nám við Akureyrarskóla og lauk þaðan gagnfræðaprófi. Árið 1936 kvæntist hann Gróu Björnsdóttur frá Rangá og byggðu þau nýbýli í landi Ekkjufells í Fellum sem þau nefndu Helgafell. Auk búskapar sinnti Helgi margvíslegum störfum, var m.a. barnakennari og vegaverkstjóri auk þess sem fljótlega hlóðust á hann margvísleg trúnaðarstörf. Helgi vann að stofnun Héraðsskjalasafns Austfirðinga og var kosinn í fyrstu stjórn þess árið 1975 og sat óslitið í stjórn til ársins 1989. Helgi tók að sér að safna skjölum frá sveitarfélögum og einstaklingum á starfssvæði safnsins og var alla tíð mikill velunnari þess. Hann var ágætlega ritfær og skráði, m.a. sögu sýslunefndar Norður-Múlasýslu.

Jólakort 2004

Sigmar Magnússon, f. 27.1. 1922, d. 15.11. 1999. Sigmar fæddist í Dölum í Fáskrúðsfirði og átti þar heimili til dauðadags. Meðfram því að vera bóndi í Dölum var hann um árabil oddviti Fáskrúðsfjarðarhrepps. Sigmar hafði mikinn áhuga á ættfræði og sögu. Hann var vandvirkur fræðimaður sem hafði aflað sér mikillar þekkingar á sögu Suðurfjarða sem og á ætt og uppruna fólks sem þar átti rætur. Eftir Sigmar birtust greinar í blöðum og tímaritum en margt af því efni sem hann vann að hefur ekki birst opinberlega, en er varðveitt í einkaskjalasafni hans sem hann ánafnaði Héraðsskjalasafninu ásamt bókasafni fyrir andlát sitt.

Jólakort 2005

Þórarinn Þórarinsson, f. 5.6. 1904, d. 2.8. 1985. Þórarinn var guðfræðingur að mennt en réðist árið 1930 sem kennari til Alþýðuskólans á Eiðum og átti sitt ævistarf þar, fyrst sem kennari og síðan sem skólastjóri. Skólanum stýrði hann af orðlögðum myndarskap en kom jafnframt að fjölmörgum menningar- og framfaramálum. Eftir Þórarinn liggja nokkrar bækur. Einnig ritaði hann fjölmargar greinar um margvísleg efni, s.s. skólamál, guðfræði, sagnfræði og skógræktarmál. Þá voru gerð tvö spil eftir hugmyndum hans, Söguspilið og Íslendingaspilið.

Jólakort 2006

Sigrún Pálsdóttir Blöndal, f. 4.4. 1883, d. 28.11. 1944. Eftir nám í Kvennaskólanum hélt Sigrún til Danmerkur á námskeið í vefnaði. Árið 1911-1913 nam hún við Lýðháskólann á Askov, auk þess að sækja vefnaðarnámskeið. Heimkomin gerðist hún kennari og stóð jafnframt fyrir námskeiðum í vefnaði. Sigrún var mikil hugsjónakona og barðist ásamt manni sínum Benedikt Blöndal fyrir stofnun Húsmæðraskóla á Hallormsstað. Skólinn tók til starfa 1. nóvember 1930 og var Sigrún ráðin forstöðukona. Sigrúnu var menntun kvenna, bæði til munns og handa, mikið metnaðarmál og hélt hún m.a. vikulega fyrirlestra um íslenskar bókmenntir fyrir nemendur sína. Þá samdi hún Íslenska vefnaðarbók sem enn þann dag í dag er eina kennslubók í vefnaði á Íslandi.

Jólakort 2007

Sigurður Magnússon, f. 13.4. 1909, d. 24.11. 2004. Sigurður ólst upp á Þórarinsstöðum í Seyðisfirði. Hann fór til náms í Eiða og hélt síðan til Danmerkur og nam við Lýðháskólann í Askov. Eftir að heim var komið var Sigurður við kennslu og skólastjórn á Seyðisfirði en flutti árið 1943 burt af Austurlandi og bjó lengst af í Vestmannaeyjum. Sigurður var mikill áhugamaður um þjóðlegan fróðleik og skipuðu heimahagarnir stóran sess í skrifum hans sem birtust í blöðum og tímaritum. Á meðal þess sem Sigurður ritaði var grein um lomberspilið sem átti stóran þátt í bjarga því frá gleymsku.

Jólakort 2008

Hrafnkell A. Jónsson, f. 3.2. 1948, d. 29.5. 2007. Hrafnkell hóf árið 1969 búskap á föðurleyfð sinni Klausturseli á Jökuldal. Árið 1974 flutti hann á Eskifjörð þar sem hann starfaði og hóf fljótlega afskipti af málefnum verkalýðshreyfingarinnar. Einnig sótti hann fram á vettvangi stjórnmálanna, kom að sveitastjórnarmálum og sat um skeið sem varamaður á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Árið 1996 varð Hrafnkell ráðinn forstöðumaður Héraðsskjalasafnsins og gegndi því starfi til dauðadags. Hann var mikill áhugamaður um sögu og ættfræði og skrifaði greinar um þau efni auk þess að taka saman mörg niðjatöl.

Jólakort 2009

Ármann Halldórsson, f. 8.5. 1916, d. 15.2. 2008. Ármann átti langan og farsælan starfsferil sem kennari, lengst af við Alþýðuskólann á Eiðum. Haustið 1975 flutt hann í Egilsstaði og hóf vinnu við stofnun Héraðsskjalasafns Austfirðinga og var ráðinn fyrsti skjalavörður þess. Því starfi gengdi hann til ársins 1984. Ármann var mikilvirkur rithöfundur og sendi frá sér nokkrar frumsamdar bækur sem flestar fjalla um sögu og mannlíf á Austurlandi. Þá ritstýrði hann ritröðinni Sveitir og jarðir í Múlaþingi og skrifaði fjölda greina um menntamál, þjóðmál og fleira.

Jólakort 2010

Nanna Guðmundsdóttir frá Berufirði, f. 18.9. 1906, d. 14.3. 1988. Kennsla var ævistarf Nönnu. Hún hóf feril sinn við Alþýðuskólann á Eiðum, eftir að hafa stundað nám í Svíþjóð, en kenndi síðan börnum víða á Suðurfjöðum lengst af á heimslóðum á Berufjarðarströnd. Áhugmál Nönnu voru mörg og fékkst hún, m.a. við skógrækt og garðyrkju sem hún hafði numið í Svíþjóð. Þá var hún áhugasöm og fróð um fyrri tíma og og svaraði um árabil spurningalistum sem Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns sendi út. Eftir að Nanna hætti kennslu fór hún að safna gömlum munum sem flestir höfðu verið í notkun á heimilum á Berufjarðartorfunni og urðu þeir að henni látinni uppstaðan í Nönnusafni sem ættingjar hennar komu á fót í Berufirði.

Jólakort 2011

Indriði Gíslason, f. 27.7. 1926, d. 15.3. 2009. Íslenskukennsla og rannsóknir voru þau störf sem Indriði helgaði krafta sína á langri starfsævi. Lengst af við Kennaraskólann og síðar Kennaraháskólann, sem lektor, dósent, prófessor og síðast heiðursprófessor. Jafnhliða kennslunni stundaði Indriði ritstörf og rannsóknir, samdi kennslubækur og skrifaði fjölda fræðigreina. Við starfslok beindist áhugi hans að sögu og mannlífi í átthögunum hér eystra og var hann höfundur bóka um þau efni. Má þar nefna bækurnar Skógargerðisbók og Ekkjufell og Ekkjufellsmenn. Einnig bjó Indriði bók föður síns Gísla Helgasonar, Austfirðingaþætti , undir prentun í nýrri og aukinni útgáfu.

Jólakort 2012

Hallgerður Gísladóttir fæddist í Seldal í Norðfirði árið 1952. Hún lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands, með áherslu á þjóðháttafræði, árið 1981 og lauk cand. mag í sagnfræði 1991. Hallgerður starfaði lengst af við þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands þar sem hún vann að þjóðháttasöfnun auk margvíslegra rannsókna á ýmsum sviðum þjóðfræði. Árið 1999 sendi Hallgerður frá sér bókina Íslensk matarhefð. Sú bók er almennt álitin stórvirki og hefur verið ófáanleg um langa hríð. Hallgerður lést á Landspítalanum árið 2007 aðeins 54 ára að aldri.

Jólakort 2013

Einar Bragi Sigurðsson fæddist á Eskifirði árið 1921. Hann nam listasögu og leikhússögu við Háskólann í Lundi (1945-1946) og Stokkhólmi (1950-1953) og stofnaði tímaritið Birting eldra 1953. Á Svíþjóðarárunum sendi frá sér tvær fyrstu ljóðabækurnar. Þegar kom fram á 7. áratuginn hætti Einar kennslu og helgaði sig alfarið ritstörfum. Hann tók þá til við ritun bóka af fræðilegum toga og urðu þær alls níu talsins og vörðuðu allar sögu Austurlands. Má þar nefna Eskju fimm binda ritröð um sögu Eskifjarðar sem kom út á árunum 1971-1986. Á síðari hluta ævinnar vann Einar Bragi aðallega við þýðingar. Hann lést árið 2005.

Jólakort 2014

Jónbjörg Sesselja Eyjólfsdóttir fæddist á Bjargi í Bakkagerði árið 1931 og Sigurður Óskar Pálsson í Breiðuvík árið 1930. Sigurður lauk kennaraprófi og Jónbjörg nam við Húsmæðraskólann á Laugum. Á öðru hjúskaparári byggðu hjónin nýbýlið Skriðuból í landi Geitavíkur. Sigurður var skólastjóri á Borgarfirði en árið 1971 tók hann við starfi skólastjóra við Barnaskólann á Eiðum og Jónbjörg vann í mötuneyti skólans, auk þess að sinna gæslu og umsjón á heimavist. Árið 1984 fluttu þau hjón í Egilsstaði og Sigurður varð forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Þau hjónin fengust bæði við ljóðagerð og Sigurður var ristjóri byggðasöguritsins Múlaþings um árabil. Jónbjörg og Sigurður létust á Akureyri árið 2012.

Jólakort 2015

Eva Hjálmarsdóttir fæddist í Stakkahlíð í Loðmundarfirði árið 1905. Um 10 ára aldur veiktist hún af flogaveiki og heilsan versnaði með árunum. Eva hóf ung að fást við ritstörf og mun hún hafa samið mestan hluta efnis í Hvítum vængjum á árunum 1917-1922 þegar hún var á aldrinum 12-17 ára. Hún sendi einnig frá sér bækurnar Það er gaman að lifa (1947) Paradís bernsku minnar (1948) Margt er smátt í vettling manns (1952) og Á dularvegum (1956). Eva andaðist í Víðihlíð árið 1962.

Jólakort 2016

Héraðsskjalasafn Austfirðinga var stofnað árið 1976. Stofnendur þess og eigendur voru Suður- Múlasýsla að 2/3 hlutum og Norður-Múlasýsla að 1/3. 1992 breyttist eignaraðildin að safninu við það að stofnað var byggðasamlag um rekstur þess. Núverandi eigendur eru sveitarfélögin átta í Múlasýslum. Safnið starfar nú samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014. Meginhlutverk Héraðsskjalasafnsins er að taka við skjölum skilaskyldra aðila, sveitarfélaga og stofnana þeirra, skrá þau og varðveita. Einnig er tekið við einkaskjölum t.d. bréfasöfnum, ljósmyndum og dagbókum einstaklinga og skjölum félaga og fyrirtækja.

Áramótakort 2017

Guðrún Helga Finnsdóttir fæddist á Geirólfsstöðum í Skriðdal 6. febrúar 1884. Foreldrar hennar voru Bergþóra Helgadóttir og Finnur F. Björnsson. Guðrún hóf nám í kvennaskólanum á Akureyri haustið 1900. Hún flutti til Winnipeg í Kanada árið 1904 og bjó þar til dauðadags árið 1946. Eftir Guðrúnu liggja tvö smásagnasöfn: Hillingalönd - fjórtán sögur (1938) og Dagshríðar spor - tólf sögur (1946). Safnritið Ferðalok, sem innihélt fyrirlestra og ræður eftir Guðrúnu auk minningarorða og erfiljóða um hana, kom út árið 1950. Maður Guðrúnar var Gísli Jónsson prentari.

Áramótakort 2018

Eiríkur Björgvin Eiríksson fæddist í Dagverðargerði í Tunguhreppi árið 1928. Sumarið 1975 vann Eiríkur hjá Skjalasafni Austfirðinga og ferðaðist um svæðið norðan Smjörvatnsheiðar, Héraðshreppa og Seyðisfjörð. Skráði hann öll gögn sem hann fékk vitneskju um og hugsanlega yrðu varðveitt á safninu sem var verið að koma á fót. Síðar sama ár gerðist Eiríkur bókavörður hjá Alþingi. Eiríkur starfaði við útgáfu á ritinu „Sveitir og jarðir í Múlaþingi“ um alllangt skeið og ritaði ábúendatal, fjölda jarðalýsinga og tvær sveitarlýsingar. Þá vann hann örnefnaskrá fyrir Hróarstungu og fleiri hreppa á Héraði. Eiríkur var höfundur að mörgum tímaritsgreinum og útvarpsþáttum um austfirskan fróðleik af ýmsu tagi. Mesta verk sem eftir hann liggur er hin ítarlega skrá yfir mannanöfn, drauga, vættir og staði við seinni útgáfu á þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar. Hann lést í Reykjavík árið 2007.

Áramótakort 2019

Jóhann Magnús fæddist árið 1866 í Meðalnesi í Fellum. Hann var 9 ára 1875 þegar foreldrar hans, Bjarni Andrésson og Kristbjörg Magnúsdóttir, tóku sig upp frá Fljótsbakka í Eiðaþinghá og fluttu með börnin til Kanada í von um betri daga. Fyrstu árin dvöldust þau í Nova Scotia en settust síðan að í Íslendingabyggð í nágrenni Winnipeg þar sem Jóhann gekk í barnaskóla. Helsta starf hans varð síðar barnakennsla víða í Íslendingabyggðum vestanhafs. Jóhann hóf kennslu í Árnesi við Winnipegvatn árið 1889 og um svipað leyti hóf hann að hasla sér völl sem rithöfundur. Fyrsta bók Jóhanns Sögur og kvæði kom út í Winnipeg 1892. Síðar hóf hann að skrifa skáldsögur og fjallaði sú fyrsta þeirra Eiríkur Hansson um lífsbaráttu landnemans og barna hans. Aðrar þekktar bækur eftir Jóhann eru Brasilíufararnir og Í Rauðárdalnum. Kona Jóhanns var Guðrún Hjörleifsdóttir og létust þau bæði Elfros í Saskatchewan árið 1945.

Áramótakort 2020

Sigurður Guðgeir Ingvarsson fæddist 28. febrúar 1946 á Desjarmýri í Borgarfirði eystra. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum í Reykjavík vorið 1968 og útskrifaðist sem félagsráðgjafi frá Den Sociale Højskole í Óðinsvéum árið 1974. Heimkominn frá Danmörku vann Guðgeir næstu árin í fagi sínu í Reykjavík og á Akranesi en tók við nýstofnuðu starfi félagsmálastjóra á Egilsstöðum 1986 og gegndi því til ársins 1999. Þá tóku við störf við kennslu og blaðamennsku í nokkur ár þar til hann réðist til Héraðsskjalasafns Austfirðinga þar sem hann starfaði til æviloka. Guðgeir hafði ánægju af starfi sínu, var samviskusamur og viðkunnanlegur í umgengni og nutu bæði gestir og samstarfsfólk þess. Skipulagshæfileikar og nákvæmni hans kom sér vel þegar byrjað var að skrá skjöl í vörslu safnsins í tölvu. Síðari árin í starfi átti Guðgeir við vanheilsu að stríða og ákvað hann 66 ára að minnka við sig vinnu og byrja að taka lífeyri. Aukinn frítíma hugðist hann nota til að sinna áhugamálunum sínum; bóklestri, fræðimennsku og ritstörfum. Sá tími reyndist endasleppur þar sem andlát hans bar óvænt að þann 14. febrúar 2012. Kona Guðgeirs var Anne Kampp leirlistarkona og þeirra börn eru Ingvar Smári, Guðný Elísa og Elín Helga.