Skip to main content

admin

Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2021

Í dag er Norræni skjaladagurinn haldinn víða um Norðurlönd. Tilgangur dagsins er að minna á mikilvægi skjalasafna og kynna starfsemi þeirra og safnkost.

Mörg undanfarin ár hafa Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfnin hér á landi haldið upp á daginn með ýmsum hætti. Efni sem orðið hefur til undanfarin ár má nálgast á vefsíðunni skjaladagur.is, sem er í umsjá Þjóðskjalasafnsins, en á hverju ári hefur eitt þema ráðið för en söfnin unnið með þau hvert með sínum hætti.

Í ár mun efni ekki verða fært inn á síðuna en ýmis söfn hafa eigi að síður unnið með þema ársins, sem að þessu sinni er „Sveitalíf“. Efni frá söfnunum er miðlað í gegnum Facebook-síðuna Skjalasöfnin kynna sig.

Hér á Héraðsskjalasafni Austfirðinga var ákveðið í því samhengi að beina sjónum að heimagrafreitum, sem eru algengari í umdæmi Héraðsskjalasafns Austfirðinga en víðast annarsstaðar. Eftir því sem næst verður komist var stofnað til 54 heimagrafreita á svæðinu á 70 ára tímabili frá árinu 1893 til 1963. Bannað var með lögum að stofna nýja slíka grafreiti það ár.

Elsta heimagrafreit á Austurlandi er að finna að Rangá í Hróarstungu og er konunglegt leyfisbréf fyrir honum varðveitt hér á safninu. Það er til sýnis hér að neðan, ásamt leyfisbréfi þess næstelsta sem er að Sleðbrjót í Jökulsárhlíð. Það leyfisbréf var afhent safninu fyrir um hálfum mánuði síðan í kjölfar málstofu sem safnið stóð fyrir. Þar flutti Dr. Hjalti Hugason erindi en hann hefur rannsakað efnið um hríð og birt um það greinar.

Í tilefni Norræna skjaladagsins birtir Héraðsskjalasafn Austfirðing upptöku af málstofunni þar sem fræðast má um þennan merkilega sið, að jarðsetja í heimagrafreit.

Skjölin sem verða til sýnis út árið eru þessi:

1. Konunglegt leyfisbréf til Halls Einarssonar og Gróu Björnsdóttur, Rangá, til að gera heimagrafreit árið 1893. (Eink 1-8)
2. Konunglegt leyfisbréf til Solveigar Sigurðardóttur, Sleðbrjót, til að gera heimagrafreit árið 1895. (Eink 559-26)
3. Bók heimilisgrafreits á Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. (Eink 1-17)
4. Eyðublað fyrir upplýsingar um heimagrafreiti, ætlað próföstum til útfyllingar. (Stofn 125, Kirk 54-1)
5. Tvær ljósmyndir úr Ljósmyndasafni Austurlands af heimagrafreitnum að Rangá í Hróarstungu.

 

Upptöku af málstofunni má skoða hér að neðan.