Skip to main content

admin

„Æ blessaður skrifaðu mér þá ferð fellur“ - Bréfasafn Páls Pálssonar frá Hallfreðarstöðum

  22. október 2022 kl. 10:00

Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, flytur fyrirlestur í Sláturhúsinu á Egilsstöðum um rannsóknir sínar á bréfasafni Páls Pálssonar frá Hallfreðarstöðum. Í safninu er að finna mörg bréf frá fjölskyldu Páls á Hallfreðarstöðum, ættingjum, vinum og kunningjum sem varpa ljósi á sögu og samfélag á Héraði um og fyrir miðja 19. öld.

Árið 1817 var ellefu ára drengur frá Hallfreðarstöðum í Hróarstungu sendur suður í Odda á Rangárvöllum til fósturs og menntunar hjá prófastshjónunum þar. Drengurinn var Páll Pálsson, elstur fimm barna sýslumannshjónanna Malene Jensdóttur og Páls Guðmundssonar. Páll eldri, sem var af þekktri og harðsnúinni sýslumannaætt á Héraði og í Vopnafirði (þó ljúfmenni sjálfur), dó árið 1815 og síðan þá hafði ekkjan Malene leitað leiða til að halda saman því af heimilinu sem hún gat og tryggja framtíð barnanna.
Brottför Páls markar upphafið á viðamiklum bréfaskiptum hans og fjölskyldunnar heima á Héraði og síðar við vini og kunningja víðsvegar um land og í Kaupmannahöfn. Bréfasafn Páls, sem oft er kallaður Páll stúdent og skrifarinn á Stapa, er varðveitt á handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns í Reykjavík. Það hefur í áratugi vakið athygli fræðimanna og áhugafólks um sagnfræði, einkum bréf þekktra karlmanna í vinahópi Páls.
Í þessum fyrirlestri eru það aftur á móti bréf mömmu, ömmu og systkina Páls sem verða til umræðu, auk bréfa annarra ættingja og vina Páls af Héraði. Þar er oftar en ekki hið hversdagslega í fyrirrúmi: Gleði og sorg, sjúkdómar og dauði, blíðviðri og harðindi, brúðkaup og jarðarfarir. Hinu óvenjulega bregður líka fyrir, svo sem hvítabirni og skrímslinu í Lagarfljóti.
Í fyrirlestrinum verður rætt um fjölskylduna, efni bréfanna og túlkun þeirra; hvað brotakenndar heimildir um fortíðina segja okkur um fólkið sem þá lifði og dó.
---
Erla Hulda Halldórsdóttir er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hún leggur stund á rannsóknir á sviði kvenna- og kynjasögu, einkum sögu 19. og 20. aldar. Jafnframt hefur hún rannsakað sendibréf fyrri tíma, fræðilegar ævisögur og sagnaritun út frá kynjasjónarhorni. Erla Hulda hefur birt rannsóknir sínar í fræðitímaritum og -bókum hér á landi og erlendis. Bók hennar Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903, kom út árið 2011. Erla Hulda er einn höfunda bókarinnar Konur sem kjósa. Aldarsaga, sem kom út árið 2020 og hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fræðibóka.
Erla Hulda hefur um árabil unnið að rannsóknum á bréfum Sigríðar Pálsdóttur til Páls bróður síns og skrifar nú ævisögu hennar undir vinnuheitinu Bréf til bróður míns. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871. Af greinum á íslensku um Sigríði Pálsdóttur og bréf Hallfreðarstaðafólksins má nefna Sögu 51:2 (2013), Skírni 2013 og Sögu 53:1 (2015).
---
Fyrirlesturinn er sá fyrsti í röð fræðsluerinda um rannsóknir og fræði á Austurlandi og um Austurland og Austfirsk málefni. Að fyrirlestraröðinni standa Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri, Hallormsstaðaskóli, Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Minjasafn Austurlands, Sögufélag Austurlands og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi.
---
Streymi verður af fyrirlestrinum inni á youtube rás Skriðuklausturs https://youtu.be/ypwVjovitMc