Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Ljósmyndasýning í Safnahúsinu stækkar

Síðastliðinn vetur opnaði ljósmyndasýning á jarðhæð Safnahússins. Við opnunina voru 15 myndir á sýningunni, allar teknar á Austurlandi, flestar á 10. áratug 20. aldar. Myndirnar eru úr safnkosti Ljósmyndasafns Austurlands en þær eru verk tveggja ljósmyndara, þeirra Önnu Ingólfsdóttur og Sigurðar Aðalsteinssonar sem bæði hafa starfað sem fréttaritarar á Austurlandi. Myndefnið er fjölbreytt enda austfirskt mannlíf þema sýningarinnar.

Frá því í upphafi febrúar á þessu ári hefur á vegum Héraðsskjalasafns Austfirðinga og Ljósmyndasafns Austurlands verið unnið að verkefni við skönnun, skráningu og frágang ljósmynda. Verkefnið hlaut styrk á fjárlögum yfirstandandi árs en sveitarfélagið Fljótsdalshérað kemur einnig að því með söfnunum. Alls starfa þrír starfsmenn við verkefnið sem mun verða framhaldið til loka þessa árs.

Tólf nýjum myndum hefur nú verið bætt við ljósmyndasýningu í Safnahúsinu. Þær myndir sem um ræðir eru flestar úr safni Önnu og Sigurðar en einnig er þar að finna myndir úr safni Vikublaðsins Austra sem gefið var út á Egilsstöðum. Myndirnar í söfnum Önnu og Sigurðar og í Austrasafninu skipta þúsundum. Hér hafa verið valin örfá sýnishorn sem gefa innsýn í mannlíf og búskap á Fljótsdalshéraði á tíunda áratug síðustu aldar.

Sýningin verður opin til ágústloka og er aðgangur ókeypis.

Á vefsíðu Héraðsskjalasafns Austfirðinga (www.heraust.is) er að finna fleiri sýningar á ljósmyndum úr safnkosti Ljósmyndasafns Austurlands.

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga