Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Horft í linsur Kadettsins og Konna

Að þessu sinni eiga tveir áhugaljósmyndarar, þeir Guðmundur R. Jóhannsson og Hákon Aðalsteinsson, myndirnar á ljósmyndasýningunni sem í dag birtist hér á heimasíðu Héraðsskjalasafnsins. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að skönnun á filmum og myndum í varðveislu Ljósmyndasafnsins og eru söfn þeirra Guðmundar og Hákonar á meðal þeirra sem búið er að skanna og skrá. Skráningu má þó endalaust bæta og eru frekari upplýsingar vel þegnar.

Guðmundur var starfsmaður Kaupfélags Héraðsbúa á árunum 1960-1963 og gekk þá undir nafninu Guðmundur Kadett. Hann tók á þessu tímabili mikinn fjölda mynda. Sýna margar þeirra samstarfsmenn og félaga í leik og starfi en aðrar eru teknar á ferðalögum um Austurland. Þar af leiðir að myndir sem tengjast Kaupfélaginu og starfsemi þess eru áberandi sem er við hæfi þar sem nú er opin í Sláturhúsinu sýning á vegum Minjasafns Austurlands sem fjallar um sögu og starf Kaupfélags Héraðsbúa.
Myndir Hákonar eru teknar á árabilinu 1965 -1975. Hákon var um skeið fréttaritari Morgunblaðsins á Héraði og fangaði því mörg söguleg augnablik á filmu.

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga