Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Þrjár sýningar opna í Safnahúsinu

Það sem af er þessum mánuði hafa þrjár nýjar sýningar opnað á vegum safnanna í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Í dag, föstudaginn 11. mars, opnar ljósmyndasýning á jarðhæð Safnahússins. Alls eru 15 myndir á sýningunni og eru þær allar teknar á Austurlandi, flestar á 10. áratug 20. aldar. Myndirnar koma úr safnkosti Ljósmyndasafns Austurlands en þær eru verk tveggja ljósmyndara, þeirra Önnu Ingólfsdóttur og Sigurðar Aðalsteinssonar sem bæði hafa starfað sem fréttaritarar á Austurlandi. Myndefnið er fjölbreytt enda austfirskt mannlíf þema sýningarinnar. Sýningin verður opin fram í apríl og er aðgangur ókeypis.

Frá því í upphafi febrúar á þessu ári hefur á vegum Héraðsskjalasafns Austfirðinga og Ljósmyndasafns Austurlands verið unnið að verkefni við skönnun, skráningu og frágang ljósmynda. Verkefnið hlaut styrk á fjárlögum yfirstandandi árs en sveitarfélagið Fljótsdalshérað kemur einnig að því með söfnunum. Alls starfa þrír starfsmenn við verkefnið sem mun verða framhaldið til loka þessa árs. Myndirnar á sýningunni sem opnar í dag er meðal þess myndefnis sem unnið hefur verið með á fyrsta mánuði verkefnisins. Meginmarkmið þess er að gera safnkost Ljósmyndasafns Austurlands aðgengilegri fyrir áhugasama og er gert ráð fyrir að síðar verði einhver hluti safnsins gerður aðgengilegur á veraldarvefnum. Sá áfangi verkefnisins sem nú er í gangi nær þó ekki til slíkrar birtingar. 

Samhliða sýningunni á jarðhæð Safnahússins opnar önnur ljósmyndasýning á vef Héraðsskjalasafns Austfirðinga (má nálgast undir flipanum Myndir hér á siðunni.). Myndirnar sem þar birtast eru alls 20 talsins og koma þær úr safni Sigurðar Blöndal á Hallormsstað. Efni myndanna er fjölbreytt en þar gefur m.a. að líta myndir frá Héraðsvökum og úr starfi Skógræktar ríksins. Flestar eru myndirnar teknar á Fljótsdalshéraði og er meginhluti þeirra tekin á 8. áratug 20. aldar.

Þriðja sýningin opnaði  í Safnahúsinu fyrr í þessum mánuði. Bókasafn Héraðsbúa hefur sett upp sýningu um Einar H. Kvaran rithöfund. Einar var fæddur í Vallanesi á Völlum þann 6. desember 1859 og var einn af brautryðjendum raunsæisstefnu í íslenskum bókmenntum. Hann skrifaði skáldsögur, smásögur, ljóð og leikrit og má þar þekktast nefna Lénharð fógeta. Þessi sýning var fyrst sett upp í Þjóðarbókhlöðunni í desember 2009 í tilefni af því að að 150 ár voru liðin frá fæðingu Einars. Sýninguna má skoða í stiganum á leiðinni upp á bókasafn og rit hans liggja einnig þar frammi.

Nánar má fræðast um sýninguna um Einar Kvaran á vef Fljótsdalshéraðs (www.fljotsdalsherad.is)

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga