Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Engin sumarlokun hjá Héraðsskjalasafninu

Í mörg ár hefur þeirri venju verið haldið hjá Héraðsskjalasafni Austfirðinga að safnið sé opið alla virka daga ársins. Ekki hefur því verið um sumarlokanir að ræða hjá safninu heldur hafa starfsmenn þess hagað sumarleyfum sínum með þeim hætti að ávallt sé a.m.k. einn starfsmaður á staðnum til að sinna safngestum og svara erindum sem berast. Þessari venju er viðhaldið nú í sumar.

Í júlímánuði, aðal sumarleyfismánuði landsmanna, þegar margir eru á ferðinni og grill og útlegur eiga hug margra, er þó jafnan töluverður hópur sem kemur í héraðsskjalasafnið. Í júlí 2008 komu 152 gestir í safnið og í sama mánuði 2009 voru gestirnir 146 talsins. Mánuðurinn hefur því verið með gestkvæmustu mánuðum í safninu undanfarin ár. Samsetning gestahópsins yfir sumarmánuðina er vitanlega nokkuð önnur en á veturna. Á sumrin eru skólar jafnan í sumardvala og því lítið um skólafólk í safninu. Í þess stað koma ferðamenn í nokkrum mæli í safnið, bæði innlendir og erlendir, hinir síðarnefndu oftar en ekki afkomendur Íslendinga sem flutti til Vesturheims um og fyrir aldamótin 1900, komnir í safnið til að afla sér upplýsinga um forfeður sína og skyldmenni. Einnig er alltaf nokkuð um að Íslendingar, bæði heimafólk og aðrir, noti tímann í sumarfríinu og komi í safnið í leit að ýmiskonar upplýsingum. 

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga