Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Ný ljósmyndasýning - Vorsýning

Ný ljósmyndasýning birtist nú hér á heimasíðu Héraðsskjalasafnsins. Nefnist sýningin einfaldlega Vorsýning. Samkvæmt venju hefur Arndís Þorvaldsdóttir haft veg og vanda af gerð sýningarinnar. Nánar má lesa um tilurð myndanna í sýningunni með því að klikka á fyrirsögn þessarar fréttar. Líkt og jafnan áður er leitað til sýningargesta eftir upplýsingum um einstaka myndir í sýningunni.

Á vorsýningu ljósmyndasafnsins er víða leitað fanga. Birtar eru nokkrar myndir frá skíðamóti Austurlands sem haldið var á Fagradal í byrjun áttunda áratugar 20. aldar. Myndirnar tók Jón Ásgeir Jónsson pípulagningarmaður sem um skeið var búsettur á Egilsstöðum. Margt af því fólki sem þar sést er óþekkt og eru upplýsingar þegnar með þökkum (í síma 471 1417 eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.). 

Undanfarin ár hefur Sólveig Sigurðardóttir á Seyðisfirði verið óþreytandi við söfnun mynda og skannað fjölda þeirra inn á diska. Við birtum hér myndir úr einkasöfnum þriggja Seyðfirðinga sem Sólveig hefur skannað. Um er að ræða söfn úr fórum Guðjóns Sæmundssonar, Pálínu Waage og Vilbergs Sveinbjörnssonar. Í nokkrum tilvikum voru myndirnar til bæði í safni Pálínu og Guðjóns og því erfitt að úrskurða hvaðan þær komu í upphafi. Úr þessum söfnum hafa m.a. verið valdar myndir sem sýna þá samgönguerfiðleika sem menn áttu við að etja á Fjarðarheiði fyrir fáeinum áratugum. Einnig eru myndir frá mannlífi á Seyðisfirði í leik og starfi.

Þá drögum við fram nokkrar fjölskyldu- og fermingarmyndir á ýmsum tíma.

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga