Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Skráningarverkefni framhaldið

Snemma árs 2008 hófst fjarvinnsluverkefni á vegum Þjóðskjalasafns Íslands við skráningu manntala, en verkefnið hefur verið unnið fyrir fjárframlög frá ríkinu. Frá því í mars 2008 hefur Héraðsskjalasafn Austfirðinga verið þátttakandi í verkefninu og hafa verið tvö stöðugildi vegna þessa hér í safninu. Fjögur önnur héraðsskjalasöfn hafa einnig tekið þátt í verkefninu.

Miðað við fyrirliggjandi samninga leit út fyrir að verkefninu lyki um nýliðin áramót og voru á haustdögum af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins engin áform uppi um að halda verkefninu áfram. Sem betur fer fór þó svo að fjárlaganefnd Alþingis ákvað í desember sl. að veita 75 milljónum af fjárlögum ársins 2010 til skráningarverkefna á vegum ÞÍ og getur það því haldið áfram.

Því er ekki að leyna að það er einkum fyrir þrautseigju héraðsskjalavarðanna sem hafa haft hluta verkefnisins hjá sínum söfnum sem því er framhaldið. Fulltrúar í fjárlaganefnd féllust á þau meginrök okkar að skynsamlegt væri að halda verkefninu áfram ekki síst með tilliti til þess að hér er um að ræða verkefni þar sem tilfallandi kostnaður er nær eingöngu launakostnaður.

Það er afar ánægjulegt eins og nú árar að geta hafið nýtt ár á því að segja frétt af störfum sem haldist á svæðinu. Störfum – sem þar til fyrir skömmu – allt benti til að myndu tapast.

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga