Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Norræni skjaladagurinn 2009

Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum hafa lengi kynnt starfsemi sína með ýmsu móti. Frá 2001 hafa þau sameinast um árlegan kynningardag sem að þessu sinni er laugardagurinn 14. nóvember. Mörg skjalasöfn opna hús sín fyrir almenningi á þessum degi og vekja athygli á ákveðnum skjalaflokkum með sýningum á völdum skjölum. Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfn séu tryggir vörslustaðir skjala og er fólk hvatt til að hafa samband við starfsfólk skjalasafna ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað á að gera við.

Þema skjaladagsins í ár á Íslandi er „Konur og kvenfélög“ en Félag héraðsskjalavarða ásamt Kvenfélagasambandi Íslands hefur staðið fyrir átaki á söfnun skjala kvenfélaga um land allt. Á vef skjaladagsins www.skjaladagur.is er sýnishorn af þeim skjölum sem kvenfélög víða um land hafa afhent á héraðsskjalasöfn auk ýmissa annarra skjala sem tengjast konum og hagsmunabaráttu þeirra.

Í tilefni dagsins verður skipulögð dagskrá í Þjóðskjalasafni Íslands og mörg hérðasskjalasafnanna verða einnig með opið hús þennan dag. Héraðsskjalasafn Austfirðinga tekur þátt í norræna skjaladeginum með framlagi á vef skjaladagsins. Af sama tilefni verður sýning í Safnahúsinu á Egilsstöðum á gögnum úr fórum austfirskra kvenfélaga og myndum af konum í leik og starfi og er það hluti úr stærri dagskrá þennan dag, en hún hefst kl. 16:00.

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga