Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Fjölbreytt skjöl afhent safninu

Eitt af hlutverkum héraðsskjalasafna er að safna „sögulega mikilvægum“ skjölum frá fyrirtækjum, félögum og einstaklingum á starfssvæði safnsins. Það er vitanlega alltaf álitamál hvaða skjöl eru sögulega mikilvæg en í því sambandi má styðjast við þá þumalputtareglu að aðilar sem hafi haft mótandi áhrif á samfélag sitt skilji eftir sig slík skjöl.

Að undanförnu hefur verið skilað til héraðsskjalasafnsins gögnum úr ýmsum áttum sem eru því fjölbreytt bæði að gerð og innihaldi. Er hér gaman að reifa nokkur dæmi um ólíkan uppruna skjala sem hafa bæst við héraðsskjalasafnið á síðustu vikum og mánuðum.

Kaupfélag Héraðsbúa lék um langa hríð stórt hlutverk í atvinnu- og menningarlífi Fljótsdalshéraðs og nágrannabyggða. Töluvert kom inn til safnsins í sumar af gögnum KHB og er von á meiru síðar, en fyrir í safninu var dágott safn skjala frá KHB. Í sumar bárust einnig til safnsins skjöl frá Sláturfélagi Suðurfjarða sem hafði veruleg umsvif á síðasta aldarfjórðungi 20. aldar og rak m.a. sláturhús á Breiðdalsvík. Sláturfélagið var áberandi aðili á sínu svæði og gerir það þessa afhendingu sérstaklega merkilega að fundargerðabækur hafa varðveist heildstætt frá stofnfundi félagsins til slitafundar þess.

Af skjölum einstaklinga má nefna að safninu voru á nýliðnu sumri afhent nokkur bréf, umslög, kort og símskeyti sem Jóhannes Sveinsson Kjarval sendi Þórði Jónssyni og Sigrúnu Pálsdóttur í Sigtúni á Borgarfirði eystri. Frá félögum hafa komið til safnsins allstórar sendingar skjala íþróttafélagsins Hattar á Egilsstöðum og Ungmennafélagsins Hrafnkels Freysgoða í Breiðdal.

Þessi stutta upptalning er vitanlega aðeins sýnishorn af því sem safninu hefur borist á undanförnum misserum og fer því fjarri að hún sé tæmandi. Hún gefur þó einhverja nasasjón af fjölbreytni þeirra skjala sem safninu berast.

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga