Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Nýliðnir atburðir í safnahúsinu

Mikið var um að vera síðustu dagana í apríl í safnahúsinu. Á sumardaginn fyrsta var hin árlega sumargleði safnahússins haldin og tókst hún að vanda vel og var aðsók góð. Í hádeginu föstudaginn 24. apríl var lokahátíð leiklistarverkefnisins Þjóðleiks sett í anddyri safnahússins að viðstöddu fjölmenn, en meðal gesta voru forseti Íslands, menntamálaráðherra og þjóðleikhússtjóri. Síðustu tvo daga aprílmánaðar var svo haldin á Egilsstöðum árlegur fundur skjalavarða.

Á sumardaginn fyrsta ríkti mikil gleði í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Dagskrá dagsins hófst með því að ný sýning Minjasafns Austurlands var opnuð. Hún nefnist "Dauðir rísa ... úr gröfum Skriðuklausturs" og er sett upp í samstarfi við Skriðuklaustursrannsóknir. Sýningin er í sýningarsal minjasafnsins og á hún að standa til 1. maí á næsta ári. Umfjöllunarefni sýningarinnar er fólkið sem grafið hefur verið upp úr kirkjugarðinum á Skriðuklaustri við fornleifauppgröftinn sem þar hefur staðið undanfarin ár. Á sýningunni gefur að líta beinagrindur einstaklinga sem jarðsettir voru í garðinum auk ýmissa muna sem komið hafa í ljós við uppgröftinn. Eftir opnunina tók sönghópurinn Hjartafimmurnar nokkur lög og að því loknu stigu félagar í Þjóðdansafélaginu Fiðrildunum dans. Gefnar voru sumargjafir í formi lesturs, tónlistar og dans og gestir fengu að reyna á hæfileika sína við að búa til sumarlegt föndur. Um kvöldið var haldin ljósmyndasýning þar sem myndir úr Ljósmyndasafni Austurlands voru sýndar. Þema sýningarinnar voru bæjarhátíðir og íþróttaviðburðir. Vel á annað hundrað manns heimsótti safnahúsið á sumardaginn fyrsta er ljóst að sú hefð að bjóða upp á dagskrá í húsinu þennan dag er búin að festa sig í sessi. 

Í hádeginu föstudaginn 24. apríl var margt um manninn í anddyri Safnahússins, en þá buðu þjóðleikhússtjóri og þjóðleikhúsráð til móttöku í Safnahúsinu vegna lokahátíðar leiklistahátíðarinnar Þjóðleiks sem er umfangsmesta leiklistarverkefni sem sett hefur verið á fót hér á landi. Auk þjóðleikhússtjóra og aðstandenda Þjóðleiks, sem ávörpuðu viðstadda og veittu viðurkenningar, voru meðal gesta Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra. Um 100 manns voru í móttökunni. Að henni lokinni hófst sjálf lokahátíðin með leiksýningum og ýmsum uppákomum sem stóðu alla helgina. Þátttakendur í Þjóðleik voru einkum ungt fólk og setti sá fjöldi sem tók þátt í hátíðinni mikinn svip á Egilsstaði og nágrenni helgina sem lokahátíðin stóð.  

Dagana 29. og 30. apríl var haldinn á Hótel Héraði á Egilsstöðum árlegur fundur skjalavarða. Slíka fundi sækir starfsfólk héraðsskjalasafna landsins auk starfsmanna Þjóðskjalasafns, en þeir hafa ekki áður verið haldnir á Austurlandi. Hrafnkell Lárusson, forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga, átti sæti í undirbúningsnefnd fundarins og kom þannig að skipulagningu og framkvæmd hans. Nánar er fjallað um fundinn í pistli hér á heimasíðunni. 

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga