Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Austfirsk bókmenning og jólum heilsað

Þá eru afstaðnir tveir helstu viðburðirnir í safnahúsinu á aðventunni, bókavakan og jólagleðin. 
Síðastliðið fimmtudagskvöld (4. desember) var bókvaka haldin í safnahúsinu og var hún vel sótt. Um 40 manns mættu og hlýddu á upplestur úr fimm bókum og umfjallanir um rúman tug bóka annarra bóka. Rannveig Þórhallsdóttir, Hálfdán Haraldsson og Ingunn Snædal lásu úr verkum sínum, auk þess sem Smári Geirsson las úr bókinni Þræðir - Hrafnkell A. Jónsson foringi og fræðimaður, en Smári er annar tveggja ritstjóra þeirrar bókar. 

Guðjón Sveinsson átti síðan að vera fimmti lesarinn á bókavökunni en þegar til kom átti hann ekki heimangengt og tók Kristrún Jónsdóttir að sér að lesa úr nýútkominni ljóðabók Guðjóns. Eins og sjá má af upptalningu höfunda var bókavakan alaustfirsk þetta árið enda af nógu að taka þar sem Austfirðingar hafa verið sérlega atorkusamir við bókaútgáfu á yfirstandandi ári. Bókavakan hefur nú verið endurreist eftir tveggja ára hlé og er það ætlun okkar að hún verði á ný að árlegum viðburði. Góð mæting og afar jákvæð viðbrögð gesta er okkur öflug hvatning til að viðhalda bókavöku sem árlegum viðburði í safnahúsinu.  
 
Sunnudaginn 7. desember var svo líf og fjör í safnahúsinu enda höfðar Jólagleðin til allrar fjölskyldunnar. Reynt var að halda kostnaði við þátttöku í Jólagleðinni í algjöru lágmarki og var því nær allt ókeypis. Á jarðhæð safnahússins voru jólasmiðjur, þar mátti búa til músastiga og hefðbundna jólapoka, perluföndra, skera út laufabrauð með hnífum og setja saman gamaldags jólatré og skreyta með lyngi. Í sýningarsal minjasafnsins voru kynntar jólahefðir nokkurra Evrópulanda, nánar tiltekið Austurríkis, Svíþjóðar og Þýskalands, og fengu gestir að smakka á veitingum frá hverju landi. Í boði voru einnig lummur, kakó og kaffi eins og gestir gátu í sig látið. Þá vakti það mikla lukku (og smá hræðslu hjá yngstu börnunum í fyrstu) þegar tveir alíslenskir jólasveinar kíktu í heimsókn, þeir Gáttaþefur og Hurðaskellir, ásamt jólakettinum og mömmu sinni henni Grýlu. Eftir smá fortölur fengust þau þó til að ganga með okkur í kringum jólatréð og syngja nokkur jólalög og tóku þá undir fullum hálsi.

Allir virtust skemmta sér prýðilega. Það er mjög gaman þegar safnahúsið fyllist af fólki og lífi eins og gerðist á sunnudaginn.

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga