Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Haustkoma og fundaferð

Starfsemi héraðsskjalasafnsins er nú óðum að færast meira í hausthaminn eins og tíminn getur tilefni til. Nú hafa skólar verið settir og þá fer skólafólk að verða áberandi meðal gesta safnsins og er það vel. En haustinu fylgir fleira þ.á m. fundir og ráðstefnur. Í næstu viku mun forstöðumaður héraðsskjalasafnsins sækja skjalavarðaþing í Stykkishólmi sem og safnaskóla FÍSOS sem nú er haldinn á Ísafirði.

Aðsókn að safninu yfir sumarmánuðina var meiri en gert var ráð fyrir en gestir í safninu frá júníbyrjun til ágústloka voru alls 409. Þar af komu 152 gestir í safnið í júlímánuði og kom sú staðreynd starfsfólki safnsins nokkuð á óvart. Spennandi verður að sjá í lok árs hver heildaraðsókin að safninu verður en alls sóttu rúmlega 1100 gestir safnið á fyrstu átta mánuðum ársins.

Einn af árvissum þáttum í starfsemi héraðsskjalasafna landsins er árlegur fundur starfsmanna skjalasafnanna með starfsfólki Þjóðskjalasafns. Fundurinn verður þetta árið haldinn í Stykkishólmi nk. mánudag, 15. september. Aðalumræðuefni fundarins verður skýrsla með niðursstöðum úttektar sem nýlega var gerð á starfsemi héraðsskjalasafna landsins. Mun innihald skýrslunnar vafalaust verða fróðlegt enda starfa héraðsskjalasöfn landsins mög hver á ólíkum forsendum og stærð þeirra er mjög breytileg. Fleiri mál munu koma til umræðu á fundinum, þ.á m. verður rætt um verkefni sem Þjóðskjalasafnið hefur umsjón með en unnin eru á héraðsskjalasöfnunum en Héraðsskjalasafn Austfirðinga er einmitt þátttakandi í einu slíku verkefni.

Í framhaldi af skjalavarðafundinum hefst vest-norræn skjalaráðstefna og verður hún einnig haldin í Stykkishólmi. Á henni bera saman bækur sínar starfsmenn íslenskra, grænlenskra og færeyskra skjalasafna og mun sú ráðstefna standa frá þriðjudegi til fimmtudags. Hrafnkell Lárusson mun sækja báða fundina fyrir hönd Héraðsskjalasafns Austfirðinga.

Næstkomandi miðvikudag verður svo safnaskóli Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) settur á Ísafirði og mun hann standa fram til föstudags. Fyrir tveimur árum var safnaskólinn haldinn á Egilsstöðum og bar Minjasafn Austurlands þá hitann og þungann af skipulagningu og framkvæmd hans. Safnaskólinn er námsráðstefna safnafólks í landinu þar sem það hittist, hlýðir á fyrirlestra og miðlar upplýsingum sín á milli. Er þetta mikilvægur vettvangur fyrir safnafólk til að læra hvert af öðru og mynda tengsl. Hrafnkell Lárusson mun sækja safnaskólann fyrir hönd Ljósmyndasafns Austurlands.  

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga