Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Vel heppnaður safna- og markaðsdagur

Síðastliðinn laugardag var haldinn safna- og markaðsdagur í safnahúsinu. Þessi atburður var liður í yfirstandandi Ormsteiti sem virðist ætla að verða afar vel heppnað þetta árið. Svo var einnig með safna- og markaðsdaginn sem hófst kl. 11 fyrir hádegi og stóð fram eftir degi. Þrátt fyrir að margt væri um að vera í afþreyingu og skemmtun þennan dag bæði á Egilsstöðum, Seyðisfirði og víðar í nágrenninu komu á þriðja hundrað gestir í safnahúsið á laugardaginn.

Sýningar minjasafnsins voru opnar og aðgangur að þeim ókeypis. Boðið var upp á kjötsúpu og lummur og rann hvort tveggja ljúflega í gesti. Leikarar og tónlistarmenn skemmtu gestum og safnið var lífgað við með ýmsum hætti. Starfsfólk safnahússins var að vonum ánægt með daginn, bæði góða aðsókn sem og góð viðbrögð gesta við því sem boðið var uppá. Það er afar ánægjulegt hversu mikinn áhuga fólk hér á svæðinu sýnir jafnan þeim atburðum sem safnahúsið stendur fyrir og er það afskaplega hvetjandi fyrir okkur sem störfum í húsinu. En það sýnir líka hve starfsemi hússins er mikilvægur liður í menningarlífi svæðisins.

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga