Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Fyrirlestur um Vestur-Íslendinga

Á sumardaginn fyrsta 20. apríl flutti Stefan Jonasson ritstjóri Lögbergs-Heimskringlu fyrirlestur um Vestur-Íslendinga í Safnahúsinu á Egilsstöðum.

Íslendingar í hinni kanadísku mósaíkmynd - Icelanders and the Canadian Mosaic

Stefan Jonasson fræðimaður, rithöfundur og ritstjóri fjallaði um hvernig Íslendingar urðu hluti af hinu fjölbreytta kanadíska samfélagi. Fyrirlesturinn er í boði Þjóðræknisfélaga Íslendinga hér á landi og í Vesturheimi og er haldinn í samstarfi við Minjasafn Austurlands og Héraðsskjalasafn Austfirðinga. Verkefnið er hluti af The international visits program sem felst í því að félögin styrkja fræðimenn og fyrirlesara til að ferðast, annað hvort frá Íslandi eða til Íslands, til að fjalla um málefni Vestur-Íslendinga.

Fyrirlesturinn fór fram á ensku en hægt var að nálgast útdrátt á íslensku á staðnum. Léttar veitingar voru í boði fyrir áhugasama áheyrendur og miklar umræður sköpuðust.

Árið 2017 eru 150 ár frá stofnun kanadíska sambandsríkisins, ríkis sem varð til við fullveldi gömlu bresku nýlendanna í Norður-Ameríku. Búferlaflutningar Íslendinga til Kanada hófust aðeins fimm árum síðar þegar innflytjandinn Sigtryggur Jónsson kom til borgarinnar Quebec á leið sinni til Ontario. Í innflytjendaflóðinu sem reið yfir á næstu árum gengdi hann lykilhlutverki í því að beina Íslendingum til Kanada og varð til þess að stór hluti Íslendinga settist að þar í landi, frekar en að fara til Bandaríkjanna. Þessir fyrstu íslensku innflytjendur í Vestur-Kanada festu fljótt rætur og samlöguðust samfélaginu sem fyrir var. Síðan þá hafa íslenskir innflytjendur og afkomendur þeirra haft áhrif á nær öllum sviðum kanadísks samfélags. Stefan Jonasson er vel þekktur í kanadísku samfélagi, m.a. fyrir störf sín sem fræðimaður, ritstjóri og rithöfundur. Hann ritstýrir Lögbergi-Heimskringlu, fréttablaði Íslendinga í Vesturheimi sem hefur komið út í Winnipeg síðan 1886.

 

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022