Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Nýr forstöðumaður

Stefán Bogi Sveinsson verður næsti forstöðumaður hjá Héraðsskjalasafni Austfirðinga. Bára Stefánsdóttir lýkur störfum 30. júní.

Fimm umsóknir bárust um stöðuna og ákvað stjórn safnsins á fundi 9. apríl sl. að ráða Stefán Boga Sveinsson sem næsta forstöðumann Héraðsskjalsafns Austfirðinga.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga bs. er byggðasamlag í eigu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi. Fjórir fulltrúar sitja í stjórn og eru þeir tilnefndir af Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppi, Múlaþingi og Vopnafjarðarkaupstað.

Stefán Bogi er lögfræðingur að mennt og er búsettur á Egilsstöðum. Hann lauk kandídatsprófi í lögfræði haustið 2006, var í skiptinámi í réttarsögu, réttarheimspeki og þjóðarétti við Uppsala Universitet árið 2005, lauk námskeiði um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður árið 2007 hjá Lögmannafélagi Íslands og lauk námi til kennsluréttinda í framhaldsskóla frá Háskólanum á Akureyri árið 2011. Hann hóf BA nám í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 2020.

Stefán Bogi er með fjölbreytta starfsreynslu. Hann hefur meðal annars verið framkvæmdastjóri Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands, lögfræðingur hjá Umhverfisstofnun, markaðsstjóri hjá Útgáfufélagi Austurlands/Austurfrétt og leiðsögumaður.

Stefán Bogi hefur unnið að menningartengdum verkefnum, gefið út ljóðabækur, verið virkur í stjórnmálum og félagsstörfum og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á þeim vettvangi. Hann er fulltrúi í skólanefnd Menntaskólans á Egilsstöðum og situr í sveitarstjórn Múlaþings.

Bára Stefánsdóttir, fráfarandi forstöðumaður, lýkur störfum 30. júní en mun aðstoða Stefán við að komst inn í starfið fyrir þann tíma. Stjórn og starfsfólk Héraðsskjalasafns Austfirðinga óskar Stefáni Boga velfarnaðar í nýja starfinu sem hann tekur formlega við þann 1. júlí 2021.

 

 

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022