Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Haustráðstefna héraðsskjalavarða

Haustráðstefna héraðsskjalavarða

Árleg haustráðstefna Félags héraðsskjalavarða á Íslandi var haldin í liðinni viku og fór hún fram í Neskaupstað og á Egilsstöðum.

 Alls tóku 25 manns, starfsfólk héraðsskjalasafna víða að af landinu, þátt í ráðstefnunni auk nokkurra fyrirlesara og leiðbeinenda. Ráðstefnan sjálf fór fram í Safnahúsinu í Neskaupstað dagana 30. september og 1. október, en auk fyrirlestra bauð sveitarfélagið Fjarðabyggð til móttöku og síðan var snæddur hátíðarkvöldverður á Hildibrand hóteli.

Að loknum fyrirlestrum og umræðum síðari daginn skoðuðu gestir Skjala- og myndasafn Norðfjarðar áður en haldið var til Egilsstaða þar sem Safnahúsið var sótt heim og hús tekið á Héraðsskjalasafni Austfirðinga. Þar snæddu gestir léttan hádegisverð í boði sveitarfélagsins Múlaþings.

Auk ráðstefnunnar sjálfrar fór fram aðalfundur Félags héraðsskjalavarða á Íslandi. Kosið var í nýja stjórn félagsins en hana skipa, Björk Hólm Þorsteinsdóttir Héraðsskjalasafni Svarfdæla, Guðfinna M. Hreiðarsdóttir Skjalasafninu á Ísafirði, Lára Ágústa Ólafsdóttir Héraðsskjalasafninu á Akureyri, Sólborg Una Pálsdóttir Héraðsskjalasafni Skagfirðinga og Stefán Bogi Sveinsson Héraðsskjalasafni Austfirðinga.

Ráðstefnan var skipulögð í samvinnu Héraðsskjalasafns Austfirðinga og Skjala- og myndasafns Norðfjarðar. Upphaflega átti ráðstefnan að fara fram haustið 2020 en var frestað um ár vegna Covid-19 faraldursins.

 

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022