Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Norræni skjaladagurinn 9. nóvember 2013

Norræni skjaladagurinn verður haldinn hátíðlegur á Norðurlöndunum laugardaginn 9. nóvember. Í ár er þema dagsins Fjársjóðir úr fórum skjalasafnanna. Markmið dagsins er að vekja athygli á hinu margþætta starfi opinberu skjalasafnanna og þeim merkilegu heimildum sem þau varðveita.

Flest söfnin taka þátt í deginum með einum eða öðrum hætti og kynna sérstaklega þá fjársjóði sem þar má finna. Þá vilja skjalasöfnin hvetja félög og einstaklinga til þess að koma skjölum til varðveislu í skjalasöfnum þannig að þau verði aðgengileg þeim sem eftir leita.

Sameiginlegur vefur

Líkt og fyrri ár sameinast hin opinberu skjalasöfn landsins um sameiginlegan vef, skjaladagur.is , til kynningar á skjaladeginum og áhugaverðu efni tengdu þema hans. Þar er að finna margvíslegt efni við allra smekk og hæfi. Á skjaladagsvefnum má einnig fræðast um skjaladaginn sjálfan og skjalasöfnin sem að honum standa. Þar er einnig dagskrá um atburði sem söfnin standa fyrir í tilefni dagsins. Á skjaladaginn, laugardaginn 9. nóvember nk., verður brugðið upp á vefnum laufléttri getraun úr efni vefsins og eru verðlaun í boði fyrir rétta úrlausn.

Framlag Héraðsskjalasafns Austfirðinga til skjaladagsins í ár er kvikmyndin Austurland eftir Eðvarð Sigurgeirsson. Myndin er einnig sýnd í tilefni af Dögum myrkurs á eftirtöldum tímum:

Sunnudaginn 10. nóvember kl. 14 í Hlymsdölum á Egilsstöðum
Fimmtudaginn 14. nóvember kl. 20 í Sláturhúsinu á Egilsstöðum

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga