Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Nýr fróðleikspistill hefur verið settur á heimasíðu safnsins. Í honum fjallar Guðgeir Ingvarsson um Kristján Jónsson Vopna. Guðgeir stiklar á stóru á æviferli Kristjáns og gerir grein fyrir þeim gögnum sem í safninu eru frá honum komin eða honum tengd.

Einnig má geta þess að bætt hefur verið við fundargerðasafnið á heimasíðunni og eru nú allar fundargerðir stjórnar- og aðalfunda safnsins frá 2003 til þessa dag komnar á heimasíðuna.

Nú þegar árið er hálfnað er rétt að líta yfir það hver aðsóknin hefur verið að safninu fyrstu sex mánuði ársins og bera saman við sama tíma í fyrra. Þeim sið við talningu gesta og erinda/fyrirspurna sem tekin var upp við ársbyrjun 2008 hefur verið haldið þetta ár. Hann felur í stuttu máli í sér daglega skráningu á fjölda gesta og erinda/fyrirspurna. Skjala- og myndbeiðnir eru skráðar með sama hætti. Ekki er gerður greinarmunur á erindum eftir umfangi þeirra eða gestum eftir því hvort þeir stoppa við skemur eða lengur.  

Nú hafa bæst við á heimasíðuna fundargerðir stjórnarfunda og aðalfundar fulltrúaráðs héraðsskjalasafnsins frá árunum 2004 og 2005 og eru þær aðgengilegar undir flipanum skjalasafn hér efst á síðunni.

Nokkuð er um að fólk hafi samband við okkur og komi á framfæri upplýsingum um myndir sem birtast á síðunni. Töluvert hefur komið af ábendingum vegna síðustu myndasýninga og er búið að uppfæra upplýsingar við viðkomandi myndir.

Frá því að ný heimasíða héraðsskjalasafnsins var opnuð fyrir rúmu ári síðan hafa reglulega verið settar inn á hana myndasýningar. Margir lesenda síðunnar hafa komið á framfæri við okkur athugasemdum og leiðréttingum við sumar myndanna sem birtst hafa. Er það vel enda höfum við í mörgum tilvikum verið að kalla eftir frekari upplýsingum, einkum varðandi nöfn fólks. Töluvert vantaði af nöfnum á fólk í síðustu sýningu sem sett var á vefinn í maíbyrjun. Allmargar ábendingar hafa borist og hafa myndatextar verið leiðréttir með tilliti til þeirra. Einnig hafa nokkrir textar við myndir í eldri sýningum verið uppfærðir. Við hvetjum fólk til að vera óhrætt við að senda okkur ábendingar um myndir í síma (471 1417) eða með tölvupósti (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.).

Mikið var um að vera síðustu dagana í apríl í safnahúsinu. Á sumardaginn fyrsta var hin árlega sumargleði safnahússins haldin og tókst hún að vanda vel og var aðsók góð. Í hádeginu föstudaginn 24. apríl var lokahátíð leiklistarverkefnisins Þjóðleiks sett í anddyri safnahússins að viðstöddu fjölmenn, en meðal gesta voru forseti Íslands, menntamálaráðherra og þjóðleikhússtjóri. Síðustu tvo daga aprílmánaðar var svo haldin á Egilsstöðum árlegur fundur skjalavarða.

Síðastliðinn fimmtudag, 12. mars, var haldinn fundur í stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Aðalefni fundarins voru drög að ársskýrslu 2008 og drög að ársreikningi 2008. Fundargerð stjórnarfundarins má nú lesa hér á síðunni undir flipanum skjalasafn/ fundargerðir.

 

Um miðjan febrúar sl. var auglýst eftir starfsfólki til að starfa við manntalsskráningu í Héraðsskjalasafni Austfirðinga, en um er að ræða verkefni sem verið hefur í gangi frá 1. mars 2008 og er unnið undir yfirumsjón Þjóðskjalasafns Íslands. Alls bárust 20 umsóknir um störfin og töluverður fjöldi fyrirspurna þar fyrir utan. Í dag, mánudaginn 2. mars, hófu Ösp Ásgeirsdóttir, Sigurveig Signý Róbertsdóttir, Hulda Þráinsdóttir og Nicole Zelle störf við manntalsskráninguna. Þær Ösp, Sigurveig og Hulda eru nýjar í starfi en Nicole hefur starfað við verkefnið undanfarið ár. Eru þær boðnar velkomnar til starfa.

Ný myndasýning er komin inn á heimasíðu héraðsskjalasafnsins. Sýningin ber yfirskriftina "Atvinna á sjó og landi". Myndirnar í sýningunni eru flestar frá fjórum síðustu áratugum 20. aldar. Eins og nafnið gefur til kynna er meginefni sýningarinnar myndir af fólki við ýmis störf. Þessi sýning opinberar þær sviptingar sem hér hafa orðið í atvinnurekstri á þessu tímabili því flest fyrirtækin sem hér koma við sögu heyra nú sögunni til. Inn á milli í sýningunni eru svo nokkrar myndir úr austfirsku menningarlífi. Töluvert er af óþekktu fólki á myndunum og eru ábendingar vel þegnar um hverjir þarna eru. Ábendingum er hægt að koma á framfæri á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 471 1417.

 

Fyrir skömmu var ákveðið að árlegur skjalavarðafundur þessa árs verði haldinn á Egilsstöðum dagana 28. og 29. apríl næstkomandi. Skjalavarðafundina sækja starfsmenn Þjóðskjalasafns Íslands og héraðsskjalasafna landsins, en í dag eru þau 20 talsins. Fundirnir hafa verið haldnir víða um land í gegnum tíðina en nú kemur það í hlut Héraðsskjalasafns Austfirðinga að vera gestgjafinn. Allajafna hafa skjalavarðafundirnir verið að hausti en aðstæður haga því svo nú að betur þykir henta að hafa vorfund. Nánar verður fjallað um fundinn og dagskrá hans þegar nær dregur.

 

Síðdegis í gær, fimmtudaginn 22. janúar, var opnuð í anddyri Safnahússins ljósmyndasýningin "Til gagns og til fegurðar". Sýningin er hluti samnefndrar ljósmyndasýningar sem hékk uppi í Þjóðminjasafni Íslands á síðasta ári (frá 8. febrúar til 4. maí 2008) og eru myndirnar á sýningunni í Safnahúsinu fengnar að láni frá Þjóðminjasafni. Alls er vel á fjórða tug mynda á sýningunni og mun hún hanga uppi fram á vor en gert er ráð fyrir að hún muni taka breytingum þar sem myndirnar sem bárust voru fleiri en komust fyrir í sýningarrýminu. Breytingar á sýningunni verða auglýstar þegar þær verða. Það má því ganga út frá því vísu að sú sýning sem tekin verður niður í vor mun verða nokkuðt önnur en sú sem opnaði í gær.   

Í upphafi árs 2008 var byrjað að telja, með kerfisbundnum hætti, gesti sem sækja héraðsskjalasafnið heim. Tilgangurinn með talningunni var að safna nákvæmari upplýsingum um fjölda gesta en skráningar í gestabók sýndu, en lengi hafði starfsfólki safnsins verið ljóst að þær voru langt undir raunverulegum gestafjölda. Nú þegar árið 2008 er á enda er vert að reifa helstu niðurstöður talningarinnar.

Í tilefni jólahátíðarinnar höfum við sett jólakortasýninguna inn á vefinn og má finna hana undir flipanum "Myndir" hér efst á síðunni. Kortin eru frá ýmsum tímum en stærstur hluti þeirra er úr safni systkinanna á Höfða á Völlum en einnig eru mörg úr safni Kristínar Gunnlaugsdóttur og Ólafs Stefánssonar. Jafnframt er kominn inn á síðuna fróðlegur pistill um jólakort sem Arndís Þorvaldsdóttir hefur tekið saman. Aðalfundur fulltrúaráðs Héraðsskjalasafns Austfirðinga var haldinn á Breiðdalsvík 9. desember sl. og er fundargerð þess fundar nú aðgengileg hér á vefnum. 

Þá eru afstaðnir tveir helstu viðburðirnir í safnahúsinu á aðventunni, bókavakan og jólagleðin. 
Síðastliðið fimmtudagskvöld (4. desember) var bókvaka haldin í safnahúsinu og var hún vel sótt. Um 40 manns mættu og hlýddu á upplestur úr fimm bókum og umfjallanir um rúman tug bóka annarra bóka. Rannveig Þórhallsdóttir, Hálfdán Haraldsson og Ingunn Snædal lásu úr verkum sínum, auk þess sem Smári Geirsson las úr bókinni Þræðir - Hrafnkell A. Jónsson foringi og fræðimaður, en Smári er annar tveggja ritstjóra þeirrar bókar. 

Fyrstu vikuna í desember verður mikið um að vera í safnahúsinu. Hin árlega jólaskemmtun safnahússins verður haldin sunnudaginn 7. desember og hefst hún kl. 13. Þremur dögum áður, fimmtudagskvöldið 4. desember, verður bókavaka safnahússins, en ákveðið var að endurreisa þann viðburð eftir hlé. Bókavakan hefst kl. 20. Nánar má fræðast um báða þessa viðburði með því að smella á fyrirsögn þessarar tilkynningar.

Þá er komin ný myndasýning inn á vef héraðsskjalasafnsins, en nokkuð er um liðið síðan síðast var sett inn sýning. Nýja sýningin ber yfirskriftina Sjómennska og samkomur og eru í henni myndir sem spanna tímabilið frá upphafi til loka 20. aldar. Myndefnin í sýningunni eru þó mun margvíslegri en yfirskriftin gefur til kynna því hugtakið "samkomur" er hér notað í mjög víðum skilningi auk þess sem inn á milli eru myndir sem hvorki eru teknar af sjómennsku né samkomum. Töluvert er af óþekktu fólki á myndunum og eru ábendingar vel þegnar um hverjir þarna eru. Ábendingum er hægt að koma á framfæri á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 471 1417. 

Í nýliðnum októbermánuði sóttu fleiri gestir héraðsskjalasafnið heim en í nokkrum öðrum mánuði það sem af er ári. Alls komu 272 gestir í safnið á opnunartíma í október sem er tæpum 70 gestum fleira en heimsóttu safnið í febrúar, sem er var fram til þessa eini mánuður ársins þar sem gestafjöldi fór yfir 200 manns. Meginskýringin á fjölda gesta í október er sú að óvenjumikið var um heimsóknir skólahópa í safnið, en um helmingur gesta þennan mánuð komu á þeim forsendum. Er þessi aukning skólaheimsókna afar ánægjuleg og mikilvægur liður í að vekja athygli á starfsemi safnsins. Sé bætti við aðsóknartölur októbermánaðar þeim hóp sem sótti minningardagskrá um Stein Steinarr, sem flutt var sunnudagskvöldið 12. október, fer gestafjöld októbermánaðar fast að 300 manns. Alls sóttu 1486 gestir héraðsskjalasafnið heim á fyrsti 10 mánuðum ársins. 

Síðastliðinn þriðjudag, 28. október, var haldinn fundur í stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Átti fundurinn upphaflega að vera fimmtudaginn 23. október en var þá frestað sökum slæms veðurútlits. Aðalefni fundarins voru drög að fjárhagsáætlun ársins 2009. Ljóst er að sú óvissa sem er nú í efnahagslífi landsins gerir fjárhagsáætlunargerðina mun erfiðari en ella. Almennt má segja að í þeim drögum af fjárhagsáætlun sem nú er í vinnslu sé gætt aðhalds í rekstri safnsins án þess að ráðist sé í stórfelldan niðurskurð. 
---
Dagar myrkurs hefjast í næstu viku og standa frá 10.-16. nóvember. Að vanda taka söfnin í safnahúsinu þátt í Dögum myrkurs.

Sunnudagskvöldið 12. október sl. stóð héraðsskjalasafnið að dagskrá um ævi og kveðskap ljóðskáldsins Steins Steinarr, en þann 13. október voru 100 ár liðin frá fæðingu hans. Dagskráin nefndist "Steinn yfir Steini" og byggðist að miklu leyti upp á ljóðum Steins en þó var einnig stiklað á stóru í lífshlaupi hans og sagðar af honum sögur. Hrafnkell Lárusson hafði með höndum skipulagningu kvöldsins. Hann naut við það góðrar aðstoðar annarra starfsmanna safnahússins. Við flutning dagskrárinnar fékk Hrafnkell sér til fulltingis jökuldælsku skáldkonuna og kennarann Ingunni Snædal. Aðstandendur voru ánægðir með hvernig til tókst og einnig var aðsóknin með ágætum en hátt í 30 manns mættu.

 

Um miðjan nýliðinn mánuð lagðist forstöðumaður héraðsskjalasafnsins í ferðalag á vegum stofnunarinnar í þeim tilgangi að hitta annað safnafólk. Annars vegar var um að ræða fund skjalavarða sem haldinn var í Stykkishólmi og hins vegar árlegan safnaskóla Félags íslenskra safna og safnmanna sem í ár var haldinn á Ísafirði. Er meiningin að gera hér stuttlega grein fyrir því sem fram fór á báðum stöðum. 

Starfsemi héraðsskjalasafnsins er nú óðum að færast meira í hausthaminn eins og tíminn getur tilefni til. Nú hafa skólar verið settir og þá fer skólafólk að verða áberandi meðal gesta safnsins og er það vel. En haustinu fylgir fleira þ.á m. fundir og ráðstefnur. Í næstu viku mun forstöðumaður héraðsskjalasafnsins sækja skjalavarðaþing í Stykkishólmi sem og safnaskóla FÍSOS sem nú er haldinn á Ísafirði.

Hulda Sigurdís Þráinsdóttir var nýlega ráðin í hlutastarf hjá héraðsskjalasafninu. Hulda er þjóðfræðingur að mennt og starfar nú sem bókavörður hjá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Hún mun einkum sinna afgreiðslu og skráningu skjala í safninu. Hulda er ráðin til safnsins tímabundið vegna forfalla. 

Síðastliðinn laugardag var haldinn safna- og markaðsdagur í safnahúsinu. Þessi atburður var liður í yfirstandandi Ormsteiti sem virðist ætla að verða afar vel heppnað þetta árið. Svo var einnig með safna- og markaðsdaginn sem hófst kl. 11 fyrir hádegi og stóð fram eftir degi. Þrátt fyrir að margt væri um að vera í afþreyingu og skemmtun þennan dag bæði á Egilsstöðum, Seyðisfirði og víðar í nágrenninu komu á þriðja hundrað gestir í safnahúsið á laugardaginn.

Næstkomandi laugardag, 16. ágúst, verður Safna- og markaðsdagur Ormsteitis. Þann dag verður mikið um að vera í og við safnahúsið frá kl. 11 um morguninn og fram til kl. 16 síðdegis. Markaðstjald verður staðsett við safnahúsið og mun þar verða á boðstólum ýmis varningur. Sýningar minjasafnsins lifna við, keppt verður í kleinubakstri, harmonikkuspilari þenur nikkuna og geta þeir sem vilja æft gömlu dansana. Félagar í leikfélaginu Frú Normu verða á staðnum með Soffíu mús og vini hennar.

Þó netnotkun minnki jafnan yfir sumarmánuðina uppfærist heimasíða héraðsskjalasafnsins eftir sem áður.

Nú hafa bæst við fleiri tenglar í tenglasafnið og er nú vísað á yfir 50 vefsíður. Einnig hafa fundargerðir stjórnarfunda Héraðsskjalasafns Austfirðinga á yfirstandandi ári verið gerðar aðgengilegar hér á síðunni og eru þá allar fundargerðir síðustu þriggja ára komnar á vefinn, auk nokkurra eldri fundargerða. Ætlunin er að allar fundargerðir stjórnar- og aðalfunda safnsins verði í fyllingu tímans aðgengilegar á heimasíðunni. 

Ný myndasýning verður sett inn á síðuna í ágúst.

Aðfangalisti bókasafns Héraðsskjalasafns Austfirðinga, sem birtur var hér á síðunni 24. júní sl., hefur nú verið uppfærðuren hann má finna undir flokknum „Fróðleikur“ hér hægra megin á síðunni.
Við sem störfum í safnahúsinu leitum ávallt leiða til að þjóna gestum hússins eins vel og okkur er unnt. Eitt af því sem margir gestir, t.d. ferðamenn, fræða- og skólafólk, þarf á að halda er tenging við internetið. Því má tengjast eftir ýmsum leiðum í safnahúsinu.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022