Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Í byrjun árs 2011 hófst hjá Héraðsskjalasafninu verkefni við skönnun og skráningu ljósmynda og hefur það staðið undanfarin tvö ár. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja héraðsskjalasafna og hefur meginhluti fjárveitingar til þess komið af fjárlögum íslenska ríkisns. Við fjárlagagerð ársins 2013 fékkst framhaldsfjárveiting til verkefnsins sem er því að hefja sitt þriðja starfsár.

Um er að ræða fullt starf. Leitað er að einstaklingi sem er sjálfstæður í vinnubrögðum og lipur í mannlegum samskiptum. Umsækjendur skulu hafa háskólapróf í námsgrein sem nýtist starfsemi safnsins og staðgóða þekkingu á starfssviði þess. Æskilegt er að umsækjendur hafi reynslu af safnastarfi og fjármálastjórn. Góð almenn tölvukunnátta er nauðsynleg.

Ný myndasýning hefur verið sett inn á vef Héraðsskjalasafnsins í tilefni komandi jólahátíðar. Að þessu sinni var valið að sýna jólakortaútgáfu safnsins sem hefur verið nær samfelld frá árinu 1979. Að venju var umsjón með sýningunni og gerð myndatexta í höndum Arndísar Þorvaldsdóttur.

Nú í vikunni héldu sýningaferðir Héraðsskjalasafnsins áfram, en undir yfirskriftinni Austfirsk menning í ljósmyndum og kvikmyndum hafa þrjú sveitarfélög verið heimsótt nú í haust með sérsniðnar ljósmynda- og kvikmyndasýningar. Í þessari viku voru sýningar í Fjarðarborg á Borgarfirði og í Végarði í Fljótsdal. Um 30 manns mættu á hvora sýningu. Safnið fékk í þessum ferðum, eins og jafnan áður, mikilsverðar upplýsingar um myndir úr safni sínu. Er óhætt að segja að þessi sýningaferð sé (eins og samsvarandi ferð í fyrrahaust) afar vel heppnuð og á Menningarráð Austurlands þakkir skyldar fyrir stuðninginn.

 

Í gærkvöld (3. október) stóð Héraðsskjalasafnið fyrir myndasýningu á Breiðdalsvík. Sýningin var liður í sýningaröðinni Austfirsk menning í ljósmyndum og kvikmyndum sem Menningarráð Austurlands styrkti við úthlutun síðastliðinn vetur. 45 gestir mættu á sýninguna sem haldin var í Kaupfjelaginu og virtust gestir ánægðir með sýninguna. Framundan í næstu viku eru samsvarandi sýningar á Borgarfirði og í Fljótsdal.

Aðgengismál Safnahússins og staða framkvæmda við það hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu. Fór sú umfjöllun af stað eftir að forstöðumenn safnanna í Safnahúsinu sendu sameiginlegt bréf til nokkurra góðgerðarfélaga á Héraði þar sem leitað er liðsinnis þeirra við að safna fé til framkvæmda við húsið, sem mættu verða til að leysa aðgengismál Bókasafns Héraðsbúa.

Í dag [8. ágúst] birtist hér á heimasíðunni önnur vefsýning ársins og nefnist hún Sumarsýning 2012 – um hana má fræðast nánar í tilkynningunni hér til hliðar. Við hæfi þótti að setja þessa sýningu á vefinn nú í aðdraganda héraðshátíðarinnar Ormsteitis, en Héraðsskjalasafn Austfirðinga hefur á undanförnum árum tekið þátt í dagskrá þess, þá jafnan í samstarfi við hin söfnin í Safnahúsinu.

Samkvæmt venju var á árinu 2011 haldið saman upplýsingum um fjölda gesta sem koma í Héraðsskjalasafnið. Í þessari frétt verður gerð stuttlega grein fyrir gestafjöldanum en einnig greint frá framhaldi ljósmyndaverkefnsins sem hófst í ársbyrjun 2011.

Í vikublaðinu Austurglugganum birtist sl. föstudag (3. febrúar) grein eftir forstöðumann Héraðsskjalasafnsins. Þar fjallar hann um rekstur safnsins og verkefni á þess vegum undanfarin ár. Greinin hefur nú verið sett hér inn á heimasíðuna undir flokknum „Pistlar“. 

Þann 1. janúar sl. tók gildi nýr stofnsamningur Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Aðalfundur Héraðsskjalasafnsins sem haldinn var í nóvember 2010 beindi því til stjórnar safnsins að endurskoða stofnsamning þess. Stjórn vann fram eftir ári 2011 að breytingum á stofnsamningi og samþykkti nýjan samning á fundi sínum í október. Aðalfundur Héraðsskjalasafnsins sem haldinn var á Seyðisfirði 25. nóvember sl. samþykkti svo endanlega gerð stofnsamningsins sem send var aðildarsveitarfélögum safnsins til staðfestingar. Nýi stofnsamningurinn er aðgengilegur hér á vefsíðu safnsins undir flipanum "Skjalasafn".

 

Jólasýning heimasíðunnar er að þessu sinni helguð gömlum póstkortum, en töluvert af kortum er varðveitt í Ljósmyndasafni Austurlands. Valin hafa verið til sýningar kort frá fyrstu áratugum 20. aldar og eru þau öll, nema eitt, af erlendum uppruna.

Hin árlega Bókavaka Safnahússins var haldin 1. desember sl. Að venju var Bókavakan helguð austfirskri útgáfu en yfirskrift hennar er Austfirsk útgáfa í öndvegi. Í ár komu út vel á annan tug bóka sem telja má austfirskar og var því af nógu að taka. Óvenju góð aðsókn var að Bókavökunni í ár og var þröng á þingi því rúmlega 50 manns mættu og hlýddu á upplestur og umfjöllun um bækur.

Starfsfólk Héraðsskjalasafnsins lagði land undir fót á Dögum myrkurs (og svo aftur í síðustu viku) og heimsótti fjóra staði á Austurlandi. Tilefnið var að sýningin Austfirsk menning í ljósmyndum sem Menningarráð Austurlands styrkti við síðustu úthlutun.

Héraðsskjalasafnið heldur sýningar á fjórum stöðum á Dögum myrkurs. Við úthlutun styrkja Menningarráðs Austurlands fyrr á þessu ári fékk Héraðsskjalasafn Austfirðinga styrk til verkefnisins Austfirsk menning í ljósmyndum. Markmið verkefnisins er að fara með ljósmyndasýningar til fjögurra byggðarlaga á starfssvæði Héraðsskjalasafnsins (utan Fljótsdalshéraðs) en starfssvæðið nær til allra sveitarfélaga í Múlasýslum.

Á þessari sumarsýningu sem birtist hér á heimasíðu Héraðsskjalasafns Austfirðinga koma margir ljósmyndarar við sögu. Myndirnar eru teknar víðsvegar á Austurlandi á 25 ára tímabili, þ.e. frá 1986-2001 og veita innsýn í mannlíf og framkvæmdir. Skráningu mynda er lengi hægt að bæta og þiggjum við með þökkum frekari upplýsingar.

Nú hafa 14 bækur í safnafræðum bæst við bókakost Bókasafns Halldórs og Önnu Guðnýjar. Um er að ræða ýmis lykilrit í safnafræðum sem vonandi nýtast austfirsku safnafólki og ættu einnig að vekja áhuga annarra sem láta sig safnamál varða hér á Austurlandi. Sjá má lista yfir bækurnar ef smellt er á fyrirsögn þessarar fréttar.

Síðastliðinn vetur opnaði ljósmyndasýning á jarðhæð Safnahússins. Við opnunina voru 15 myndir á sýningunni, allar teknar á Austurlandi, flestar á 10. áratug 20. aldar. Myndirnar eru úr safnkosti Ljósmyndasafns Austurlands en þær eru verk tveggja ljósmyndara, þeirra Önnu Ingólfsdóttur og Sigurðar Aðalsteinssonar sem bæði hafa starfað sem fréttaritarar á Austurlandi. Myndefnið er fjölbreytt enda austfirskt mannlíf þema sýningarinnar.

Að þessu sinni eiga tveir áhugaljósmyndarar, þeir Guðmundur R. Jóhannsson og Hákon Aðalsteinsson, myndirnar á ljósmyndasýningunni sem í dag birtist hér á heimasíðu Héraðsskjalasafnsins. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að skönnun á filmum og myndum í varðveislu Ljósmyndasafnsins og eru söfn þeirra Guðmundar og Hákonar á meðal þeirra sem búið er að skanna og skrá. Skráningu má þó endalaust bæta og eru frekari upplýsingar vel þegnar.

Eins og títt er með lifandi bókasöfn þá eykst jafnt og þétt bóka- og tímaritakostur bókasafns Héraðsskjalasafnsins. Síðustu ár hefur þeirri venju verið fylgt að setja hér inn á síðuna á hálfs árs fresti lista yfir bækur sem bæst hafa við safnkostinn undangengið hálft ár. Aðaláherslur safnsins við innkaup eru á austfirskt efni og fræðilegt. Er hér vert að gera stuttlega grein fyrir tveimur "bókaflokkum" sem bæst hafa við safnið nýlega.

Fyrir nokkru voru settar hér inn á heimasíðu Héraðsskjalasafnsins nýjar uppfærslur af skrám yfir einkaskjalasöfn í vörslu safnsins. Líkt og áður er um að ræða tvær skrár. Þær er að finna undir flipanum Skjalasafnhér á síðunni, en sé hann opnaður gefur að líta í listanum vinstri megin á síðunni tengil sem nefnist Einkaskjalasöfn.

Í byrjun febrúar sl. hófst vinna við verkefni við skráningu, skönnun og frágang ljósmynda hjá Héraðsskjalasafninu, en verkefnið er samvinnuverkefni þriggja héraðsskjalasafna. Nú þegar vinnan hefur staðið yfir í rúma þrjá mánuði hafa um 14.000 myndir verið skannaðar og búið er að skrá meginþorra þeirra.  

Héraðsskjalasafn Austfirðinga fékk 200.000,- kr. styrk frá Menningarráði Austurlands við úthlutun menningarstyrkja ráðsins sem fram fór sl. laugardag, 16. apríl. Menningarráð úthlutaði þá 63 styrkjum til menningarverkefna á Austurlandi, samtals að fjárhæð 26 milljónir króna. Héraðsskjalasafnið hlaut styrk vegna verkefnsins Austtfirsk menning í ljósmyndum. Markmið verkefnisins er að fara á haustmánuðum með sérútbúnar sýningar á myndum úr Ljósmyndasafni Austurlands (sem hýst er hjá Héraðsskjalasafninu) í byggðalög á Austurlandi sem eru hvað fjærst safninu. Upplýsingar um verkefni sem hlutu styrki frá Menningarráði Austurlands í ár má sjá á heimasíðu Menningarráðs (sjá:www.austur.is).

Það sem af er þessum mánuði hafa þrjár nýjar sýningar opnað á vegum safnanna í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Í dag, föstudaginn 11. mars, opnar ljósmyndasýning á jarðhæð Safnahússins. Alls eru 15 myndir á sýningunni og eru þær allar teknar á Austurlandi, flestar á 10. áratug 20. aldar. Myndirnar koma úr safnkosti Ljósmyndasafns Austurlands en þær eru verk tveggja ljósmyndara, þeirra Önnu Ingólfsdóttur og Sigurðar Aðalsteinssonar sem bæði hafa starfað sem fréttaritarar á Austurlandi. Myndefnið er fjölbreytt enda austfirskt mannlíf þema sýningarinnar. Sýningin verður opin fram í apríl og er aðgangur ókeypis.

Nokkrar breytingar hafa orðið á starfsliði Héraðsskjalasafnsins nú á því ári sem nýlega er hafið. Fastir starfsmenn eru þeir sömu og hafa verið (Arndís, Guðgeir og Hrafnkell). Nýtt fólk hefur bæst við í tímabundin verkefni en líkt og fyrr leitast Héraðsskjalasafnið eftir því að taka að sér slík verkefni sem snerta starfssvið safnsins. 

Fimmtudaginn 27. janúar var undirritaður í Kópavogi samstarfssamningur milli Héraðsskjalasafna Austfirðinga, Árnesinga og Skagfirðinga um skönnun, skráningu og frágang ljósmynda. Söfnin þrjú fengu á fjárlögum þessa árs 13,5 milljónir til þessa verkefnis og mun sú fjárveiting skiptast jafnt á milli þeirra. Gert er ráð fyrir að tvö störf skapist hjá hverju safni í tengslum við verkefnið.

Um samstarfssamninginn og verkefnið sjálft má lesa nánar á heimasíðu Félags héraðsskjalavarða (http://www.heradsskjalasafn.is/).

 

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022