Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Hin árlega Bókavaka Safnahússins var haldin 1. desember sl. Að venju var Bókavakan helguð austfirskri útgáfu en yfirskrift hennar er Austfirsk útgáfa í öndvegi. Í ár komu út vel á annan tug bóka sem telja má austfirskar og var því af nógu að taka. Óvenju góð aðsókn var að Bókavökunni í ár og var þröng á þingi því rúmlega 50 manns mættu og hlýddu á upplestur og umfjöllun um bækur.

Starfsfólk Héraðsskjalasafnsins lagði land undir fót á Dögum myrkurs (og svo aftur í síðustu viku) og heimsótti fjóra staði á Austurlandi. Tilefnið var að sýningin Austfirsk menning í ljósmyndum sem Menningarráð Austurlands styrkti við síðustu úthlutun.

Héraðsskjalasafnið heldur sýningar á fjórum stöðum á Dögum myrkurs. Við úthlutun styrkja Menningarráðs Austurlands fyrr á þessu ári fékk Héraðsskjalasafn Austfirðinga styrk til verkefnisins Austfirsk menning í ljósmyndum. Markmið verkefnisins er að fara með ljósmyndasýningar til fjögurra byggðarlaga á starfssvæði Héraðsskjalasafnsins (utan Fljótsdalshéraðs) en starfssvæðið nær til allra sveitarfélaga í Múlasýslum.

Á þessari sumarsýningu sem birtist hér á heimasíðu Héraðsskjalasafns Austfirðinga koma margir ljósmyndarar við sögu. Myndirnar eru teknar víðsvegar á Austurlandi á 25 ára tímabili, þ.e. frá 1986-2001 og veita innsýn í mannlíf og framkvæmdir. Skráningu mynda er lengi hægt að bæta og þiggjum við með þökkum frekari upplýsingar.

Nú hafa 14 bækur í safnafræðum bæst við bókakost Bókasafns Halldórs og Önnu Guðnýjar. Um er að ræða ýmis lykilrit í safnafræðum sem vonandi nýtast austfirsku safnafólki og ættu einnig að vekja áhuga annarra sem láta sig safnamál varða hér á Austurlandi. Sjá má lista yfir bækurnar ef smellt er á fyrirsögn þessarar fréttar.

Síðastliðinn vetur opnaði ljósmyndasýning á jarðhæð Safnahússins. Við opnunina voru 15 myndir á sýningunni, allar teknar á Austurlandi, flestar á 10. áratug 20. aldar. Myndirnar eru úr safnkosti Ljósmyndasafns Austurlands en þær eru verk tveggja ljósmyndara, þeirra Önnu Ingólfsdóttur og Sigurðar Aðalsteinssonar sem bæði hafa starfað sem fréttaritarar á Austurlandi. Myndefnið er fjölbreytt enda austfirskt mannlíf þema sýningarinnar.

Að þessu sinni eiga tveir áhugaljósmyndarar, þeir Guðmundur R. Jóhannsson og Hákon Aðalsteinsson, myndirnar á ljósmyndasýningunni sem í dag birtist hér á heimasíðu Héraðsskjalasafnsins. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að skönnun á filmum og myndum í varðveislu Ljósmyndasafnsins og eru söfn þeirra Guðmundar og Hákonar á meðal þeirra sem búið er að skanna og skrá. Skráningu má þó endalaust bæta og eru frekari upplýsingar vel þegnar.

Eins og títt er með lifandi bókasöfn þá eykst jafnt og þétt bóka- og tímaritakostur bókasafns Héraðsskjalasafnsins. Síðustu ár hefur þeirri venju verið fylgt að setja hér inn á síðuna á hálfs árs fresti lista yfir bækur sem bæst hafa við safnkostinn undangengið hálft ár. Aðaláherslur safnsins við innkaup eru á austfirskt efni og fræðilegt. Er hér vert að gera stuttlega grein fyrir tveimur "bókaflokkum" sem bæst hafa við safnið nýlega.

Fyrir nokkru voru settar hér inn á heimasíðu Héraðsskjalasafnsins nýjar uppfærslur af skrám yfir einkaskjalasöfn í vörslu safnsins. Líkt og áður er um að ræða tvær skrár. Þær er að finna undir flipanum Skjalasafnhér á síðunni, en sé hann opnaður gefur að líta í listanum vinstri megin á síðunni tengil sem nefnist Einkaskjalasöfn.

Í byrjun febrúar sl. hófst vinna við verkefni við skráningu, skönnun og frágang ljósmynda hjá Héraðsskjalasafninu, en verkefnið er samvinnuverkefni þriggja héraðsskjalasafna. Nú þegar vinnan hefur staðið yfir í rúma þrjá mánuði hafa um 14.000 myndir verið skannaðar og búið er að skrá meginþorra þeirra.  

Héraðsskjalasafn Austfirðinga fékk 200.000,- kr. styrk frá Menningarráði Austurlands við úthlutun menningarstyrkja ráðsins sem fram fór sl. laugardag, 16. apríl. Menningarráð úthlutaði þá 63 styrkjum til menningarverkefna á Austurlandi, samtals að fjárhæð 26 milljónir króna. Héraðsskjalasafnið hlaut styrk vegna verkefnsins Austtfirsk menning í ljósmyndum. Markmið verkefnisins er að fara á haustmánuðum með sérútbúnar sýningar á myndum úr Ljósmyndasafni Austurlands (sem hýst er hjá Héraðsskjalasafninu) í byggðalög á Austurlandi sem eru hvað fjærst safninu. Upplýsingar um verkefni sem hlutu styrki frá Menningarráði Austurlands í ár má sjá á heimasíðu Menningarráðs (sjá:www.austur.is).

Það sem af er þessum mánuði hafa þrjár nýjar sýningar opnað á vegum safnanna í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Í dag, föstudaginn 11. mars, opnar ljósmyndasýning á jarðhæð Safnahússins. Alls eru 15 myndir á sýningunni og eru þær allar teknar á Austurlandi, flestar á 10. áratug 20. aldar. Myndirnar koma úr safnkosti Ljósmyndasafns Austurlands en þær eru verk tveggja ljósmyndara, þeirra Önnu Ingólfsdóttur og Sigurðar Aðalsteinssonar sem bæði hafa starfað sem fréttaritarar á Austurlandi. Myndefnið er fjölbreytt enda austfirskt mannlíf þema sýningarinnar. Sýningin verður opin fram í apríl og er aðgangur ókeypis.

Nokkrar breytingar hafa orðið á starfsliði Héraðsskjalasafnsins nú á því ári sem nýlega er hafið. Fastir starfsmenn eru þeir sömu og hafa verið (Arndís, Guðgeir og Hrafnkell). Nýtt fólk hefur bæst við í tímabundin verkefni en líkt og fyrr leitast Héraðsskjalasafnið eftir því að taka að sér slík verkefni sem snerta starfssvið safnsins. 

Fimmtudaginn 27. janúar var undirritaður í Kópavogi samstarfssamningur milli Héraðsskjalasafna Austfirðinga, Árnesinga og Skagfirðinga um skönnun, skráningu og frágang ljósmynda. Söfnin þrjú fengu á fjárlögum þessa árs 13,5 milljónir til þessa verkefnis og mun sú fjárveiting skiptast jafnt á milli þeirra. Gert er ráð fyrir að tvö störf skapist hjá hverju safni í tengslum við verkefnið.

Um samstarfssamninginn og verkefnið sjálft má lesa nánar á heimasíðu Félags héraðsskjalavarða (http://www.heradsskjalasafn.is/).

 

Jólasýning Ljósmyndasafnsins hér á heimasíðunni er að þessu sinni helguð fjölskyldumyndum og hópmyndum. Tíminn sem myndirnar eru frá spannar u.þ.b. heila öld og eru elstu myndirnar teknar á síðasta tugi 19. aldar og sú yngsta í byrjun tíunda áratugar 20. aldar.

Nú eru nýlega afstaðnir tveir af árlegum liðum í starfi Safnahússins - Jólagleði fjölskyldunnar og Bókavakan. Ný myndasýning mun svo birtast hér á heimasíðu safnsins í næstu viku en í anda jólanna mun þar verða lögð áhersla á fjölskyldumyndir frá ýmsum tímum. Sé klikkað á fyrirsögn þessarar fréttar má fræðast nánar um Jólagleðina og Bókavökuna.  

Nýr fróðleikspistill hefur verið settur á vefsíðu Héraðsskjalasafnsins. Í pistlinum greinir Guðgeir Ingvarsson frá skjölum úr fórum Eiríks Sigurðssonar skólastjóra sem varðveitt eru hér í safninu og stiklar á stóru um ævi og ritferil Eiríks. Pistillinn má nálgast hér neðar á síðunni undir flokknum Fróðleikur. 

 

Í kvöld, föstudagskvöldið 20. ágúst, kl. 20:00 verður sýningin Austurland fyrir 20 árum hér í Safnahúsinu, en hún inniheldur valin myndskeið úr myndbandasafni Austfirska sjónvarpsfélagsins. Það safn var nýlega fært á stafrænt form (DVD) og er nú aðgengilegt í Héraðsskjalasafninu. Efnisskráin sem gerð var í tenglsum við stafrænu yfirfærsluna er hins vegar orðin aðgengileg hér á heimasíðunni. Skrána má nálgast undir flipanum "Skjalasafn" hér efst á síðunni (síðan er opnaður tengill (vinstra megin) sem heitir "AustSjón - Efnisskrá" en hann inniheldur pdf-skjal með efnisskránni. Vert er svo að minna á að nýlega var sett hér á síðuna ný ljósmyndasýning sem nefnist "Austfirskar fréttir". 

Þjóðskjalavörður hefur látið birta sex reglur í stjórnartíðindum um skjalavörslu. Fimm þessara reglna gilda meðal annars um sveitarfélög og stofnanir þeirra og fyrirtæki á þeirra vegum. Regla nr. 627 snýr eingöngu að sveitarfélögum og stofnunum þeirra. Reglurnar tóku allar gildi 1. ágúst 2010. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á héraðsskjalasöfnunum en einnig eru upplýsingar um reglusetninguna að finna á heimasíðu Félags héraðsskjalavarða. Þau sveitarfélögn sem ekki eru aðilar að héraðsskjalasafni geta leitað til Þjóðskjalasafns Íslands.

Ljósmyndasýning heimasíðu Héraðsskjalasafnsins er að þessu sinni helguð fréttamyndum frá árabilinu 1985-2004. Fer þar mest fyrir myndum úr ljósmyndasafni Vikublaðsins Austra en einnig eru á sýningunni myndir frá Kaupfélagi Héraðsbúa og Ríkisútvarpinu á Austurlandi. Þó hér sé talað um fréttamyndir ber að geta þess að fæstar gefa okkur innsýn í stórviðburði heldur er hér um að ræða myndir frá atvinnu- og menningarlífi í fjórðungnum og mun fátt teljast fréttnæmt á heimsvísu. Frekari upplýsingar um myndirnar eru vel þegnar. Arndís Þorvaldsdóttir valdi myndirnar og ritaði myndatexta.

Í mörg ár hefur þeirri venju verið haldið hjá Héraðsskjalasafni Austfirðinga að safnið sé opið alla virka daga ársins. Ekki hefur því verið um sumarlokanir að ræða hjá safninu heldur hafa starfsmenn þess hagað sumarleyfum sínum með þeim hætti að ávallt sé a.m.k. einn starfsmaður á staðnum til að sinna safngestum og svara erindum sem berast. Þessari venju er viðhaldið nú í sumar.

Þó meginhlutverk Héraðsskjalasafnsins sé að varðveita skjöl á pappírsformi hefur safninu í gegnum tíðina borist nokkuð af efni á öðru formi en pappír. Nýlega var lokið við að færa myndefni sem varðveitt er í safninu af U-matic spólum yfir á stafrænt form (DVD). Það efni sem um ræðir kom frá Austfirska sjónvarpsfélaginu sem starfaði á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Með þessari yfirfærslu efnisins er það gert mun aðgengilegra en áður var og þar með er opnað fyrir að gestir safnsins geti skoðað það fyrirhafnarlítið sér til gagns eða gamans. 

Síðastliðinn föstudag undirrituðu Gunnar Jónsson oddviti Á-lista Áhugafólks um sveitarstjórnarmál á Fljótsdalshéraði og Stefán Bogi Sveinsson oddviti B-lista Framsóknarflokks málefnasamning nýs meirihluta þessara tveggja lista í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs. Að ósk forsvarsmanna nýja meirihlutans var undirritun málefnasamningsins valinn staður á grasflötinni fyrir framan Safnahúsið og myndaði nýbyggð eftirgerð af torbænum á Galtastöðum fram bakgrunn undirskriftarinnar. Er ástæða til að óska nýjum meirihluta velfarnaðar og vænta þess um leið að málefni Safnahússins verði forsvarsmönnum meirihlutans ofarlega í huga á kjörtímabilinu.

Fyrir hverjar sveitarstjórnarkosningar senda framboðlistarnir frá sér kynningarefni þar sem þeir kynna stefnumál sín, frambjóðendur og annað sem máli skiptir. Kosningarnar á morgun eru þar vitanlega engin undantekning. Kynningarefni framboðanna gefur innsýn í viðhorf til framtíðaruppbyggingar sveitarfélaganna hér eystra og má því segja að þeir séu merkilegar heimildir. Því hefur Héraðsskjalasafnið ákveðið að biðla til framboðslistanna að senda til safnsins kynningarefni sitt svo það megi varðveita í safninu. Einnig falast safnið eftir eldra efni sömu tegundar bæði frá þeim framboðum sem nú bjóða fram og einnig frá framboðum sem horfin eru af sjónarsviðinu.   

Ný ljósmyndasýning birtist nú hér á heimasíðu Héraðsskjalasafnsins. Nefnist sýningin einfaldlega Vorsýning. Samkvæmt venju hefur Arndís Þorvaldsdóttir haft veg og vanda af gerð sýningarinnar. Nánar má lesa um tilurð myndanna í sýningunni með því að klikka á fyrirsögn þessarar fréttar. Líkt og jafnan áður er leitað til sýningargesta eftir upplýsingum um einstaka myndir í sýningunni.

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga