Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Jólasýning Ljósmyndasafnsins hér á heimasíðunni er að þessu sinni helguð fjölskyldumyndum og hópmyndum. Tíminn sem myndirnar eru frá spannar u.þ.b. heila öld og eru elstu myndirnar teknar á síðasta tugi 19. aldar og sú yngsta í byrjun tíunda áratugar 20. aldar.

Nú eru nýlega afstaðnir tveir af árlegum liðum í starfi Safnahússins - Jólagleði fjölskyldunnar og Bókavakan. Ný myndasýning mun svo birtast hér á heimasíðu safnsins í næstu viku en í anda jólanna mun þar verða lögð áhersla á fjölskyldumyndir frá ýmsum tímum. Sé klikkað á fyrirsögn þessarar fréttar má fræðast nánar um Jólagleðina og Bókavökuna.  

Nýr fróðleikspistill hefur verið settur á vefsíðu Héraðsskjalasafnsins. Í pistlinum greinir Guðgeir Ingvarsson frá skjölum úr fórum Eiríks Sigurðssonar skólastjóra sem varðveitt eru hér í safninu og stiklar á stóru um ævi og ritferil Eiríks. Pistillinn má nálgast hér neðar á síðunni undir flokknum Fróðleikur. 

 

Í kvöld, föstudagskvöldið 20. ágúst, kl. 20:00 verður sýningin Austurland fyrir 20 árum hér í Safnahúsinu, en hún inniheldur valin myndskeið úr myndbandasafni Austfirska sjónvarpsfélagsins. Það safn var nýlega fært á stafrænt form (DVD) og er nú aðgengilegt í Héraðsskjalasafninu. Efnisskráin sem gerð var í tenglsum við stafrænu yfirfærsluna er hins vegar orðin aðgengileg hér á heimasíðunni. Skrána má nálgast undir flipanum "Skjalasafn" hér efst á síðunni (síðan er opnaður tengill (vinstra megin) sem heitir "AustSjón - Efnisskrá" en hann inniheldur pdf-skjal með efnisskránni. Vert er svo að minna á að nýlega var sett hér á síðuna ný ljósmyndasýning sem nefnist "Austfirskar fréttir". 

Þjóðskjalavörður hefur látið birta sex reglur í stjórnartíðindum um skjalavörslu. Fimm þessara reglna gilda meðal annars um sveitarfélög og stofnanir þeirra og fyrirtæki á þeirra vegum. Regla nr. 627 snýr eingöngu að sveitarfélögum og stofnunum þeirra. Reglurnar tóku allar gildi 1. ágúst 2010. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á héraðsskjalasöfnunum en einnig eru upplýsingar um reglusetninguna að finna á heimasíðu Félags héraðsskjalavarða. Þau sveitarfélögn sem ekki eru aðilar að héraðsskjalasafni geta leitað til Þjóðskjalasafns Íslands.

Ljósmyndasýning heimasíðu Héraðsskjalasafnsins er að þessu sinni helguð fréttamyndum frá árabilinu 1985-2004. Fer þar mest fyrir myndum úr ljósmyndasafni Vikublaðsins Austra en einnig eru á sýningunni myndir frá Kaupfélagi Héraðsbúa og Ríkisútvarpinu á Austurlandi. Þó hér sé talað um fréttamyndir ber að geta þess að fæstar gefa okkur innsýn í stórviðburði heldur er hér um að ræða myndir frá atvinnu- og menningarlífi í fjórðungnum og mun fátt teljast fréttnæmt á heimsvísu. Frekari upplýsingar um myndirnar eru vel þegnar. Arndís Þorvaldsdóttir valdi myndirnar og ritaði myndatexta.

Í mörg ár hefur þeirri venju verið haldið hjá Héraðsskjalasafni Austfirðinga að safnið sé opið alla virka daga ársins. Ekki hefur því verið um sumarlokanir að ræða hjá safninu heldur hafa starfsmenn þess hagað sumarleyfum sínum með þeim hætti að ávallt sé a.m.k. einn starfsmaður á staðnum til að sinna safngestum og svara erindum sem berast. Þessari venju er viðhaldið nú í sumar.

Þó meginhlutverk Héraðsskjalasafnsins sé að varðveita skjöl á pappírsformi hefur safninu í gegnum tíðina borist nokkuð af efni á öðru formi en pappír. Nýlega var lokið við að færa myndefni sem varðveitt er í safninu af U-matic spólum yfir á stafrænt form (DVD). Það efni sem um ræðir kom frá Austfirska sjónvarpsfélaginu sem starfaði á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Með þessari yfirfærslu efnisins er það gert mun aðgengilegra en áður var og þar með er opnað fyrir að gestir safnsins geti skoðað það fyrirhafnarlítið sér til gagns eða gamans. 

Síðastliðinn föstudag undirrituðu Gunnar Jónsson oddviti Á-lista Áhugafólks um sveitarstjórnarmál á Fljótsdalshéraði og Stefán Bogi Sveinsson oddviti B-lista Framsóknarflokks málefnasamning nýs meirihluta þessara tveggja lista í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs. Að ósk forsvarsmanna nýja meirihlutans var undirritun málefnasamningsins valinn staður á grasflötinni fyrir framan Safnahúsið og myndaði nýbyggð eftirgerð af torbænum á Galtastöðum fram bakgrunn undirskriftarinnar. Er ástæða til að óska nýjum meirihluta velfarnaðar og vænta þess um leið að málefni Safnahússins verði forsvarsmönnum meirihlutans ofarlega í huga á kjörtímabilinu.

Fyrir hverjar sveitarstjórnarkosningar senda framboðlistarnir frá sér kynningarefni þar sem þeir kynna stefnumál sín, frambjóðendur og annað sem máli skiptir. Kosningarnar á morgun eru þar vitanlega engin undantekning. Kynningarefni framboðanna gefur innsýn í viðhorf til framtíðaruppbyggingar sveitarfélaganna hér eystra og má því segja að þeir séu merkilegar heimildir. Því hefur Héraðsskjalasafnið ákveðið að biðla til framboðslistanna að senda til safnsins kynningarefni sitt svo það megi varðveita í safninu. Einnig falast safnið eftir eldra efni sömu tegundar bæði frá þeim framboðum sem nú bjóða fram og einnig frá framboðum sem horfin eru af sjónarsviðinu.   

Ný ljósmyndasýning birtist nú hér á heimasíðu Héraðsskjalasafnsins. Nefnist sýningin einfaldlega Vorsýning. Samkvæmt venju hefur Arndís Þorvaldsdóttir haft veg og vanda af gerð sýningarinnar. Nánar má lesa um tilurð myndanna í sýningunni með því að klikka á fyrirsögn þessarar fréttar. Líkt og jafnan áður er leitað til sýningargesta eftir upplýsingum um einstaka myndir í sýningunni.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið er kominn í hús og er aðgengileg fyrir áhugasama hér í safninu. Hún bætist í vaxandi safn bóka um efnahagshrunið sem fyrir eru í safninu, en allar helstu bækur um hrunið sem út hafa komið til þessa hafa verið keyptar, t.d. bækur Guðna Th. Jóhannessonar, Styrmis Gunnarssonar, Ásgeirs Jónssonar, Einars Más Guðmundssonar o.fl.  

Starfið í Safnahúsinu gengur sinn vanagang þó vor sé í lofti. Héraðsskjalasafnið hefur fengið margar afhendingar það sem af er ári og aðsókn að ljósmyndasýningunni Þrælkun þroski þrá  hefur verið mjög góð. Framundan nú á laugardaginn (27. mars) er hið árlega Páskafjör Minjasafnsins, en um það má fræðast nánar á heimasíðu þess. Slóðin er www.minjasafn.is

Héraðsskjalasafnið á Akureyri hefur opnað nýja heimasíðu. Slóðin er: http://www.herak.is/

Á heimasíðunni má fræðast um margvíslega þætti í starfsemi safnsins og sögu þess. Ein veigamesta breytingin við opnun síðunnar er þó sú að á henni birtast skjalaskrár safnsins, bæði yfir opinber skjöl og einkaskjöl. Er það framtak bæði gott og þarf og öðrum héraðsskjalasöfnum til eftirbreytni. 

Næstkomandi fimmtudag kl. 17:00 opnar í Safnahúsinu ljósmyndasýningin Þrælkun, þroski, þrá? Sýningin er fengin að láni hjá Þjóðminjasafni Íslands en þar var hún upphaflega sett upp í febrúar 2009. Við opnunina á fimmtudaginn mun starfsfólk Safnahússins gera grein fyrir sýningunni en nánar má lesa um hana með því að klikka á fyrirsögn þessarar fréttar.

Snemma árs 2008 hófst fjarvinnsluverkefni á vegum Þjóðskjalasafns Íslands við skráningu manntala, en verkefnið hefur verið unnið fyrir fjárframlög frá ríkinu. Frá því í mars 2008 hefur Héraðsskjalasafn Austfirðinga verið þátttakandi í verkefninu og hafa verið tvö stöðugildi vegna þessa hér í safninu. Fjögur önnur héraðsskjalasöfn hafa einnig tekið þátt í verkefninu.

Í dag birtist ný myndasýning hér á heimasíðu héraðsskjalasafnsins. Sýningin nefnist einfaldlega Jólasýning og má finna hana undir flipanumMyndir hér efst á síðunni). Að venju hefur Arndís Þorvaldsdóttir haft veg og vanda af vali mynda á sýninguna og jafnframt ritar hún myndatexta. Myndirnar í sýningunni eru allar teknar af Emilíu Blöndal. Ártöl eru tilgreind séu þau þekkt.

Héraðsskjalasafninu berast reglulega bókagjafir og bætast þær við bókasafn þess. Nýlega barst safninu bókagjöf frá einum af helstu velunnurum safnsins, Vilhjálmi Hjálmarsyni, fv. menntamálaráðherra, frá Brekku í Mjóafirði. Vilhjálmur hefur í gegnum tíðina vikið góðu að safninu, m.a. hefur hann gefið því margar bækur auk þess að hlutast til um skjalaafhendingar til þess. Stendur safnið í mikilli þakkarskuld við Vilhjálm.

Í gærkvöld var hin árlega bókavaka safnahússins haldin. Um 25 manns sóttu bókavökuna og verður það að teljast ágæt aðsókn með tilliti til þess að ýmsir aðrir viðburðir voru í gangi samtímis hér á svæðinu. Stemming var góð meðal gesta bókavökunnar og stöldruðu margir þeirra við í allnokkra stund eftir að skipulegri dagskrá lauk. Nýju efni hefur nú verið bætt inn á heimasíðu héraðsskjalasafnsins. Nýr fróðleikspistill eftir Guðgeir Ingvarsson birtist hér í dag auk þess sem fundargerðir nýliðins aðalfundar og stjórnarfunda eru nú aðgengilegar. 

Síðastliðinn laugardag var mikið um að vera í safnahúsinu enda tilefnin mörg. Minnst var 125 ára ártíðar skáldsins Arnar Arnasonar, sumarsýningu minjasafnsins lauk formlega og sett var upp sýning í tilefni af Norræna skjaladeginum. Veigamest í af því sem boðið var uppá var lesin og sungin dagskrá tileinkuð Erni Arnarsyni. Arndís Þorvaldsdóttir og Áslaug Sigurgeststdóttir höfðu veg og vanda af þeirri dagskrá. Sér til aðstoðar höfðu þær sönghópinn Hjartafimmurnar auk þess sem fleiri komu að lestri ljóða og æviágrips skáldsins. Sérstaka athygli vakti þegar Páll Pálsson frá Aðalbóli kvað hluta af rímum um Odd sterka eftir skáldið. Gestir voru alls um 50 talsins, sumir langt að komnir. Í dag er svo mikið líf í safnahúsinu en fjöldi grunnskólabarna sækir söfnin heim í tilefni af Degi íslenskrar tungu.

 

Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum hafa lengi kynnt starfsemi sína með ýmsu móti. Frá 2001 hafa þau sameinast um árlegan kynningardag sem að þessu sinni er laugardagurinn 14. nóvember. Mörg skjalasöfn opna hús sín fyrir almenningi á þessum degi og vekja athygli á ákveðnum skjalaflokkum með sýningum á völdum skjölum. Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfn séu tryggir vörslustaðir skjala og er fólk hvatt til að hafa samband við starfsfólk skjalasafna ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað á að gera við.

Eitt af hlutverkum héraðsskjalasafna er að safna „sögulega mikilvægum“ skjölum frá fyrirtækjum, félögum og einstaklingum á starfssvæði safnsins. Það er vitanlega alltaf álitamál hvaða skjöl eru sögulega mikilvæg en í því sambandi má styðjast við þá þumalputtareglu að aðilar sem hafi haft mótandi áhrif á samfélag sitt skilji eftir sig slík skjöl.

Safnanótt var haldin í safnahúsinu á laugardagskvöldið, en þessi viðburður var liður í yfirstandandi Ormsteiti. Um 50 manns sóttu safnið heim af þessu tilefni og hlýddu gestir á tvíþætta dagskrá. Fyrri hlutinn hverfðist um ást og tilhugalíf á ýmsum tímum og var sá hluti sýningarinnar fluttur af Elfu Hlín Pétursdóttur, Arndísi Þorvaldsdóttur, Guðrúnu Gunnarsdóttur og Hrafnkeli Lárussyni. Í síðari hluta dagskrárinnar sýndi Arndís myndir frá söng- og leiklistarskemmtunum Héraðsbúa á síðari hluta 20. aldar. Góð stemming skapaðist meðal viðstaddra og urðu nokkrar umræður um efni sumra myndanna. 

Nú eru liðin rétt 40 ár síðan lokið var við að gefa út Ættir Austfirðinga eftir sr. Einar Jónsson frá Hofi í Vopnafirði. Þó langt sé um liðið frá útgáfunni er enn hægt að nálgast eintök af Ættum Austfirðinga og er áhugasömum bent á að hafa samband við starfsfólk héraðsskjalasafnsins hafi það áhuga á að kaupa eintak.  

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022