Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Nú mætti halda að verið væri að færa út kvíarnar og fylgja eftir pistli um mannsnafn með pistli um landaheiti. En svo er ekki því þessi pistill er um karlmannsnafnið Túnis.

Ég lái engum að hvá yfir þessu. Nafnið er ekki á mannanafnaskrá og sjálfur hafði ég aldrei heyrt um eða séð það fyrr en ég var að grúska eitthvað í ættfræði og rakst á karlmann með þessu nafni. Forvitni mín var samstundis vakin og ég fór að skoða málið nánar. Þá kom það í ljós, sem réttlætir nokkuð skrif um þetta efni á vef Héraðsskjalasafns Austfirðinga, að nafnið var algengast hér á svæðinu. Á vefnum Íslendingabók er hægt að finna þrettán manns sem báru nafnið Túnis og þar af er nokkuð auðveldlega hægt að segja níu þeirra að austan, þeirra á meðal þann fyrsta til að bera nafnið samkvæmt því sem þar kemur fram.

Fyrstur til að bera nafnið Túnis hér á landi, ef marka má Íslendingabók, var Túnis Kolbeinsson sem var bóndi á Hvanná á Jökuldal. Var hann líklega fæddur um miðja sautjándu öld en látinn um 1703. Sáralítið er í Íslendingabók að finna um framætt hans, aðeins föðurinn sem einnig var bóndi á sama stað, Kolbeinn Þorsteinsson. Annars liggja upplýsingar um þá feðga lítt á lausu og engin leið að vita hvernig það kom til að drengurinn hlaut þetta óvenjulega nafn.

Næst skýtur nafnið upp kollinum um aldarfjórðungi síðar og þá á Vesturlandi, en í manntalinu 1703 er Túnis Eyjólfsson, fæddur 1678, skráður vinnumaður í Kjósinni. Enn líður nokkuð langur tími án þess að nafnið skjóti upp kollinum en í sóknarmannatali Hofteigssóknar á Jökuldal árið 1801 finnst fyrir Túnis Þórðarson, fæddur 1723, en hann er þar hvorki árin á undan né á eftir. Því er óljóst hvaðan sá maður kom eða hvar hann ól ævina. Hann er þó skráður „tökukarl“ og má því leiða líkum að því að hann sé fæddur í Jökuldalshreppi fyrst hann var vistaður þar orðinn gamall.

Flestir þeir sem báru nafnið Túnis eru hins vegar fæddir um eftir miðja 18. öld og fram undir miðja 19. öld. Tveir bræður í Borgarfirði fengu nafnið 1765 og 1773 (sá eldri dó ungur) og alnafni þeirra, Túnis Pétursson, er fæddur 1831 og virðist hafa alið manninn í Árnessýslu þar til hann lést árið 1909.

Aðrir þeir sem nafnið báru virðast hafa verið fyrir austan. Þrír þeirra voru afkomendur Túnisar á Hvanná, einn í þriðja lið og tveir í fimmta lið. Þess utan eru það tveir feðgar sem bera nafnið, Túnis Sigmundsson og Túnis Túnisson. Afi þess eldri virðist einnig hafa heitið Túnis en hann er óskráður í Íslendingabók og öðrum heimildum sem skoðaðar hafa verið. Þá finnst einnig í sóknarmannatali Hjaltastaðarsóknar árið 1900 Túnis Þórðarson, sem hvorki sér stað í slíku fyrr eða síðar en virðist hafa verið fæddur um 1873.

Enginn virðist hafa hlotið nafnið Túnis eftir 1846, þegar Túnis Oddsson fæðist en hann var léttadrengur í Sleðbrjótsseli árið 1860. Síðastur til að bera nafnið var Túnis Jónsson sem lést 1912 en hann var afkomandi Túnisar á Hvanná í fimmta lið. Þannig virðist hringnum lokað.

En hvaðan kemur þetta nafn? Mér var nokkur vandi á höndum við að finna út úr því. Fyrst leitaði ég fyrir mér varðandi það hvort nafnið á landinu Túnis ætti þarna einhvern hlut að máli. Eftir því sem ég kemst næst er það ævagamalt heiti þorps eða borgar sem enn í dag er höfuðborg ríkisins Túnis í Norður-Afríku. Ekki virðist alveg vera á hreinu hver merking nafnsins er en líklegasta skýringin er sú að þetta sé dregið af orði úr tungumáli Berba sem merkir náttstaður. Ein athyglisverð kaffistofukenning skaut upp kollinum hér í húsinu, en hún var sú hvort nafnið gæti eitthvað haft með Tyrkjaránið að gera, en eins og kunnugt er seldu þeir ræningjar sem þar voru að verki allmarga Íslendinga í ánauð í Norður-Afríku árið 1627. Þó kenningin sé skemmtileg gekk mér illa að finna nokkuð henni til stuðnings og það sem meira er, uppruni nafnsins er að líkindum allt annar.

Tilviljanakennd leit á netinu leiddi í ljós að Teunis er hollenskt karlmannsnafn og þar þekkist einnig önnur útgáfa þess, Theunis. Það er dregið af, eða virðist í upphafi hafa verið stytt útgáfa eða gælunafn fyrir þá sem hétu Antoníus. Það er því samstofna allmörgum nöfnum á ýmsum tungumálum, svo sem Anton, Antoine og Anthony svo einhver séu nefnd, og þá í raun sambærilegt við nöfn eins og Toni og Tony. Ég get ekki séð að nafnið hafi nokkurn tíma náð fótfestu í Skandinavíu, þó reyndar finnist einn Norðmaður með þessu nafni í manntalinu hér á landi árið 1890.

Út frá því sem hér að framan segir verður að ganga út frá því að nafnið hafi skotið rótum hér á landi fyrir einhverskonar evrópskar tengingar eða áhrif, líklegast hollensk, en nánast ómögulegt er að segja til um hvernig það hafi gerst.

Nafnið hljómar einkennilega í eyrum, en sennilega einkum fyrir það að við þekkjum það sem landaheiti. Karlmannsnöfn af þessu tagi eru ekki ýkja algeng en það má benda á að það er í raun alveg eins saman sett og nafnið Rúrik, það er með ú og i sem sérhljóða umkringda þremur samhljóðum. Það fer þó að mínu mati ekki vel á að beygja nafnið eins og Rúrik því þá sitjum við uppi með eignarfallsmyndina Túniss. Það má svo sem alveg en að mínu mati er nokkuð vinnandi til að sleppa við það.

Íslensk karlmannsnöfn sem eru fleiri en eitt atkvæði og enda á -is eru ekki mörg og hafa raunar flest bæst á mannanafnaskrá undanfarin 15 ár eða svo. Þetta eru nöfn á borð við Lúis, Francis/Franzis, Dennis, Elvis og Elis, sem er hið eina þeirra sem ekki er seinni tíma viðbót á skránna. Ef við notumst við sömu fallbeygingu og á Elis þá verður Túnis eins í nefnifalli, þolfalli og þágufalli en Túnisar í eignarfalli. Af þessu má sjá að nafnið fellur ágætlega að íslenskri tungu, tekur eignarfallsendingu og eins og rakið hefur verið er til staðar svolítil hefð fyrir því. Það ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að taka upp nafnið Túnis að nýju hér á landi.

 

Hér áður fyrr voru ákveðin mannanöfn algengari í sumum landshlutum en öðrum. Þetta hefur breyst með auknum hreyfanleika fólks um landið en þó eimir eftir af þessu ennþá.

Áramótakort sem var gefið út í desember 2020 var tileinkað Guðgeiri Ingvarssyni fyrrverandi starfsmanni Héraðsskjalasafnsins.

Á árinu 2019 bættust 132 titlar við Bókasafn Halldórs og Önnu Guðnýjar. Bækurnar eru keyptar af rekstrarfé safnsins en einnig berast safninu ýmsar gjafir.

Áramótakort sem var gefið út í desember 2019 er tileinkað skáldinu og kennaranum Jóhanni Magnúsi Bjarnasyni.

Á árinu 2018 bættust 182 titlar við Bókasafn Halldórs og Önnu Guðnýjar. Bækurnar eru keyptar af rekstrarfé safnsins en einnig berast safninu ýmsar gjafir.

Frá árinu 1978 hefur Héraðsskjalasafnið gefið út jóla- eða áramótakort. Kort ársins 2018 er tileinkað Eiríki Eiríkssyni frá Dagverðargerði.

Á árinu 2017 bættust 160 titlar við Bókasafn Halldórs og Önnu Guðnýjar. Bækurnar eru keyptar af rekstrarfé safnsins en einnig berast safninu ýmsar gjafir.

Á árinu 2016 bættust 211 titlar við Bókasafn Halldórs og Önnu Guðnýjar. Bækurnar eru keyptar af rekstrarfé safnsins en einnig berast safninu ýmsar gjafir.

Jólakort ársins 2016 var tileinkað 40 ára afmæli safnsins sem hefur gefið út kort með sögulegum fróðleik óslitið frá árinu 1979 að undanskildu árinu 1995.

Á árinu 2015 bættust 142 titlar við Bókasafn Halldórs og Önnu Guðnýjar. Um er að ræða bækur sem keyptar eru af rekstrarfé safnsins en einnig berast safninu ýmsar gjafir.

Árið 2014 bættust 124 titlar við Bókasafn Halldórs og Önnu Guðnýjar. Bækurnar eru keyptar eru af rekstrarfé safnsins en einnig berast safninu ýmsar gjafir.

Árið 2013 bættust 95 titlar við Bókasafn Halldórs og Önnu Guðnýjar. Um er að ræða bækur sem keyptar eru af rekstrarfé safnsins en einnig berast safninu ýmsar bókagjafir.

Árið 2012 bættust 97 titlar við Bókasafn Halldórs og Önnu Guðnýjar. Um er að ræða bækur sem keyptar eru af rekstrarfé safnsins en einnig berast safninu ýmsar bókagjafir.

Sú hefð hefur skapast að birta hér á heimsíðu Héraðsskjalasafnsins lista yfir þær bækur sem bæst hafa við safnkost Bókasafns Halldórs og Önnu Guðnýjar á undangengnu ári. Hér birtist slíkur listi fyrir árið 2011. Bókunum er að venju raðað eftir flokkanúmerum samkvæmt Dewey-kerfinu.

Í Héraðsskjalasafni Austfirðinga er varðveitt dagbók Ara Brynjólfssonar (síðar bónda á Þverhamri við Breiðdalsvík) frá búskap hans í Papey. Ari keypti Papey árið 1882 af hjónunum Rósu Snorradóttur og Jóni Þorvarðarsyni sem fluttu það ár til Vesturheimis en kona Ara, Ingibjörg Högnadóttir, var fósturdóttur þeirra hjóna.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er sjálfstæð skjalavörslustofnun sem lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Safnið var stofnað árið 1976. Síðan 1992 hefur safnið verið rekið sem byggðasamlag en aðilar að því eru öll sveitarfélög í Múlasýslum sem nú eru átta talsins – Borgarfjarðarhreppur, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Vopnafjarðarhreppur.

Vegurinn yfir Öxi hefur mikið verið til umræðu undanfarin misseri. Því er ekki úr vegi að líta til baka til upphafs vegarlangingar yfir Öxi, sem styttir mikið leiðina milli Djúpavogs og Héraðs.

Venju samkvæmt birtum við hér lista yfir bækur sem keyptar hafa verið inn til Bókasafns Halldórs og Önnu Guðnýjar, en tíðkast hefur að gera slíkt á hálfs árs fresti. Hér birtist því listi yfir bækur sem bættust við safnið á síðari hluta nýliðins árs. Listinn telur alls 54 bækur sem er töluvert minna en á fyrri hluta ársins, en það útskýrist af því að meginhluta bókakaupafjár safnsins var ráðstafað á fyrri hlutanum. Bókunum er að venju raðað eftir flokkanúmerum samkvæmt Dewey-kerfinu.

Skjöl margra einstaklinga sem haft hafa áhrif á austfirskt samfélag með verkum sínum eða skrifum eru varðveitt hér í Héraðsskjalasafninu. Í nýjum fróðleikspistli fjallar Guðgeir Ingvarsson um einn þessara manna, Eirík Sigurðsson skólastjóra frá Dísarstöðum í Breiðdal.

Þeirri venju er nú viðhaldið birta upplýsingar um hvaða bækur hafa bættst við bókakost Bókasafns Halldórs Ásgrímssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Listinn sem hér fylgir er vegna nýrra bóka í safninu á fyrri hluta árs 2010. Alls voru nýskráðar bækur á tímabilinu 165 talsins. Bækurnar raðast í lista í efnisröð í samræmi við röð þeirra í Dewey-kerfinu. Flestar eru bækurnar á listanum nýjar eða nýlegar og voru keyptar til safnsins en þó eru innanum bækur sem safninu hafa verið gefnar.

Nú þegar skammt er liðið á árið 2010 er við hæfi að birta upplýsingar um hvaða bækur bættust við bókakost Bókasafns Halldórs Ásgrímssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur á síðari hluta árs 2009. Að birta slíka lista með hálfsárs millibili er venja sem haldist hefur frá árinu 2008. Alls voru nýskráðar bækur á tímabilinu 99 talsins. Bækurnar raðast í lista í efnisröð í samræmi við röð þeirra í Dewey-kerfinu. Nær allar bækurnar í listanum eru nýjar eða nýlegar og voru keyptar til safnsins en þó eru innanum bækur sem safninu hafa verið gefnar.

Nú í aðdraganda jóla er við hæfi að huga að jólasiðum fyrri tíma. Í þeim fróðleikspistli sem hér fylgir greinir Guðgeir Ingvarsson frá vitnisburði skjala úr fórum Halldórs Péturssonar frá Geirastöðum í Hróarstungu, en í þeim greinir frá venjum varðandi jólahald á Borgarfirði um aldamótin 1900.  

Á síðasta ári birtust tvívegis hér á heimasíðu héraðsskjalasafnsins listar yfir bækur sem bæst hafa við safnkost Bókasafns Halldórs Ásgrímssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Þessum sið er nú viðhaldið og birtist hér listi yfir bækurnar sem bættust við safnið frá ársbyrjun til júníloka á þessu ári. Alls eru þær 162 talsins. Bækurnar raðast í lista í efnisröð í samræmi við röð þeirra í Dewey-kerfinu. Nær allar bækurnar í listanum eru nýjar eða nýlegar og voru keyptar til safnsins en þó eru innanum nokkrar bækur sem safninu hafa verið gefnar. 

Eitt af merkari einkaskjalasöfnum sem varðveitt eru í Héraðsskalasafni Austfirðinga er einkaskjalasafn Kristjáns Jónssonar, sem oft er kenndur er við Hrjót í Hjaltastaðaþinghá. Hann var líka stundum nefndur Kristján Vopni sem dregið var af því að hann var fæddur og uppalinn í Vopnafirði. Verður nánar vikið að safni hans hér á eftir, en fyrst nokkur orð um hann sjálfan. Styðst ég þar m.a. við kirkjubækur og manntöl og að nokkru við æviminningar hans sjálfs, sem hér eru til í handriti.

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga