Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Ungmennafélagið Djörfung og Axarvegur

Vegurinn yfir Öxi hefur mikið verið til umræðu undanfarin misseri. Því er ekki úr vegi að líta til baka til upphafs vegarlangingar yfir Öxi, sem styttir mikið leiðina milli Djúpavogs og Héraðs.

Hinn 24. júlí 1953 er stofnað í Beruneshreppi Ungmennafélagið Djörfung, sem átti eftir að koma talsvert við sögu vegarlagningar yfir Öxi. Í Héraðsskjalasafni Austfirðinga er varðveitt fundarboðl stofnfundar annars ungmennafélags í hreppnum, fundargerðabók Ungmennafélagsins Djörfungar 1953-1960 og ýmis skjöl félagsins m. a. fundargerð frá 1961 og 1963 og fleira. Fram kemur í fundargerðarbókinni að stofnfélagar voru 19, en í félagatali árið 1953 eru skráðir félagar orðnir 34. Annað ungmennafélag var fyrir í hreppnum eins fyrr getur. Það var Ungmennafélagið Bára, stofnað 1930. Ósætti varð meðal félagsmanna þess félags um staðarval fyrir bragga sem félagið keypti fyrir bráðabirgðasamkomuhús. Gengu þá Innströndungar úr félaginu og stofnuðu nýtt félag, Ungmennafélagið Djörfung. (Sjá m. a. Sveitir og jarðir í Múlaþingi, 3. bindi, bls. 364-369).

Ungmennafélagið Djörfung virðist hafa haft nokkra sértöðu meðal ungmennafélaga á þessum tíma, hvað verkefnaval snertir. Félagið tók að vísu þátt í umræðum með hreppsnefnd Beruneshrepps um byggingu félagsheimilis skömmu eftir að félagið var stofnað, en hafnaði síðar tilboði um aðild að byggingu félagsheimilisins. Hins vegar samþykkti félagið nokkrum árum síðar að leggja fram peningaupphæð til vegagerðar yfir Öxi. Höfðu félagsmenn einkum aflað tekna með því að rækta og selja kartöflur og rófur. Stuðningur við lagningu Axarvegar bæði með fjárframlögum og sjálfboða-vinnu félagsmanna virðist hafa verið það málefni sem félagið lagði höfuðáherslu á. Þekki ég ekki önnur dæmi um að ungmennafélag hafi lagti fé til vegagerðar.

Að öðrum ólöstuðum má segja að Hjálmar Guðmundsson frá Fagrahvammi hafi verið einn ötulasti baráttumaðurinn fyrir því að leggja veg yfir Öxi. Hann var bæði verkstjóri og ýtumaður við lagningu bílvega í Berufirði og verkstjóri og ýtustjóri þegar rudd var vegslóð inn að Vagnbrekku í botni Berufjarðardals árið 1959 og þegar rudd var vegarslóð alla leið yfir heiðina árið eftir fyrir smá framlag úr Fjallvegasjóði og mikla sjálfboðavinnu, að því er segir í Sveitum og jörðum (3. bindi bls. 369) .
Þá orti Nanna Guðmundsdóttir frá Berufirði eftirfarandi vísu:

Axarvegur er orðinn fær
öruggum manni á góðum jeppa.
En aktu varlega, vinur kær,
viljirðu heill til byggða sleppa.

Vert væri að skrá sögu vegarlagningar yfir Öxi, en það verður ekki gert í stuttum pistli.

Guðgeir Ingvarsson

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022