Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Jólaboð og kökubakstur fyrir rúmum hundrað árum

Nú í aðdraganda jóla er við hæfi að huga að jólasiðum fyrri tíma. Í þeim fróðleikspistli sem hér fylgir greinir Guðgeir Ingvarsson frá vitnisburði skjala úr fórum Halldórs Péturssonar frá Geirastöðum í Hróarstungu, en í þeim greinir frá venjum varðandi jólahald á Borgarfirði um aldamótin 1900.  

 

Eitt af stærstu einkaskjalasöfnum sem verðveitt eru í Héraðsskjalasafni Austfirðinga er skjalasafn Halldórs Péturssonar (1897–1989) frá Geirastöðum í Hrórarstungu. Færslur í því safni eru nokkuð á áttunda hundrað og efnið mjög fjölbreytt, enda átti Halldór mörg áhugamál og virðist hafa verið sískrifandi, þegar tóm gafst til. Halldór hefur safnað og skrifað mikið af þjóðlegum fróðleik og einnig frásagnir af sögulegum atburðum. Hann safnaði líka kveðskap og fleira efni eftir aðra höfunda og orti talsvert sjálfur. Halldór skrifaði fjölda greina í blöð og tímarit, um stjórnmál, þjóðmál og fleira, samdi smásögur og leikþætti og sögur og ævintýri fyrir börn. Margt af þessu efni er í skjalasafni hans ýmist sem handrit, vélrit eða blaðaúrklippur og þar er einnig bréfasafn hans. Eftir Halldór liggja einnig nokkrar bækur, m.a. barnabækur með sögum og ævintýrum, bækur um þjóðlegan fróðleik, t. d. draugasögur, og fleira mætti nefna. Eiginkona Halldórs var Svava Jónsdóttir frá Geitavík í Borgarfirði eystra og bjuggu þau lengst af í Kópavogi.

Þar sem jólin nálgast nú óðum er ekki úr vegi að birta hér nokkur brot úr frásögn Halldórs Péturssonar um kynni hans af jólahaldi og kökubakstri á Borgarfirði eystra fyrir rúmlega hundrað árum. Varðveitt er hér í safninu lýsing Halldórs á fyrstu ferð hans til Borgarfjarðar árið 1905, þegar hann var á níunda ári. Halldór var af hinni svokölluðu Njarðvíkurætt yngri. Móðir hans, Elísabet, var dóttir Steins Sigurðssonar á Borg í Njarðvík og faðir hans, Pétur Daníel Sigurðsson, sem var sonarsonur Sigurðar Jónssonar sem var einn af forfeðrum Njarðvíkurættarinnar. Halldór átti því margt skyldmenna á Borgarfirði ekki síst þar sem Steinsættin var þar fjölmenn. Í fyrrnefndri frásögn er m.a. kafli um vikuna milli jóla og nýárs, jólaboð og kökubakstur eins og tíðkaðist á þessum tíma á Borgarfirði. Hefst nú frásögn Halldórs:

„Þessi jólavika og fram að þrettánda er skýrt mótuð í huga minn. Hún er bundin við heimboðin innan Steinsættarinnar, en þau voru fastur liður í tilverunni .... Þá er að snúa sér að vikunni milli jóla og nýárs, sem hefur kannski verið fyrsta sæluvikan hér á landi. Til jólanna var að sjálfsögðu tjaldað öllu sem til fannst.
Bökunarilminn lagði út úr öllum þessum húsum sem ég var heimagangur í, Hól, Bakkakoti, Bólum, Hjallhól og Bakka. Þarna var bakað og brasað af mikilli list, sem dæmi nefni ég hér nokkrar tegundir. Sjálfur man ég þetta ekki glöggt, en til þess að fólk haldi ekki að hér sé ný útgáfa af Gylfaginningu, sneri ég mér til Tobbu og Laugu
Sigurðardætra [Þorbjörg Sigurðardóttir og Áslaug Sigurðardóttir, innskot G.I.]. 
Við fórum svo að rifja upp og þetta kom í ljós. Hvað margar tegundir voru úr sama deiginu vil ég ekkert fullyrða um, en við þessa upprífjun lifði ég upp hina áratugagömlu tilhlökkun í súkkulaði, kaffi og allt þetta brauð. Og hér koma þær tegundir sem fram voru bornar:
Kleinur, vöfflur, pönnukökur, jólakaka, sódakaka, astrakaka, marmarakaka, gyðingakökur, hálfmánar, umslög, vanilluhringir, kossar, ömmukökur, laufabrauð, partar, röfl, fínabrauð, mömmukökur, terta, tvíbökur, kringlur, spesíur, tvær sortir af kexi, dollarakaka, lummur, ástarpungar, hrærðar kökur, kúrínukökur,súkkulaðiterta.
Ekki má skilja þetta svo, að allar þessar tegudir væru í einu boði, heldur þekktist þetta yfir heilu línuna. Líka má vera að samtal hafi farið fram um hvað helst væri á borði hjá hverjum.“

Hér líkur tilvitnun í Halldór Pétursson. Margar þær kökutegundir sem Halldór nefnir eru enn vel þekktar en aðrar munu minna eða lítt þekkar nú um stundir. Undirritaður hefur t.d. aldrei heyrt talað um kökutegund sem kölluð er röfl. Í Íslenskri orðabók 3. útgáfu frá 2002 er orðið rövl skrifað með v og ein merking þess sögð vera ljósar smákökur. Væri gaman ef einhverjir gætu miðlað upplýsingum um þessa kökutegund. Ekki þekkir undirritaður heldur hvað er astrakaka, fínabrauð, spesíur eða dollarakaka. Umslög hefur sá er þetta ritar heyrt talað um sem nafn á kökum. Í íslenskri orðabók frá 2002, sem fyrr var nefnd, segir um þessa kökutegund: „Umslag: sætabrauð, brotið saman með hornin inn á miðju.“ Væri áhugavert ef þeir sem þekkja ofannefndar köku- eða brauðtegundir létu í sér heyra. Einhverjir gætu jafnvel átt uppskirftir að þessum kökum, sem þeir vildu koma á framfæri.

Fyrsta mánudag í aðventu 2009,
Guðgeir Ingvarsson

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022