Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Sumardagurinn fyrsti í safnahúsinu

Samkvæmt venju verður mikið um að vera í safnahúsinu á sumardaginn fyrsta. Kl. 13.30 opnar í minjasafninu sýningin "Dauðir rísa ... úr gröfum Skriðuklausturs" og verður opnuninni fylgt eftir með fjölbreyttri dagskrá.

Um kvöldið verður myndasýning þar sem Arndís Þorvaldsdóttir segir frá og sýnir myndir frá austfirskum bæjarhátíðum og íþróttaviðburðum. Sú sýning hefst kl. 20.00. 

Minjasafn Austurlands, í samvinnu við Skriðuklaustursrannsóknir opnar á sumardaginn fyrsta sýninguna ,,Dauðir rísa ... úr gröfum Skriðuklausturs“. Sýningin  fjallar um fólkið sem grafið var á Skriðklaustri frá tímum klaustursins (1493-1554) og fram á 18. öld.  Á sýningunni eru m.a. sýndar teikningar af beinagrindum hinna framliðnu eins og þær lágu í gröfum sínum. Þá eru til sýnis tvær beinagrindur, kistuleifar og munir sem fundist hafa í kistum. Í tengslum við þetta var einnig gefin út sýningaskrá með fyrrnefndum teikningum. Þar má jafnframt finna greinar sem fjalla um fornleifauppgröftinn að Skriðuklaustri og niðurstöður hans sem og grein um íslenska grafarsiði og viðhorf til dauðans fyrr og nú.

Með sýningunni náum við vonandi að kynnast örlítið hinum löngu liðna hugarheimi íslenskra miðalda og minnumst einnig fólksins sem á Skriðuklaustri var jarðað þó að lífshlaup þeirra sé okkur enn að mestu hulið. Sýningin verður opnuð kl. 13.30. Í framhaldi af því verður dagskrá í Safnahúsinu tileinkuð sumarkomunni. Tónlistaratriði, danssýning þjóðdansafélagsins Fiðrildanna, föndursmiðja og óvæntar sumargjafir fyrir gesti.

 

Um kvöldið kl. 20.00 sýnir Arndís Þorvaldsdóttir myndir úr fórum Ljósmyndasafns Austurlands og Myndasafni Vikublaðsins Austra frá ýmsum bæjarhátíðum og íþróttaviðburðum á Austurlandi. 

 

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022