Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Sumarsýningin Ó-líKINDi og þjóðhátíðardagurinn

Næstkomandi laugardag (14. júní) opnar formlega í safnahúsinu sýningin Ó-líKINDi sem er sumarsýning Minjasafns Austurlands. Þema sýningarinnar er íslenska sauðkindin, afurðir hennar og birtingarmyndir í íslensku landslagi sem og staða sauðkindarinnar í íslenskri sögu, menningu, listum og hönnun. Sýningin er á öllum hæðum í safnahúsinu og koma sýningargripir víða að. Framsetning sýningarinnar er margvísleg en á henni gefur m.a. að líta ljósmyndir, muni og afurðir sauðkindarinnar.

Ó-líKINDi er samsýning Minjasafns Austurlands með Donegal County Museum á Írlandi og Museum Nord í Vesterålen í Noregi. Margir hafa lagt sýningunni lið þ.á m. hin söfnin í safnahúsinu – Bókasafn Héraðsbúa og Héraðsskjalasafn Austfirðinga. Sýningarstjóri er Elfa Hlín Pétursdóttur, safnstjóri minjasafnsins, en hönnun sýningarinnar er í höndum Ríkeyjar Kristjánsdóttur sýningarhönnuðar.

Opnunarathöfnin á laugardaginn hefst kl. 13 en sýningin mun standa út sumarið. Minjasafn Austurlands er opið alla daga í sumar, en nánari upplýsingar um starfsemina má fá á heimasíðu safnsins. Slóðin er www.minjasafn.is

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní mun safnahúsið verða opið frá kl. 11-17. Þá verður hægt að skoða nýju sumarsýningu minjasafnsins sem og grunnsýningu þess, fleira verður einnig haft til skemmtunar.
Það er von okkar sem störfum í safnahúsinu að sem endranær leggi margt fólk leið sína í safnahúsið á þjóðhátíðardaginn.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022