Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Sumarfagnaður Safnahússins

Sumri verður fagnað í Safnahúsinu á Egilsstöðum á sumardaginn fyrsta (24. apríl) og verður húsið opið frá kl. 16-18. Starfsfólk Safnahússins tekur á móti gestum og verður ýmislegt gert til skemmtunar. Flutt verður efni tengt sumarkomu og rifjaðir upp gamlir leikir. Þessi viðburður er liður í Menningardögum að vori á Fljótsdalshéraði.

Hér áður fyrr var sumardagurinn fyrsti mun stærri hátíðsdagur en við eigum að venjast í seinni tíð og tengjast ýmsir siðir þessum degi. Einn þeirra var sá að gefa gjafir á sumardaginn fyrsta, svokallaðar sumargjafir, og þeirra nutu einkum börn.

Í tilefni dagsins verður aðgangur ókeypis að aðalsýningu Minjasafns Austurlands, auk þess verður heitt á könnunni og boðið upp á nýbakaðar vöfflur. Safi verður í boði fyrir börnin. 

Vonandi sjá sem flestir sér fært að koma í safnið og njóta dagsins með okkur.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022