Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Fimmtudagskvöldið 2. desember nk. verður hin árlega Bókavaka haldin í Safnahúsinu og hefst hún kl. 20:30. Að venju verður áherslan lögð á austfirska útgáfu og munu nýútgefnar austfirskar bækur verða kynntar með upplestri og frásögnum af útgáfu þeirra. Sex bækur verða kynntar sérstaklega og munu höfundar eða aðstandendur þeirra verða á staðnum og kynna sínar bækur.

Við minnum á dagskrána Kæru hlustendur sem verður í Safnahúsinu laugardaginn 13. nóvember nk. Dagskráin er tileinkuð 80 ára afmæli Ríkisútvarpsins. Hún er um klukkustundar löng og hefst klukkan 17:00. Aðgangur er ókeypis.

Af ófyrirséðum orsökum hefur orðið að breyta tímasetningu sýningarinnar Austurland fyrir 20 árum sem fyrirhuguð var í Safnahúsinu laugardagskvöldið 21. ágúst nk. (er ranglega tímasett þann 14. ágúst í útgefinni dagskrá Ormsteitis). Ný tímasetning er FÖSTUDAGSKVÖLDIÐ 20. ÁGÚST kl. 20:00. 

Hin árlega Ormsteitishátíð verður haldin á Fljótsdalshéraði dagana 13.-22. ágúst nk. Að venju tekur Safnahúsið þátt í hátíðinni. Framlag Héraðsskjalasafnsins þetta árið verður sýning Austurland fyrir 20 árum en hún byggir á myndskeiðum úr Austfirsku atvinnu- og menningarlífi frá árunum í kringum 1990. Heiður Ósk Helgadóttir og Hjalti Stefánsson munu hafa veg og vanda af sýningunni en hún byggir á myndefni frá Austfirska sjónvarpsfélaginu sem starfaði á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Sýningin verður í Safnahúsinu þann 21. ágúst og hefst hún kl. 20:00.

Biskup Íslands og Félag héraðskjalavarða á Íslandi standa fyrir sameiginlegu átaki í söfnun og varðveislu skjalasafna sóknarnefnda í landinu. Héraðsskjalasöfn efna nú til átaks með Biskupi Íslands í því skyni að hvetja sóknarnefndir til að varðveita sögu sína með því að koma skjölunum á næsta héraðskjalasafn í því skyni að skjölin varðveitist á öruggum stað. Forsvarsmenn sóknarnefnda, og þeir sem hafa undir höndum skjöl sóknarnefnda, eru því hvattir til að hafa samband við næsta héraðskjalasafn varðandi nánari upplýsingar eða koma skjölunum til þeirra til varðveislu.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga óskar eftir að ráða starfsfólk til tímabundinna starfa.

Um er að ræða starf við yfirstandandi verkefni á vegum Þjóðskjalasafns Íslands. Verkefnið snýst um innslátt og yfirlestur manntala vegna fyrirhugaðrar birtingar á vefnum. Starfsmaður mun slá upplýsingum inn í gagnagrunn eftir frumriti manntalsins.

Ráðið er til loka árs 2010. Reynslutími er 2 mánuðir. Um er að ræða hlutastarf. Umsækjendur þurfa að geta hafið störf sem fyrst.

Umsóknarfrestur er til fimmtudagsins 14. janúar n.k. [til að sjá meira, klikkið á fyrirsögn]

Héraðsskjalasafnið verður opið á þorláksmessu til kl. 16:00. Safnið verður hins vegar lokað á aðfangadag, gamlársdag og nýársdag. Virka daga milli jóla og nýárs (28., 29. og 30. des.) verður opið frá kl. 12:00-17:00. Opnunartími færist svo í eðlilegt horf frá og með fyrsta starfsdegi nýs árs, sem er mánudagurinn 4. janúar. 

Á fimmtudagskvöldið (3. des) verður Bókavaka Safnahússins haldin og hefst hún kl. 20:00. Líkt og í fyrra er bókavakan alaustfirsk, þ.e. að þeir rithöfundar sem fram koma eru allir Austfirðingar. Þeir höfundar sem stíga á stokk eru alls fimm talsins: Þau eru: Vilhjálmur Hjálmarsson, Elfa Hlín Pétursdóttir, Kristín Jónsdóttir, Ingunn Snædal og Smári Geirsson. Þeirri venju er haldið að bjóða upp á fjölbreytt efni, en á efnisskránni eru tvær ljóðabækur, ein byggðasaga, ein sveitarlýsing og ein þýdd bók. Höfundarnir eru einnig misreyndir í bókum talið, allt frá því að vera að gefa út sína fyrstu bók og til þess að vera að gefa út bók nr. 20.

Samkvæmt venju mun safnahúsið standa fyrir bókavöku og jólagleði á aðventunni. Bókavakan mun verða fimmtudagskvöldið 3. desember og jólagleðin laugardaginn 5. desember. Dagskrá þessara viðburða verður auglýst nánar þegar nær dregur.

Safnahúsið tekur þátt í Dögum myrkurs með dagskrá sem verður í safninu laugardaginn 14. nóvember kl. 16.00

Minnst verður 125 ára fæðingarafmælis skáldsins Arnar Arnarsonar með dagskrá tileinkaðri skáldinu. Umsjón með henni hafa Áslaugar Sigurgestsdóttur og Arndísar Þorvaldsdóttur. Norræna skjaladaginn ber upp á þennan sama dag og er þema hans “Konur og kvenfélög”. Af því tilefni verður sýning á gögnum úr fórum austfirskra kvenfélaga og myndum af konum í leik og starfi. Þennan dag lýkur svo sumarsýningu Minjasafnsins, Ást í 100 ár, með því að ástarhjörtu Ríkeyjar Kristjánsdóttur verða tekin niður og seld hæstbjóðanda.

Í dag birtist hér á heimasíðu safnsins myndasýning sem nefnist Söngur og leiklist á Héraði. Sýningin gefur innsýn í tónlistar- og leiklistarlíf á Fljótsdalshéraði á síðari hluta 20. aldar, en elsta myndin er frá árinu 1959. Flestar koma myndirnar úr myndasöfnum Tónskólans og Leikfélags Fljótsdalshéraðs og er ljósmyndara getið séu þeir þekktir.

Héraðshátíðin Ormsteiti á Fljótsdalshéraði hefst næstkomandi föstudag, 14. ágúst, og stendur í rúma viku. Sú hefð hefur skapast að einn dag Ormsteitis er safnastarf meira áberandi en annars og taka söfnin í Safnahúsinu á Egilsstöðum þátt líkt og þau hafa gert undanfarin ár. Safnadagur Ormsteitis þetta árið er laugardagurinn 15. ágúst. Að þessu sinni verður dagskráin í Safnahúsinu að kvöldi til og hefst hún kl. 21:00.

Ýmsu nýju efni hefur verið bætti inn á heimasíðu héraðsskjalasafnsins. Hér til vinstri á síðunni má lesa frétt um nýliðna viðburði í starfsemi safnsins. Undir flokknum fróðleikur má finna nýjan pistil eftir Guðgeir Ingvarsson um Guðnýju Þorsteinsdóttur frá Lindarbakka í Borgarfirði og gögn í vörslu safnsins sem henni tengjast. Hrafnkell Lárusson ritar pistil um nýafstaðinn skjalavarðafund og síðast en ekki síst er komin ný myndasýning á heimsíðuna. Nefnist hún Bæjarhátíðir og íþróttaviðburðir.

Héraðsskjalasafnið verður opið alla virka daga í sumar frá kl. 12-18.

Sú hefð hefur skapast að safnið sé opið allt sumarið, þ.e. ekki sé gripið til tímabundinna sumarlokana, og stendur metnaður okkar til þess að viðhalda þeirri ágætu hefð. 

 

Samkvæmt venju verður mikið um að vera í safnahúsinu á sumardaginn fyrsta. Kl. 13.30 opnar í minjasafninu sýningin "Dauðir rísa ... úr gröfum Skriðuklausturs" og verður opnuninni fylgt eftir með fjölbreyttri dagskrá.

Um kvöldið verður myndasýning þar sem Arndís Þorvaldsdóttir segir frá og sýnir myndir frá austfirskum bæjarhátíðum og íþróttaviðburðum. Sú sýning hefst kl. 20.00. 

Næstkomandi laugardag, 28. mars verður í safnahúsinu tekið forskot á komandi páskahátíð. Þá verður haldið í húsinu svokallað Páskafjör og mun það standa frá kl. 14-17. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá sem inniheldur m.a. fróðleik um páskahefðir og ljóðaupplestur. Fyrir þá sem vilja taka virkan þátt og reyna að hug og hönd verður boðið upp á föndur, eggjaleit o.fl. Síðast en ekki síst verður boðið upp á vöfflukaffi fyrir gesti. Aðgangur að páskafjörinu er ókeypis og eru allir velkomnir.  

Héraðsskjalasafn Austfirðinga óskar eftir að ráða starfsmann til tímabundinna starfa.

Um er að ræða starf við verkefni á vegum Þjóðskjalasafns Íslands. Verkefnið gengur út á að koma manntali á tölvutækt form til birtingar á vefnum. Starfsmaður mun slá upplýsingum inn í gagnagrunn eftir frumriti manntalsins.

Á fimmtudaginn opnar ljósmyndasýning í Safnhúsinu á Egilsstöðum. Hún ber heitið „Til gagns og til fegurðar“. Myndirnar á sýningunni eru fengnar úr samnefndri sýningu sem var í Þjóðminjasafni Íslands fyrri hluta árs 2008. Þema „Til gagns og til fegurðar“ er útlit og klæðaburður Íslendinga á árabilinu 1860-1960.

„Til gagns og til fegurðar“ verður formlega opnuð fimmtudaginn 22. janúar kl. 17:15. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Aðalfundi fulltrúaráðs Héraðsskjalasafns Austfirðinga sem vera átti á Breiðdalsvík í dag, fimmtudaginn 27. nóvember, er frestað um óákveðinn tíma vegna slæms veðurs og ófærðar. 

Héraðsskjalasafnið verður opið frá kl. 13-17 á Þorláksmessu og frá kl. 13-17 mánudaginn 29. desember og þriðjudaginn 30. desember. Það er lokað á aðfangadag, jóladag, annan í jólum og á gamlársdag. Safnið opnar svo með hefðbundum hætti á fyrsta virkann dag á nýju ári, föstudaginn 2. janúar.

Vegna óviss veðurútlits hefur fundi sem vera átti í stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga í dag (23. október) verið frestað. Fundurinn verður í næstu viku. Með tilliti til þess að meirihluti stjórnarmanna skjalasafnsins á yfir fjallvegi að fara til að sækja fundinn var talið talið ráðlegra að bíða með hann.

Þann 8. nóvember n.k. er Norræni skjaladagurinn. Frá árinu 2001 hafa opinber skjalasöfn á Norðurlöndum nýtt annan laugardag í nóvember til að kynna starfsemi sína. Í ár er yfirskrift skjaladagsins "Gleymdir atburðir". Skjaladagurinn er með heimasíðu og er slóðin: www.skjaladagur.is Þó Héraðsskjalasafn Austfirðinga taki ekki þátt í formlegri dagskrá skjaladagsins þetta árið verður safnið opið laugardaginn 8. nóvember frá kl. 13-16. Forstöðumaður safnsins mun þá taka á móti gestum, kynna starfsemina og svara spurningum um hana. Til sýnis verða skjöl og myndir sem tilheyra safnkosti héraðsskjalasafnsins.   

Nú á fimmtudaginn, 23. september, verður haldinn fundur í stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Aðalmál stjórnarfundarins er fjárhagsáætlun næsta árs. Oft hefur verið léttara verka að setja saman fjárhagsáætlanir en nú þegar allsstaðar herðir að í samfélaginu og því ljóst halda þarf vel á spilunum. Fundargerð þessa stjórnarfundar verður sett inn á vefinn fljótlega eftir fund. Er ætlunin að viðhafa þann sið í framtíðinni. 

Næstkomandi mánudag, 13. október, eru 100 ár liðin frá fæðingu Aðalsteins Kristmundssonar, sem síðar varð landsþekktur undir skáldanafninu Steinn Steinarr. Af þessu tilefni verður hans minnst með ýmsum hætti víða um land. Steinn var eitt áhrifamesta ljóðskáld landsmanna á 20. öld og hafa mörg ljóða hans greipst í huga landsmanna. Héraðsskjalasafn Austfirðinga leggur sitt af mörkum á þessum tímamótum, en næstkomandi sunnudagskvöld (12. okt.) verður Steins minnst með dagskrá í safnahúsinu. Þar verður sagt frá ævi og ferli skáldsins og flutt verða ljóð eftir hann.

Á annars vel heppnuðum safna- og markaðsdegi í safnahúsinu sl. laugardag bar einn skugga á. Af óviðráðanlegum orsökum urðum við að fella niður myndasýninguna sem fyrirhuguð var í Valaskjálf kl. 15 þann dag.

Þrátt fyrir að svona hafi farið vonumst við til að geta haldið sýninguna síðar og verður hún þá auglýst sérstaklega.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022