Nýliðnir atburðir í safnahúsinu
Mikið var um að vera síðustu dagana í apríl í safnahúsinu. Á sumardaginn fyrsta var hin árlega sumargleði safnahússins haldin og tókst hún að vanda vel og var aðsók góð. Í hádeginu föstudaginn 24. apríl var lokahátíð leiklistarverkefnisins Þjóðleiks sett í anddyri safnahússins að viðstöddu fjölmenn, en meðal gesta voru forseti Íslands, menntamálaráðherra og þjóðleikhússtjóri. Síðustu tvo daga aprílmánaðar var svo haldin á Egilsstöðum árlegur fundur skjalavarða.
Á sumardaginn fyrsta ríkti mikil gleði í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Dagskrá dagsins hófst með því að ný sýning Minjasafns Austurlands var opnuð. Hún nefnist "Dauðir rísa ... úr gröfum Skriðuklausturs" og er sett upp í samstarfi við Skriðuklaustursrannsóknir. Sýningin er í sýningarsal minjasafnsins og á hún að standa til 1. maí á næsta ári. Umfjöllunarefni sýningarinnar er fólkið sem grafið hefur verið upp úr kirkjugarðinum á Skriðuklaustri við fornleifauppgröftinn sem þar hefur staðið undanfarin ár. Á sýningunni gefur að líta beinagrindur einstaklinga sem jarðsettir voru í garðinum auk ýmissa muna sem komið hafa í ljós við uppgröftinn. Eftir opnunina tók sönghópurinn Hjartafimmurnar nokkur lög og að því loknu stigu félagar í Þjóðdansafélaginu Fiðrildunum dans. Gefnar voru sumargjafir í formi lesturs, tónlistar og dans og gestir fengu að reyna á hæfileika sína við að búa til sumarlegt föndur. Um kvöldið var haldin ljósmyndasýning þar sem myndir úr Ljósmyndasafni Austurlands voru sýndar. Þema sýningarinnar voru bæjarhátíðir og íþróttaviðburðir. Vel á annað hundrað manns heimsótti safnahúsið á sumardaginn fyrsta er ljóst að sú hefð að bjóða upp á dagskrá í húsinu þennan dag er búin að festa sig í sessi.
Í hádeginu föstudaginn 24. apríl var margt um manninn í anddyri Safnahússins, en þá buðu þjóðleikhússtjóri og þjóðleikhúsráð til móttöku í Safnahúsinu vegna lokahátíðar leiklistahátíðarinnar Þjóðleiks sem er umfangsmesta leiklistarverkefni sem sett hefur verið á fót hér á landi. Auk þjóðleikhússtjóra og aðstandenda Þjóðleiks, sem ávörpuðu viðstadda og veittu viðurkenningar, voru meðal gesta Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra. Um 100 manns voru í móttökunni. Að henni lokinni hófst sjálf lokahátíðin með leiksýningum og ýmsum uppákomum sem stóðu alla helgina. Þátttakendur í Þjóðleik voru einkum ungt fólk og setti sá fjöldi sem tók þátt í hátíðinni mikinn svip á Egilsstaði og nágrenni helgina sem lokahátíðin stóð.
Dagana 29. og 30. apríl var haldinn á Hótel Héraði á Egilsstöðum árlegur fundur skjalavarða. Slíka fundi sækir starfsfólk héraðsskjalasafna landsins auk starfsmanna Þjóðskjalasafns, en þeir hafa ekki áður verið haldnir á Austurlandi. Hrafnkell Lárusson, forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga, átti sæti í undirbúningsnefnd fundarins og kom þannig að skipulagningu og framkvæmd hans. Nánar er fjallað um fundinn í pistli hér á heimasíðunni.