Varðveisla og eyðing skjala hjá sveitarfélögum og stofnunum
Varðveisluskylda
Meginreglan er að varðveita öll opinber skjöl.
Óheimilt er að ónýta eða farga nokkru skjali nema það sé gert í samræmi við:
Grisjun er fyrst og fremst nauðsynleg af hagnýtum ástæðum (plássleysi og geymslukostnaður).
Gæta ber að því, þegar skjalasöfn eru grisjuð, að engar mikilvægar heimildir glatist sem snerta hagsmuni og réttarstöðu einstaklinga eða eru merkilegar sögulegar heimildir.
Grisjun skjala getur verið vandasöm og tímafrek. Þegar til lengri tíma er litið borgar sig að gera skjalavistunaráætlun þar sem fram kemur hvaða tilteknu skjalaflokkar skulu grisjaðir og hvenær.
Skjöl sem eru ekki grisjuð
- málaskrár (bréfadagbækur)
- málasafn (bréfasafn)
- gögn vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar
- árslaunalistar
- fundargerðir
- ársskýrsla stofnunar
- eintak af eigin útgáfu (skýrslur, bæklingar, fréttabréf, auglýsingar o.fl.)
- skjöl sem varða sérsvið viðkomandi embættis/stofnunar/sveitarfélags
- ársreikningar og sundurliðun þeirra (aðalbækur) og áramótalistar (dagbækur eða aðalbókarhreyfingar og viðskiptamannalistar)
- skjöl sem eru eldri en frá árinu 1960
Grisjun í skjalasafni
Eftirfarandi skjölum má farga/henda á viðurkenndan hátt (tæta/brenna):
- fylgiskjöl bókhalds og undirgögn bókhalds sjö árum eftir að reikningsári lýkur (varðveita sem sýnishorn fylgiskjöl frá apríl, ágúst, desember fyrir ár sem enda á 0 og 5)
- útgefið efni frá öðrum aðilum (s.s. ársreikningar, ársskýrslur, fréttabréf) nema skjölin hafi kallað á ályktanir eða aðgerðir sveitarfélags/stofnunar og eru þau þá varðveitt í málasafni
- afrit og endurrit fundargerða stofnana og byggðasamlaga þegar hagnýtu gildi er lokið, enda sé frumrit varðveitt hjá viðkomandi stofnun eða byggðasamlagi
- afrit flutningstilkynninga þegar hagnýtu gildi er lokið (frumrit varðveitt hjá Þjóðskrá)
- álagningaskrár útsvara þegar hagnýtu gildi er lokið (frumrit varðveitt hjá skattstjórum)
- fasteignamatskrá þegar hagnýtu gildi er lokið (frumrit varðveitt hjá Þjóðskrá)
- afturkallanir á starfsábyrgðartryggingum nema v. byggingarstjóra sem hafa verk í viðkomandi umdæmi (eru þá varðveittar í málasafni, frumrit hjá umhverfisráðuneyti)
- prófúrlausnir nemenda í grunnskólum tveimur árum eftir að skólaári lýkur (varðveita þó allar prófúrlausnir á einu skólaári á tíu ára fresti, fyrir ár sem enda á 0)
Hreinsun í skjalasafni:
- aukaeintök skjala og útgáfurita (geyma ekki ljósrit auk frumrits í málsmöppum)
- fjölpóstur/ruslpóstur (fjöldaframleitt kynningarefni s.s. dreifibréf, auglýsingar, kynningar á þjónustu og ráðstefnum (nema skjölin hafi kallað á ályktanir eða sérstakar aðgerðir sveitarfélags/stofnunar og eru þá varðveitt í málasafni ásamt afgreiðslu/niðurstöðu máls)
- einkabréf til starfsmanna, sérstaklega í tölvupósti (starfmenn noti einkanetfang)
- fjarlægja gúmmíteygjur, bréfaklemmur, plastvasa, bréfabindi ofl. sem eyðileggja skjöl
Rafræn skjöl
Héraðsskjalasafn Austfirðinga hefur ekki aðstöðu eða tækjabúnað til að taka við skjölum á tölvutæku formi. Því þarf að prenta út öll skjöl sem stofnun/sveitarfélagi er skylt að varðveita.
Ítarefni
Ofangreindar leiðbeiningar eru ekki tæmandi og tiltaka aðeins helstu atriði. Hér verða því talin upp helstu vefsíður, lög, reglur, leiðbeiningar og eyðublöð varðandi skjalastjórn og skjalavörslu:
Þjóðskjalasafn Íslands http://skjalasafn.is/sveitarfelog
Lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 http://www.althingi.is/altext/143/s/1260.html
Handbók um skjalavörslu sveitarfélaga http://skjalasafn.is/files/docs/handbok_sveitarfelog.pdf
Reglur um skjalavistunaráætlanir afhendingarskyldra aðila (nr. 571/2015) http://skjalasafn.is/files/docs/B_nr_571_2015.pdf
Reglur um málalykla afhendingarskyldra aðila (nr. 572/2015) http://skjalasafn.is/files/docs/B_nr_572_2015.pdf
Reglur um frágang, skráningu og afhendingu pappírsskjala afhendingarskyldra aðila (nr. 573/2015) http://skjalasafn.is/files/docs/B_nr_573_2015.pdf
Reglur um grisjun í skjalasöfnum sveitarfélaga og stofnana þeirra (nr. 627/2010) http://skjalasafn.is/files/docs/reglur-627.pdf
Afhending skjala til Héraðsskjalasafns
Æskilegt er að hafa samband við safnið áður en ráðist er í að pakka niður skjölum til afhendingar.
Skjöl þarf að varðveita í viðurkenndum umbúðum, sérstökum skjalaöskjum og sýrufríum örkum. Þau þarf einnig að skrá á vandaðan hátt svo þau finnist síðar þegar á þarf að halda.
Stofnanir og sveitarfélög hafa val um að ganga frá eigin skjölum áður en þau eru afhent Héraðsskjalasafni eða fá starfsfólk safnsins til að annast verkið.
Kostnaður vegna skráningarvinnu og kaupa á umbúðum greiðist þá af afhendingaraðila.
Ganga þarf frá samningi um það áður en afhending fer fram.
útg. 6.9.2016