Skip to main content

admin

Um safnið

Héraðsskjalasafn Austfirðinga var stofnað árið 1976 samkvæmt lögum um héraðsskjalasöfn frá 12. febrúar 1947. Safnið er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lýtur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Þegar Héraðsskjalasafnið var stofnað voru eigendur þess Suður-Múlasýsla að 2/3 hlutum og Norður-Múlasýsla að 1/3. Þann 29. apríl 1992 breyttist eignaraðildin að safninu við það að stofnað var byggðasamlag um rekstur þess. Aðilar að byggðasamlaginu eru öll sveitarfélög í Múlasýslum sem nú eru fjögur: Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppur, Múlaþing og Vopnafjarðarhreppur.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga starfar nú samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn (nr. 77/2014) og reglugerð um héraðsskjalasöfn (nr. 283/1994) en bæði lögin og reglugerðina má nálgast hér á vef safnsins. Meginhlutverk safnsins er að taka við skjölum skilaskyldra aðila, sveitarfélaga og stofnana þeirra, skrá þau og varðveita. Héraðsskjalasafnið tekur einnig við einkaskjölum, t.d. bréfasöfnum og dagbókum einstaklinga, skjölum félaga og fyrirtækja, og er mikið af þess konar efni í safninu. Að slíku efni er jafnan mikill fengur enda oft að finna í því upplýsingar um samfélög liðins tíma sem ekki eru í opinberum skjölum.

Þann 17. apríl árið 1996 flutti Héraðsskjalasafnið í nýtt húsnæði í Laufskógum 1 á Egilsstöðum. Þar er safnið til húsa í dag og deilir húsnæði með Minjasafni Austurlands og Bókasafni Héraðsbúa. Fyrir flutninginn í Safnahúsið var Héraðsskjalasafnið staðsett í Kaupvangi 2 á Egilsstöðum. Auk skjalasafnsins sjálfs heyra Ljósmyndasafn Austurlands og Bókasafn Halldórs Ásgrímssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur undir Héraðsskjalasafnið. Ljósmyndasafnið er í eigu Héraðsskjalasafnsins, Minjasafns Austurlands og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, en það er hýst í Héraðsskjalasafninu og rekið undir hatti þess.

Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðaiðkan. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort heldur sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margskonar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu gögn sín.

Fyrsti safnvörður Héraðsskjalasafns Austfirðinga var Ármann Halldórsson, sem starfaði við safnið frá stofnun þess árið 1976 til 1. ágúst 1984. Þá tók Sigurður Óskar Pálsson við starfi safnvarðar og sinnti hann því til 1. júní 1996. Hrafnkell A. Jónsson tók þá við sem forstöðumaður héraðsskjalasafnsins og starfaði sem slíkur til 29. maí 2007 er hann lést langt fyrir aldur fram. Þann 1. janúar 2008 tók Hrafnkell Lárusson til starfa, Bára Stefánsdóttir tók við af honum 1. maí 2013 og núverandi forstöðumaður, Stefán Bogi Sveinsson, tók formlega við keflinu 1. júlí 2021.

Siðareglur skjalavarða

Inngangur

A. Siðareglum skjalavarða er ætlað að setja skjalavörðum háleit markmið í starfi sínu.
Þær eiga að kynna nýjum meðlimum starfsstéttarinnar þessi markmið, minna reynda skjalaverði á faglegar skyldur og efla traust almennings á stéttinni.

B. Heitinu skjalaverðir í þessum reglum er ætlað að ná yfir alla þá sem láta sig varða umsjón, eftirlit, vörslu, forvörslu og stjórnun skjalasafna.

C. Vinnuveitendur, hvort heldur stofnanir eða þjónustuaðilar við skjalavörslu, skulu hvattir til að tileinka sér stefnumið og starfshætti sem stuðla að því að reglum þessum sé framfylgt.

D. Siðareglunum er ætlað að veita siðræn viðmið til leiðsagnar fyrir meðlimi starfsstéttarinnar en ekki að veita sértækar lausnir á einstökum vandamálum.

E. Reglunum fylgir greinargerð. Reglur og greinargerðir mynda í heild siðareglurnar.

F. Reglur þessar byggjast á vilja skjalastofnana og samtaka skjalavarða til að beita þeim. Það gæti verið í formi menntunarátaks og með því að koma á fyrirkomulagi sem gerið kleift að veita leiðbeiningar í vafaatriðum, rannsaka brot á siðareglum og, ef talið er viðeigandi, að beita refsiaðgerðum.

Siðareglur

1. Skjalavörðum ber að vernda heilleika gagna í skjalasöfnum og tryggja þannig að þau haldi áfram að vera áreiðanleg heimild um fortíðina.
Meginskylda skjalavarða er að viðhalda heilleika skjala í þeirra umsjón og vörslu. Við framkvæmd þessarar skyldu verða þeir að taka tillit til lögmætra réttinda og hagsmuna, sem þó kunna að stangast á, vinnuveitenda, eigenda, þeirra sem gögnin fjalla um og notenda - í fortíð, nútíð og framtíð. Hlutlægni og hlutleysi skjalavarða er mælikvarði á fagmennsku þeirra. Þeir eiga að standast þrýsting úr hvaða átt sem er um að eiga við heimildir og leyna staðreyndum eða gera villandi.

2. Skjalavörðum ber að meta, velja og halda við gögnum í þeirra sögulega, lagalega og stjórnunarlega samhengi og halda þannig upprunareglu, þ.e. viðhalda og gera sýnileg upphafleg tengsl skjalanna.
Skjalavörðum ber að starfa samkvæmt almennt viðurkenndum grundvallarreglum og starfsaðferðum. Skjalavörðum ber að sinna skyldum sínum og störfum í samræmi við grundvallarreglum við skjalavörslu, sem varða myndun, viðhald og ráðstöfun á nýjum og nýlegum gögnum, þar með töldum rafrænum- og margmiðlunargögnum, val og öflun gagna vörslu í skjalasafni, vörslu, forvörslu og varðveislu skjalasafna í þeirra umsjá, svo og röðun, lýsingu, útgáfu og aðgegni að þessum gögnum. Skjalavörðum ber að meta gögn af hlutlægni og byggja mat sitt á ítarlegri þekkingu á stjórnunarþörfum og gagnaöflunarstefnu sinnar stofnunar. Þeim ber að raða og lýsa gögnum sem valin eru til varðveislu í samræmi við grundvallarreglur í skjalavörslu (nefnilega upprunareglu og reglunnar um upphaflega röðun) og viðurkennda staðla, jafnskjótt og kostur er á. Skjalaverðir skulu afla gagna í samræmi við markmið og efni stofnana sinna. Þeir skulu ekki leita eftir eða taka við aðföngum ef slíkt teflir í tvísýnu heilleika eða öryggi gagnanna; þeim ber að vinna saman að því að tryggja varðveislu slíkra gagna á mest viðeigandi geymslustað. Skjalavörðum ber að vinna saman að endurheimt brottnumdra skjalasafna.

3. Skjalavörðum ber að vernda upprunagildi skjala við skjalfræðilega meðferð, forvörslu og notkun.
Skjalavörðum ber að tryggja að skjalfræðilegt gildi gagna, þar á meðal rafrænna gagna og margmiðlunargagna, sé ekki rýrt við meðferð í skjalasafni svo sem við mat, röðun og lýsingu og við varðveislu og notkun. Öll úrtök (grisjun) skulu framkvæmd í samræmi við vandlega ígundaðar aðferðir og viðmið. Skipti á frumgögnum fyrir aðra gagnagerð skulu framkvæmd með tilliti til lagalegs gildis, innra mikilvægis og upplýsingagildis gagna. Þegar gögn sem aðgangur er takmarkaður að eru tímabundið fjarlægð úr möppum ber að gera notanda grein fyrir því.

4. Skjalavörðum ber að tryggja áframhaldandi aðgang og skiljanleika skjalagagna.

Skjalaverðir skulu velja skjöl til varðveislu eða grisjunar fyrst og fremst til að varðveita grundvallarvitnisburð um aðgerðir einstaklings eða stofnunar sem bjó til eða safnaði skjölunum en hafa einnig í huga breytilegar rannsóknarþarfir. Skjalaverðir eiga að vera meðvitaðir um að öflun gagna af vafasömum uppruna, hversu áhugaverð sem þau kunna að vera, kann að hvetja til ólöglegra viðskipta. Þeim ber að starfa með öðrum skjalavörðum og löggæsluaðilum sem vinna að því að handsama og sækja til saka þá sem grunaðir eru um þjófnað á skjalagögnum.

5. Skjalavörðum ber að skrá og geta fært rök fyrir meðferð sinni á skjalagögnum.
Skjalaverðir skulu hvetja til góðrar skjalavörslu á meðan á líftíma skjala stendur og vinna með þeim sem útbúa skjöl við að fást við nýja gagnagerðir (miðla) og nýja upplýsingastjórnunaraðferðir. Þeir eiga ekki aðeins láta sig varða öflun gagna sem þegar liggja fyrir heldur einnig tryggja að núverandi upplýsinga og skjalakerfi búi frá öndverðu yfir viðeigandi aðferðum til að varðveita verðmæt gögn. Skjalaverðir sem eiga í samningum við skilaaðila eða eigendur gagna skulu leita eftir sanngjörnum niðurstöðum þar sem tekið er tillit til eftirfarandi þátta ef við eiga: heimild til að skila, gefa eða selja; fjárhagslegt fyrirkomulag og ágóði; áætlanir um vinnslu, höfundarréttur og skilyrði fyrir aðgangi. Skjalaverðir skulu halda og varðveita skrár yfir skjalaskil, varðveislu og alla skjalfræðilega vinnu.

6. Skjalavörðum ber að hvetja til sem víðtæks aðgangs að skjalagögnum og mögulegt er og veita öllum notendum hlutlausa þjónustu.
Skjalaverðir skulu gera bæði almennar og sértækar leitarleiðbeiningar eftir því sem við á fyrir öll gögn í þeirra vörslu. Þeir skulu veita öllum óhlutdrægar ráðleggingar og nota öll tiltæk úrræði til að veita sem jafnasta þjónustu. Skjalavörðum ber að svara kurteislega og af greiðvikni öllum sanngjörnum fyrirspurnum um skjalaeign og hvetja til notkunar á henni eftir því sem mest má vera og í samræmi við stefnumið stofnunarinnar, varðveislusjónarmið, lagaleg atriði, persónurétt og samninga við afhendingaraðila. Þeim ber að útskýra viðkomandi takmarkanir fyrir væntanlegum notendum og beita þeim af jafnræði.
Skjalaverðir skulu ráða frá ósanngjörnum takmörkunum á aðgangi og notkun en mega leggja til eða samþykkja, sem skilyrði fyrir afhendingu, skýrt framsettar takmarkanir er gilda í ákveðinn tíma. Þeir skulu virða og beita af jafnræði öllum samningum gerðum við afhendingu en til að auka frelsi til aðgagns skulu þeir semja á ný um skilyrði í samræmi við breyttar kringumstæður.

7. Skjalavörðum ber að virða bæði aðgang og friðhelgi einkalífs og starfa innan marka viðkomandi laga.
Skjalvörðum ber að gæta að vernd friðhelgis lögaðila eða einstaklinga svo og þjóðaröryggishagsmunum án þess að gögnum sé eytt, sérstaklega hvað varðar rafræn gögn þar sem enduruppfærsla og grisjun eru almennt stunduð. Þeim ber að virða friðhelgi einkalífs einstaklinga sem sömdu eða eru umfjöllunarefni gagna, sérstaklega þeirra sem engu fengu ráðið um not eða vistun gagnanna.

8. Skjalavörðum ber að nota það traust sem þeir njóta í almannaþágu og forðast að misnota aðstöðu sína til ábata fyrir sig eða aðra.
Skjalavörðum ber að forðast aðgerðir sem kynnu að skaða faglega heilindi þeirra hlutlægni og hlutleysi. Þeir skulu ekki hagnast fjárhagslega eða með öðrum hætti svo að skaði stofnanir, notendur eða samstarfsfólk.
Skjalaverðir eiga ekki að safna frumheimildum eða taka þátt í verslun með skjöl í eigin þágu. Þeim ber að forðast athafnir sem kynnu að virðast í huga almennings fela í sér hagsmunaárekstur. Skjalaverðir mega nota gögn í vörslu stofnunar sinnar í þágu eigin rannsókna og til útgáfu enda sitji þeir þá við sama borð og aðrir rannsakendur sem noti sömu gögn. Þeir skuli ekki birta eða nota upplýsingar sem aflað var við vinnu við gögn sem aðgangur er takmarkaður að. Þeir skuli ekki láta einkarannsóknir eða útgáfuhagsmuni trufla þau faglegu og stjórnunarlegu störf sem þeir voru ráðnir til að sinna. Þegar þeir nota skjalagögn stofnana sinna mega skjalaverðir ekki nýta þekkingu sína á óútgefnum niðurstöðum rannsakenda án þess að láta þá fyrst vita um fyrirhuguð not þeirra af skjalaverðinum. Þeim er heimild að ritdæma og gera athugasemdir við rannsóknir annara á þeirra sérsviði, þar með talið verk sem byggð eru á skjölum úr þeirra eigin stofnunum. Skjalaverðir skulu ekki leyfa aðilum utan starfsstéttarinnar aðskipta sér af starfsaðferðum sínum og skyldum.

9. Skjalavörðum ber að leitast eftir faglegri fullkomnun með kerfisbundinni og stöðugri endurnýjun á skjalfræðilegri þekkingu og að deila með öðrum afurðum rannsókna og starfsreynslu.
Skjalaverðir skulu vinna að því að auka faglegan skilning sinn og hæfni, að auka við faglegan fróðleik og tryggja að aðilar sem þeir þjálfa eða hafa umsjón með séu í stakk búnir til að sinna störfum sínum á fullnægjandi hátt.

10. Skjalavörðum ber að hvetja til varðveislu og notkunar á skjalaarfleið heimsins með því að vinna með eigin starfsbræðrum og örðum starfsstéttum.
Skjalaverðir eiga að leitast við að efla samvinnu og forðast deilur við starfsfélaga og leysa úr vandamálum með því að hvetja til þess að skjalfræðilegum reglum sem og siðrænum sé framfylgt. Skjalaverðir skulu eiga samstarf við meðlimi nátengdra starfstétta á grundvelli gagnkvæmrar virðingar og skilnings.

Þannig samþykktar á 13 alþjóðaþingi skjalavarða í Pekíng 6. sept. 1996.

Stjórn

Stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga

Hvert aðildarsveitarfélag safnsins tilnefnir einn fulltrúa í stjórn og einn til vara.

Núverandi stjórn Héraðsskjalasafnsins tók til starfa á aðalfundi safnsins í nóvember 2022:

Fjarðabyggð: Jón Björn Hákonarson, formaður.
Fyrir Fljótsdalshrepp: Gunnþórunn Ingólfsdóttir.
Fyrir Múlaþing: Þórhallur Borgarsson, varaformaður.
Fyrir Vopnafjarðarhrepp: Bjartur Aðalbjörnsson.

Varafulltrúar eru:

Fjarðabyggð: Gunnar Jónsson.
Fyrir Fljótsdalshrepp: Róshildur Ingólfsdóttir.
Fyrir Múlaþing: Ester Sigurðardóttir.
Fyrir Vopnafjarðarhrepp: Sigrún Lára Shanko.

Skýrslur og áætlanir
Stofnsamningur

Stofnsamningur Héraðsskjalasafns Austfirðinga

Samþykktur á aðalfundi 2021

Múlaþing, Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppur og Vopnafjarðarhreppur gera með sér
SAMNING UM HÉRAÐSSKJALASAFN AUSTFIRÐINGA.

1. gr.
Sveitarstjórnir framangreindra sveitarfélaga hafa samþykkt að gerast aðilar að byggðasamlagi um byggingu og rekstur Héraðsskjalasafns Austfirðinga og starfar byggðasamlagið í samræmi við sveitarstjórnarlög nr. 138/2011, IX. kafla.
Safnið er sjálfstætt opinbert skjalsafn sem lýtur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Héraðsskjalasafnið hefur þau réttindi og á því hvíla þær skyldur sem kveðið er á um í lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 (með síðari tíma breytingum) og í reglugerðum með nánari ákvæðum um framkvæmd laganna og tekur efni stofnsamnings þessa mið af þeim.

2. gr.
Hlutverk Héraðsskjalasafns Austfirðinga er:
1. Að annast söfnun skjala aðildarsveitarfélaga og stofnana þeirra aðila sem samkvæmt lögum bera afhendingarskyldu gagnvart héraðsskjalasafni. Einnig leitist Héraðsskjalasafnið við að safna öðrum skjölum, svo sem einkaskjölum og ljósmyndum, sem hafa sérstaka þýðingu fyrir menningararfleifð og sögu á starfssvæði safnsins.
2. Að skrásetja öll afhent skjalasöfn hvert um sig og birta skrár um þau til leiðbeiningar við notkun þeirra. Einnig að tryggt sé að aðgengi almennings að skjölum í vörslu safnsins sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.
3. Að hafa eftirlit með og veita ráðgjöf um skjalavörslu afhendingarskyldra aðila.
4. Að viðhalda og varðveita Bókasafn Halldórs Ásgrímssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur í samræmi við ákvæði gjafabréfs dags. 17. apríl 1974 og samkvæmt samþykkt aðalfundar fulltrúaráðs Héraðsskjalasafnsins frá 25. nóvember 2010.
5. Að hafa samstarf við Skjala- og myndasafn Norðfjarðar samkvæmt sérstöku samkomulagi Héraðsskjalasafnsins við bæjarstjórn Fjarðabyggðar (sbr. 9. gr.).

3. gr.
Eftir hverjar reglulegar sveitarstjórnarkosningar skulu sveitarstjórnir tilnefna fjóra fulltrúa í stjórn Héraðsskjalasafnsins og jafnmarga til vara. Skal einn fulltrúi auk varamanns tilnefndur af sveitarstjórn Múlaþings, einn fulltrúi auk varamanns tilnefndur af bæjarstjórn Fjarðabyggðar, einn fulltrúi auk varamanns tilnefndur af sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps og einn fulltrúi auk varamanns tilnefndur af sveitarstjórn Fljótsdalshrepps.
Sveitarstjórnum er heimilt að tilnefna nýjan aðila í stjórn á starfstíma stjórnar. Skal sveitarstjórn tilkynna stjórn Héraðsskjalasafnsins um að fyrri tilnefning falli niður og hver sé tilnefndur í hans stað. Ef aðalmaður í stjórn Héraðsskjalasafnsins hættir störfum eða flytur burt af starfssvæði safnsins skal viðkomandi sveitarstjórn tilnefna annan fulltrúa í hans stað. Hið sama gildir ef varamaður lætur af störfum af sambærilegum ástæðum.
Ný stjórn Héraðsskjalasafnsins taki til starfa að afloknum aðalfundi safnsins, eftir að fyrri stjórn hefur skilað skýrslu, ársreikningi og fjárhagsáætlun. Stjórn skiptir sjálf með sér verkum þannig: formaður, varaformaður og meðstjórnendur. Forstöðumaður safnsins annast að öllu jöfnu ritun fundargerða. Aldursforseti í kjörinni stjórn stýrir fyrsta fundi þar til formaður hefur verið kjörinn. Fundargerðir skal færa skipulega í sérstaka fundargerðarbók, þar skulu öll framkomin mál skráð og hvaða afgreiðslu þau hljóta. Frágangur fundargerða skal annars taka mið af 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Fundargerðir skal senda til aðildarsveitarfélaga.

4. gr.
Til að tryggja að saman fari fagleg og fjárhagsleg ábyrgð fer stjórn með málefni byggðasamlagsins milli aðalfunda. Stjórn er hvorki heimilt að skuldbinda safnið fjárhagslega, né heldur á neinn hátt að skuldbinda aðildarsveitarfélögin fjárhagslega, umfram samþykkta fjárhagsáætlun. Ekki er þörf á að ákvarðanir stjórnar séu staðfestar af sveitarstjórnum, svo fremi að þær séu innan ramma samþykktrar fjárhagsáætlunar safnsins, í samræmi við starfssvið Héraðsskjalasafnsins og settar fram í þess nafni.
Stjórn og forstöðumaður skulu fyrir lok júní ár hvert senda fjárhagsáætlun og áætlun um skiptingu rekstrarframlaga á komandi ári til aðildarsveitarfélaganna. Sveitarfélögin skulu strax að lokinni staðfestingu fjárhagsáætlana sinna tilkynna Héraðsskjalasafninu um framlög þeirra til safnsins. Um formlega afgreiðslu fjárhagsáætlunar á aðalfundi segir nánar í 6. gr.
Stjórn byggðasamlagsins er ekki heimilt að gera samninga við einkaaðila eða einstök aðildarsveitarfélög um það grundvallarhlutverk að varðveita gögn sem varða stjórnsýslu og hagsmuni sveitarfélaga og annarra skilaskyldra aðila sem og réttindi borgaranna. Stjórn er heimilt að gera samninga við einkaaðila eða einstök aðildarsveitarfélög um rekstrartengd verkefni svo sem endurskoðun og bókhald.
Umboð stjórnar samlagsins til ákvarðanatöku takmarkast aðeins af samningi þessum og þeim lögum sem gilda hverju sinni s.s. sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 og ákvæðum þeirra um fjármál sveitarfélaga. Aðeins er þörf á staðfestingu aðildarsveitarfélaga á ákvörðunum stjórnar samlagsins sé um að ræða meiriháttar ákvarðanir eða breytingar á rekstri þess. Um valdheimildir Héraðsskjalasafnsins fer eftir lögum, nr. 77/2014, um opinber skjalasöfn.

5. gr.
Stjórnarfundi skal halda þegar stjórn telur henta. Formaður stjórnar lætur boða stjórnarfundi. Fundarboð með dagskrá skal sent stjórnarmönnum skriflega a.m.k. viku fyrir ráðgerðan fundardag. Stjórnarfundi og aðalfundi er heimilt að halda í fjarfundi í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Fundir stjórnar eru ályktunarhæfir séu þeir boðaðir í samræmi við samþykkt þessa og ef þá situr hið minnsta helmingur aðalfulltrúa í stjórn.

6. gr.
Aðalfundur Héraðsskjalasafnsins skal haldinn eigi síðar en 15. nóvember ár hvert. Skal leitast við að dreifa staðsetningu aðalfunda um starfssvæðið. Til aðalfundar boðar stjórn eigi síðar en tveimur vikum fyrir fundardag.
Eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund skal öllum aðildarsveitarfélögunum hafa verið send dagskrá aðalfundar, ársreikningar fyrir næstliðið starfsár og fjárhagsáætlun komandi starfsárs þar sem fram kemur áætlað framlag hvers og eins sveitarfélags og áætlaðar breytingar milli ára miðað við niðurstöðutölu áætlunarinnar. Með samþykkt fjárhagsáætlunar er jafnframt ákveðið heildarframlag aðildarsveitarfélaganna fyrir viðkomandi starfsár (sbr. 9. gr.). Form ársreikning og fjárhagsáætlunar skal vera í samræmi við reikningsskilareglur sveitarfélaga.
Á aðalfundi skal formaður flytja skýrslu um störf stjórnar frá síðasta aðalfundi. Forstöðumaður kynnir ársskýrslu um starfsemi safnsins á liðnu ári og gerir grein fyrir áformum um helstu viðfangsefni komandi starfsárs í samræmi við framlagða fjárhagsáætlun.
Á aðalfundi skulu eftirtalin mál afgreidd með atkvæðagreiðslu:
a) Kjörbréf og umboð fulltrúa sveitarfélaga á fundinum.
b) Reikningar næstliðins starfsárs.
c) Fjárhagsáætlun fyrir komandi starfsár.
d) Kjör löggilds endurskoðanda.
e) Önnur mál, eftir því sem dagskrá fundarins segir til um.
Aðalfundur er löglegur sé til hans boðað í samræmi við samning þennan, eða ef fulltrúar allra aðildarsveitarfélaga mæta á fundinn og staðfesta lögmæti hans. Aðalfundur er ályktunarhæfur sé hann löglegur og ef hann sitja fulltrúar sem fara með hið minnsta helming atkvæða aðildarsveitarfélaganna sem úthlutað er skv. 7. gr. samnings þessa. Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála á aðalfundi nema samningur þessi kveði á um annað.
Einn þriðji hluti aðildarsveitarfélaganna eða a.m.k. tveir stjórnarmmenn geta farið fram á aukaaðalfund, enda sé fundarefni tilgreint. Skulu slíkir fundir haldnir eigi síðar en þrem vikum eftir að lögleg ósk þess efnis kemur fram. Í slíkum tilfellum nægir að senda út gögn, er varða ástæður aukaaðalfundar, einni viku fyrir fundardag.

7. gr.
Sérhver sveitarstjórn á starfssvæði Héraðsskjalasafnsins kýs árlega a.m.k. einn fulltrúa og annan til vara á aðalfund safnsins. Aðalmenn í stjórn Héraðsskjalasafnsins skulu sitja aðalfund en þá má ekki skipa sem aðalfundarfulltrúa. Séu fulltrúar sveitarfélags fleiri en einn skal á kjörbréfi getið um skiptingu atkvæða viðkomandi sveitarfélags milli þeirra. Forfallist bæði aðal- og varamaður sem sveitarfélag hefur tilnefnt á aðalfund er heimilt að veita fulltrúa annars sveitarfélags umboð til að fara með atkvæði viðkomandi sveitarfélags á fundinum. Framkvæmdastjórar sveitarfélaga, eða staðgenglar þeirra, eiga rétt á að sitja aðalfundi sem áheyrnarfulltrúar, séu þeir ekki tilnefndir fulltrúar á fundi. Hvert sveitarfélag greiðir ferða- og uppihaldskostnað sinna fulltrúa.
Regla um vægi atkvæða á aðalfundi er svohljóðandi:
Fulltrúi frá sveitarfélagi sem hefur 200 íbúa eða færri fer með eitt atkvæði. Hverjum 350 íbúum eða broti af þeirri tölu umfram fyrstu 200 íbúana fylgir eitt atkvæði fyrir fulltrúa viðkomandi sveitarfélaga.

Íbúar

 

Íbúar

 

 

Íbúar

 

 

Íbúar

 

Frá

Til

Atkvæði

 

Frá

Til

Atkvæði

 

Frá

Til

Atkvæði

 

Frá

Til

Atkvæði

1

200

1

 

1601

1950

6

 

3351

3700

11

 

5101

5450

16

201

550

2

 

1951

2300

7

 

3701

4050

12

 

5451

5800

17

551

900

3

 

2301

2650

8

 

4051

4400

13

 

5801

6050

18

901

1250

4

 

2651

3000

9

 

4401

4750

14

 

6051

6400

19

1251

1600

5

 

3001

3350

10

 

4751

5100

15

 

6401

6750

20



8. gr.
Stjórn ræður forstöðumann sem er framkvæmdastjóri safnsins. Skal stjórn leitast við að ráða til starfsins einstakling með menntun og/eða starfsreynslu sem nýtist í starfinu. Í ráðningarsamningi skal kveða á um launakjör forstöðumanns, vinnutíma, orlof, lífeyri og uppsagnarfrest af hendi hvors aðila.
Forstöðumaður hefur með höndum ráðningu annarra starfsmanna safnsins. Skal forstöðumaður annast daglegan rekstur stofnunarinnar í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun safnsins, auk annarra verkefna sem stjórn eða aðalfundur felur honum. Um hlutverk forstöðumanns kveður nánar á um í starfslýsingu sem stjórn gerir. Starfslýsinguna skal endurskoða á fimm ára fresti eða eftir því sem þörf krefur.
Forstöðumaður skal sitja stjórnarfundi og hefur þar málfrelsi og tillögurétt, en ber þó að víkja af fundi þegar stjórn fjallar um mál er varða hann sérstaklega. Stjórn er heimilt að boða aðra starfsmenn á fundi eftir þörfum. Forstöðumaður skal framfylgja ákvörðunum sem teknar eru á fundum stjórnar.

9. gr.
Tekjur Héraðsskjalasafns Austfirðinga samkvæmt fjárhagsáætlun eru:
a) Sértekjur og þjónustugjöld.
b) Árlegur rekstrarstyrkur úr ríkissjóði samkvæmt því sem kveður á um í fjárlögum hverju sinni.
c) Árleg framlög aðildarsveitarfélaga.
Framlögum samkvæmt c-lið skal skipt í hlutfalli við niðurstöður sameiginlegra skatttekna í ársreikningum sveitarfélaganna árið áður en fjárhagsáætlun er samin. Framlaginu skal skipt í tvennt á eftirfarandi hátt:
70% greiðast af öllum sveitarfélögunum sem að samningnum standa.
30% greiðast af sveitarfélögunum Múlaþingi og Fljótsdalshreppi.
Sveitarfélög greiða framlög til Héraðsskjalasafnsins með mánaðarlegum greiðslum. Gjalddagar eru 12 á ári, fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Heimilt er að reikna dráttarvexti á framlög sveitarfélaganna skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, berist þau ekki í síðasta lagi 15. dag hvers mánaðar.
Héraðsskjalasafn Austfirðinga tekur þátt í rekstrarkostnaði Skjala- og myndasafns Norðfjarðar og greiðir til Fjarðabyggðar sem nemur 7,1% af heildarframlagi aðildarsveitarfélaganna til Héraðsskjalasafnsins eins og það er á fjárhagsáætlun hvert ár. Komi til breytinga á niðurstöðum ársreiknings miðað við samþykkta fjárhagsáætlun skal leiðrétta endurgreiðsluna til samræmis við niðurstöður ársreiknings þegar uppgjör liggur fyrir.
Komi til nýrra stofnframkvæmda við Héraðsskjalasafn Austfirðinga skal gera um kostnaðarskiptingu sérstakt samkomulag á aðalfundi Héraðsskjalasafnsins.
Til Bókasafns Halldórs og Önnu Guðnýjar skal verja að lágmarki því sem nemur 7% af heildarframlagi aðildarsveitarfélaganna til Héraðsskjalasafnsins.

10. gr.
Sveitarfélög þau sem aðild eiga að byggðasamlaginu bera einfalda ábyrgð á fjárhagsskuldbindingum þess í sameiningu. Innbyrðis skiptist ábyrgðin í hlutfalli við fólksfjölda eins og hann var næstliðinn 1. desember. Eignarhluti hvers aðildarsveitarfélags reiknast árlega í samræmi við hlutdeild viðkomandi sveitarfélags í rekstrarframlögum þess árs sbr. c-lið 9. gr. samnings þessa.

11. gr.
Samning þennan skal endurskoða innan 10 ára frá gildistöku hans. Tillögur að breytingum á samningi þessum skal leggja fyrir aðalfund þar sem þær skulu kynntar og greidd um þær atkvæði. Reynist tillögurnar hafa stuðning meirihluta atkvæða ber að vísa þeim til viðkomandi sveitarstjórna. Til þess að breytingar á samningnum öðlist gildi þurfa sveitarstjórnir sem ráða yfir 2/3 hluta atkvæða á aðalfundi að staðfesta þær.

12. gr.
Óski aðildarsveitarfélag eftir úrsögn úr byggðasamlaginu, skal fulltrúi þess birta tilkynningu þess efnis á aðalfundi. Tekur úrsögnin gildi við lok næstkomandi almanaksárs frá því tilkynningin er birt.
Áður innborguð framlög endurgreiðast ekki við úrsögn og skal úrsagnaraðili gera skil á framlagi sínu til þess tíma að úrsögnin tekur gildi. Sveitarfélag sem segir sig úr byggðasamlaginu á ekki rétt á innlausn eignarhlutar síns við úrsögnina.
Við úrsögn úr samlaginu á sveitarfélag sem gengur úr því ekki rétt á að fá afhent skjöl sem það eða stofnanir þess hafa áður afhent Héraðsskjalasafninu til varðveislu. Héraðsskjalasafni Austfirðinga er heimilt að afhenda slík gögn á annað opinbert skjalasafn, sé varðveisla þeirra þar í samræmi við fyrirmæli laga um opinber skjalasöfn nr. 77/2014.
Sameinist sveitarfélög á starfsvæði Héraðsskjalasafnsins skal það sveitarfélag sem til verður við sameininguna taka við skuldbindingum forvera sinna gagnvart Héraðsskjalasafninu.

13. gr.
Byggðasamlag um Héraðsskjalasafn Austfirðinga skal leggja niður ef:
a) Aðildarsveitarfélög sem hafa yfir að ráða 2/3 gildra atkvæða samþykkja slíka tillögu sem áður hefur verið rædd og samþykkt á aðalfundi.
b) Ef breytingar á lögum gera það nauðsynlegt.
Verði byggðasamlaginu slitið skal aðalfundur kjósa þriggja manna skiptastjórn sem gerir upp eignir þess og skuldir og slítur rekstri þess. Heimilt er skiptastjórn að auglýsa eftir kröfum á hendur byggðasamlaginu með opinberri innköllun. Eftir að kröfur hafa verið greiddar skal afgangi eigna eða eftirstöðvum skulda skipt milli aðildarsveitarfélaga í samræmi við eignarhlut þeirra sbr. 10. gr. samnings þessa eða samkvæmt samkomulagi milli aðildarsveitarfélaganna.
Komi til slita á byggðasamlaginu og skipta á eignum þess skal þó ekki skipta hinu upprunalega bókasafni Halldórs Ásgrímssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur upp heldur skal eitt aðildarsveitarfélaganna sjá um ráðstöfun þess í einu lagi, eftir föngum í samráði við fulltrúa erfingja þeirra hjóna.

14. gr.
Stofnsamningurinn var fyrst samþykktur á stofnfundi byggðasamlagsins 29. apríl 1992. Honum hefur síðar verið breytt vegna sameiningar sveitarfélaga og breytinga á lögum og reglugerðum.
Samningur þessi tekur gildi með staðfestingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.

Bráðabirgðaákvæði
Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. samnings þessa skal stjórn sem kjörin var á aðalfundi Héraðsskjalasafns Austfirðinga bs. í desember 2020 sitja fram að aðalfundi 2022.
Skoðunarmenn ársreikninga sem kjörnir voru á aðalfundi Héraðsskjalasafns Austfirðinga bs. í desember 2020 skulu halda umboði sínu þar til samningur þessi öðlast gildi.

Þannig samþykkt á aðalfundi Héraðsskjalasafns Austfirðinga bs. 10. desember 2021

Saga safnsins

Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1976-2016

Ágrip af 40 ára sögu

Í bókinni Samstarf á Austurlandi eftir Smára Geirsson er að finna stuttan undirkafla sem heitir „Héraðsskjalasafn“. Þar greinir Smári frá umæðu sem skapaðist innan Fjórðungsþings Austfirðinga á árunum í kringum 1950 um stofnun héraðsskjalasafns fyrir Austurland.  

Áhugumenn um stofnun skjalasafns litu m.a. til þess að fá mætti húsnæði á Skriðuklaustri undir starfsemina, en í gjafabréfi Gunnars og Franzisku til íslenska ríkisins voru tilmæli um að Skriðuklaustur skyldi nýtt til menningarauka fyrir svæðið og er starfsemi skjalasafns eitt af því sem talið er upp sem möguleiki. Málið var tekið upp á Fjórðungsþingi árið 1949, en þar lá fyrir erindi frá Norður-Múlasýslu þess efnis að þingið hefði forgöngu um að stofnað yrði héraðsskjalasafn fyrir Austurland. Skipuð var þriggja manna nefnd til að vinna málið áfram. Héraðsskjalasafnsnefndin skilaði af sér á Fjórðungsþingi árið 1951 og lagði til að þingið leitaði eftir áhuga, fyrir stofnun skjalasafns fyrir Austurland, hjá sýslunefndum og bæjarstjórnum sem aðild ættu að Fjórðungsþinginu.

Smári segir í bókinni að eftir þetta hafi ekkert frekar verið fjallað um stofnun héraðsskjalasafns á vettvangi Fjórðungsþingsins. Má af því draga þá ályktun að ekki hafi verið fyrir hendi nægt fjármagn eða áhugi á málinu til að raunhæft væri að ráðast í verkefnið.

Um og uppúr 1970 kemst aukin hreyfing á þróun safnastarfs á Austurlandi. Þar á meðal kemst aftur af stað umræða stofnsetning héraðsskjalasafns. Sumarið 1971 sendi Hjörleifur Guttormsson erindi til stjórnar SSA þar sem hann ræddi hugmyndir sínar um uppbyggingu og skipulag safnamála í fjórðungnum. Hjörleifur hafði áður komið að stofnun Náttúrugripasafnsins í Neskaupstað, en það efndi til sinnar fyrstu sýningar árið 1970. Erindi Hjörleifs kom til umræðu á aðalfundi SSA haustið 1971. Þar var safnanefnd SSA skipuð til að vinna málið áfram. Nefndin skilaði tillögum og greinargerð til aðalfundar SSA árið 1972. Þar urðu miklar umræður um tillögur safnanefndarinnar og voru undirtektir almennt góðar. Niðurstaðan varð að stofna Safnastofnun Austurlands (SAL) og var henni skipuð fimm manna stjórn með Hjörleif Guttormsson sem formann.

Stofnun héraðsskjalasafns komst um sama leiti einnig til umræðu á vettvangi sýslanna. Árið 1970 kaus sýslunefnd Suður-Múlasýslu þriggja manna nefnd sem hafði það hlutverk að undirbúa með hvaða hætti sýslan myndi minnast 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar árið 1974. Brátt komu Norðmýlingar og Seyðisfjarðar- og Neskaupstaður, að undirbúningnum. Stofnun Héraðsskjalasafns á Austurlandi kom þar fljótlega til umræðu. Árið 1971 var tillaga þess efnis lögð fyrir sýslunefnd Suður-Múlasýslu. Tillögunni var vel tekið og var hún samþykkt. Hún hljóðaði svo:
Sýslunefnd Suður-Múlasýslu samþykkir að minnast ellefu alda afmælis Íslandsbyggðar með framkvæmd er hafi menningarlegt framtíðargildi. Því samþykkir sýslunefndin að stofna héraðsskjalasafn á Austurlandi og ennfremur að leita samstarfs um það mál við önnur lögsagnarumdæmi í hinu forna Múlaþingi. (Ármann Halldórsson, Saga sýslunefndar Suður-Múlasýslu 1875-1988, s. 242.)

Eignaraðilar skyldu tryggja rekstur safnsins sem skyldi starfa samkvæmt gildandi lögum og reglugerð um héraðsskjalasöfn. Samþykkt var að staðsetja safnið á Egilsstöðum og kaupa þar húsnæði fyrir það. Einnig skyldi leita bindandi samkomulags við önnur lögsagnarumdæmi um aðkomu að stofnun safnsins. Sýslunefnd hafði strax árið 1971 augastað að húsi Pósts og síma að Fagradalsbraut 2 á Egilsstöðum undir starfsemina. Árið 1972 gerðist Norður-Múlasýsla aðili að væntanlegu héraðsskjalasafni en kaupstaðirnir neituðu þátttöku. Íbúar þeirra fengu engu að síður afgreiðslu hjá safninu eftir stofnun þess og til safnsins bárust skjöl frá kaupstöðunum, þó þeir væru ekki aðilar að safninu fyrstu árin. Sýslurnar festu svo kaup á gamla pósthúsið undir starfsemina.
Varð nú nokkurt hlé á málinu til ársins 1974.

Í erindi á umræðufundi Menningarsamtaka Héraðsbúa, þann 24. apríl 1974 (sem síðar birtist í greinarformi í byggðasöguritinu Múlaþingi) ræddi Hjörleifur Guttormsson um stöðu safnamála á Austurlandi. Tilefni erindisins var áhugi á að gera átak í menningarmálum, einkum safnamálum, í tengslum við 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974. Hjörleifur ræddi stöðu safnastarfs í landinu, út frá þremur gerðum safna: bókasafna, skjalasafna og minjasafna. Hann taldi áhugaleysi ríkisvaldsins á safnamálum og fjárskort í málaflokknum standa vexti hans og þróun fyrir þrifum. Utan Reykjavíkur hafi verið treyst á framtak áhugamanna í þessum efnum og lítinn stuðning verið að fá – hvorki faglegan né fjárhagslegan.

Í erindinu dró Hjörleifur upp dökka mynd af stöðu safnastarfs á Austurlandi. Væru bókasöfnin frátalin stæði Austurland öðrum fjórðungum að baki. Áður en Safnastofnun Austurlands (SAL) var stofnað árið 1971 hafi einungis tvö söfn verið í fjórðungnum, sem héldu út sýningum sem opnar voru einhvern hluta ársins, Minjasafnið á Bustarfelli og Náttúrugripasafnið í Neskaupstað. Minjasafn Austurlands væri enn geymt í litlu herbergi á Skriðuklaustri.

Þegar Hjörleifur flutti erindið í apríl 1974 var á ný komin hreyfing á stofnun héraðsskjalasafns og nefnir hann þá ákvörðun Múlasýslna að sameinast um að kaupa gömlu símstöðina á Egilsstöðum undir starfsemi væntanlegs héraðsskjalasafns. Stjórn SAL hafi einnig hvatt til þess að kaupstaðirnir í Múlasýslum og Austur-Skaftafellssýslu yrðu líka með og jafnframt hvatt sýslunefndirnar til að koma starfseminni af stað sem fyrst og ráða forstöðumann. Í erindinu segir Hjörleifur:
Fátt er jafn brýnt og að hefjast handa um skipulega söfnun á skjölum, bréfum og handritum af ýmsu tagi hér austanlands, því að árlega verður mikið af slíku efni eyðingu að bráð með ýmsum hætti. Fyrr en varir mun ýmiskonar fræðastarfsemi tengjast þessari stofnun, þannig að að henni verður margháttaður menningarauki.
    ...
Uppbygging safna og viðgangur er eljuverk sem krefst fjármagns, natni og þekkingar og glöggrar áætlunar um, að hverju er stefnt með hverju safni. Með öðrum orðum þarf að skilgreina verkefni hvers safns og haga söfnun í þeirra þágu og sýningum sem mest í samræmi við það. (Hjörleifur Guttormsson, „Safnamál á Austurlandi“, Múlaþing 8 (1975), s. 27 og 32.)

Með þessum orðum rammar Hjörleifur inn þá sýn að safnastarf á Austurlandi eigi að byggja upp í formi sérhæfðra og ólíkra safna með skýra verkaskiptingu, en ekki sem smáar einingar í hverju byggðalagi sem reyni að teygja sig yfir mörg svið. Fyrr í erindinu hafði hann bent á að kenna mætti strjálbýli, erfiðum samgöngum og innbyrðis togstreitu í fjórðungnum um að safnamál hafi ekki þróast þar sem skyldi.

Fyrr á árinu 1974 átti sér stað atburður sem varð til að þrýsta enn frekar á að ráðist yrði í stofnun héraðsskjalasafns á Austurlandi. Þeim atburði lýsir Ármann Halldórsson, fyrsti forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga, í grein í Múlaþingi árið 1977. Hann segir:
Skjala- og bókasafn fyrir Múlasýslur var stofnað á Egilsstöðum 17. apríl sl., laugardaginn fyrir páska. ...
Eins og oft vill verða dróst nokkuð, að til [...] framkvæmda drægi, og leið svo fram yfir 1974. Á þeim tíma gerðist það, að Anna Guðný Guðmundsdóttir, ekkja Halldórs Ásgrímssonar fyrrverandi alþingismanns, gaf hinu fyrirhugaða safni allan bókakost þeirra hjóna, um 5000 bindi, með gjafabréfi dagsettu 17. apríl 1974. Halldór Ásgrímsson andaðist að heimili sínu í Reykjavík þann 1. desember 1973, og höfðu þau hjónin áður ákveðið að gefa bókasafnið til Austurlands, en ekki búin að ráðstafa því nánar. Kom því í hlut Önnu og sona þeirra hjónanna að ákveða það, og völdu þau skjalasafnið sem viðtakanda. (Ármann Halldórsson, „Héraðsskjalasafn Múlasýslna komið í höfn ...“, Múlaþing 9 (1977), s. 4.)

Gjafabréfið barst sýslufundi Suður-Múlasýslu árið 1974. Um viðtökurnar er bókað að sýslunefnd þættu skilyrðin ekki sem aðgengilegust en á hinn bóginn væri útilokað að hafna gjöfinni. Sýslunefnd bókaði þakkir fyrir gjöfina og skipaði þriggja manna nefnd til að annast móttöku hennar og gera nánara samkomulag um hana. Árið 1975 skipaði sýslunefnd Suður-Múlasýslu svo tvo menn í stjórn væntanlegs héraðsskjalasafns en Norður-Múlasýsla skipaði þann þriðja. Suður-Múlasýsla kostaði þá rekstur safnsins að 2/3 en Norður-Múlasýsla að 1/3, sem skýrir samsetningu stjórnarinnar. Hlutverk safnstjórnar var víðtækt til að byrja með. Ármann Halldórsson lýsir því svo:
Safnstjórn skyldi sjálf kjósa formann, ráða safnvörð, taka við bókagjöfinni og ganga frá skilyrðum hennar vegna, annast viðhald og rekstur safnhússins og safnsins, ráða mann til að safna skjölum, hafa samband við þjóðskjalavörð eftir því sem við ætti, og standa skil á reikningum safnsins, starfsskýrslu og gera fjárhagsáætlun. (Ármann Halldórsson, Saga sýslunefndar Suður-Múlasýslu 1875-1988, s. 244.)

Jón Kristjánsson, síðar alþingismaður og ráðherra, var kjörinn formaður fyrstu stjórnar Héraðsskjalasafnsins, en auk hans sátu í stjórninni Helgi Gíslason og Ragnar Magnússon. Ármann Halldórsson var ráðinn safnvörður frá 1976. Safnið var formlega stofnað 17. apríl 1976, á áttræðisafmæli Halldórs Ásgrímssonar, að viðstöddum gestum m.a. Vilhjálmi Hjálmarssyni þáverandi menntamálaráðherra. Sérstök stjórn var kosinn yfir bókasafn Halldórs og Önnu Guðnýjar. Í hana voru skipaðir tveir stjórnarmenn safnsins Jón Kristjánsson og Helgi Gíslason auk Árna Halldórssonar, fulltrúa gefenda.

Árið 1976 stóð Safnastofnun Austurlands fyrir þjóðminjasýningu. Einn megintilgangur þeirrar sýningar var að skapa velvild í garð minjasöfnunar og vinna gegn tortryggni í garð Minjasafns Austurlands, sem þá var enn á hrakhólum með húsnæði. Þetta framtak hefur vafalítið nýst Héraðsskjalasafninu þó í starfsskýrslum safnsins komi fram að fyrstu árin hafi gætt ákveðinnar tortryggni gagnvart safninu þegar kom að afhendingu skjala til þess. Mikil vinna var lögð í söfnun skjala og fóru Eiríkur Eiríksson og Helgi Gíslason fremstir í flokki við þá vinnu. Árið 1979 afhenti Þjóðskjalasafn Íslands skjöl til Héraðsskjalasafnsins og síðar átti meira af austfirskum skjölum eftir að berast til þess frá Þjóðskjalasafni.

En þó safnið væri formlega stofnað, forstöðumaður ráðinn og kominn til starfa og stjórn skipuð, var enn margt ógert áður en að það kæmi til almennra nota. Skráning bóka og skjala var skammt á veg kominn og mikil vinna var eftir við frágang og innréttingar í húsinu auk þess sem enn skorti húsbúnað fyrir lesstofu safnsins. Starfsemi safnsins fyrsta árið einkenndist mjög af þessu. Safnið var opnað til almennra nota þann 15. október 1977 og var fyrst um sinn opið tvo daga í viku alls í 8 stundir.

Hrafnkell Lárusson,
sagnfræðingur og fyrrverandi forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga

Pistill þessi byggir á erindi sem höfundur flutti í afmælishófi eftir aðalfund Héraðsskjalasafnsins sem fram fór í Neskaupstað 3. nóv. 2016.

Samnefnd grein, mun ítarlegri en þessi pistill, birtist í 42. tbl. byggðasöguritsins Múlaþings og má lesa hana með því að smella hér.

Starfsfólk

  • Stefán Bogi Sveinsson

    • Forstöðumaður / Héraðsskjalavörður
    • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
  • Eysteinn Ari Bragason

    • Skjalavörður
    • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
  • Ingibjörg Sveinsdóttir Kröyer

    • Safnvörður
    • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
  • Matthías Þór Sverrisson

    • Verkamaður