Skip to main content

admin

Bókavaka og jólaskemmtun

Fyrstu vikuna í desember verður mikið um að vera í safnahúsinu. Hin árlega jólaskemmtun safnahússins verður haldin sunnudaginn 7. desember og hefst hún kl. 13. Þremur dögum áður, fimmtudagskvöldið 4. desember, verður bókavaka safnahússins, en ákveðið var að endurreisa þann viðburð eftir hlé. Bókavakan hefst kl. 20. Nánar má fræðast um báða þessa viðburði með því að smella á fyrirsögn þessarar tilkynningar.

Bókavakan þetta árið er eingöngu helguð austfirskri útgáfu, en hún hefur verið óvenju blómleg þetta árið og því vandi að velja höfunda til að lesa upp. Alls munu fimm höfundar eða aðstandendur bóka lesa úr verkum sínum á bókvökunni. Rannveig Þórhallsdóttir les úr bók sinni Ég hef nú sjaldan verið algild, en sú bók er ævisaga Önnu á Hesteyri í Mjóafirði. Ingunn Snædal mun lesa úr ljóðabókinni Í fjarveru trjáa - vegaljóð, sem kom út fyrr á þessu ári. Hálfdán Haraldsson mun fjalla um ritverk sitt Norðfjarðarbók - þjóðsögur, sagnir og örnefnaskrár. Guðjón Sveinsson les úr nýútkominni ljóðabók sinni sem nefnist Litir og ljóð úr Breiðdal og Smári Geirsson mun síðan fjalla um bókina Þræðir, sem er nýkomin út. En sú bók er helguð Hrafnkeli A. Jónssyni, fyrrum héraðsskjalasverði við Héraðsskjalasafn Austfirðinga, og geymir efni um Hrafnkel en einnig eftir hann. Auk þeirra höfunda sem lesa úr verkum sínum mun öðrum austfirskum ritverkum sem komu út á árinu verða gerð skil.