Skip to main content

admin

Bókavaka og jólagleði

Á fimmtudagskvöldið (3. des) verður Bókavaka Safnahússins haldin og hefst hún kl. 20:00. Líkt og í fyrra er bókavakan alaustfirsk, þ.e. að þeir rithöfundar sem fram koma eru allir Austfirðingar. Þeir höfundar sem stíga á stokk eru alls fimm talsins: Þau eru: Vilhjálmur Hjálmarsson, Elfa Hlín Pétursdóttir, Kristín Jónsdóttir, Ingunn Snædal og Smári Geirsson. Þeirri venju er haldið að bjóða upp á fjölbreytt efni, en á efnisskránni eru tvær ljóðabækur, ein byggðasaga, ein sveitarlýsing og ein þýdd bók. Höfundarnir eru einnig misreyndir í bókum talið, allt frá því að vera að gefa út sína fyrstu bók og til þess að vera að gefa út bók nr. 20.

Á laugardaginn (5. des) verður svo hin árlega Jólagleði fjölskyldunnar í Safnahúsinu. Hefst hún kl. 14:00. Jólagleðin hefur fyrir löngu unnið sér sess og er jafnan vel sótt af fólki á öllum aldri. Í ár verður boðið upp á jólasmiðjur og jólaföndur. Fengist verður við laufabrauðsgerð og gert verður jólaskraut. Einnig verða kynntir erlendir jólasiðir. Miklar líkur eru svo á að jólasveinar komi í heimsókn og jafnvel móðir þeirra líka.