Sveitalíf – sýning á textílverkum
Guðný Marinósdóttir hefur opnað sýningu í anddyri Héraðsskjalasafns á 1. hæð í Safnahúsinu. Verkin á sýningunni sýna brot úr sögu um líf í sveit á Austurlandi á 20. öld.
Hugmyndina fékk Guðný frá gömlum handofnum dúk, sem bar vitni um mikilvægi góðs handverks sem var kennt í húsmæðraskólum á fyrri
hluta aldarinnar. Hún kynnti sér líf og aðstæður þess fólks sem vann hörðum höndum við búskapinn til að sjá fyrir sér og sínum og veita börnum sínum bestu möguleika á menntun og góðu lífi. Að búa í svo fögru umhverfi gerði lífið og starfið ánægjulegra og umhverfið varð hluti af daglegu lífi fólksins. Dyrfjöllin sem vaka yfir sveitinni og sjást víða að eru eins konar hluti af fólki frá þessum slóðum. Þau hafa einnig orðið kveikja að verkum margra íslenskra listamanna.
Guðný Marinósdóttir er fædd á Seyðisfirði árið 1944. Hún lauk kennaraprófi frá Haandarbejdets Fremmes Seminarium í Kaupmannahöfn 1970 og hefur starfað við kennslu í 35 ár ásamt því að sinna eigin listsköpun.
Guðný stundaði fjarnám í textíllist við Julia Caprara School of Textile Arts í Englandi og lauk BA prófi frá Middlesex University í London 2012. Sýningin Sveitalíf (Country Life) er einn hluti af BA náminu og fjallar um líf í sveit á Austurlandi á síðustu öld og þær breytingar sem urðu á lífi fólks á þeim tíma. Sýning þessi var sett upp í Gallerí Klaustri á Skriðuklaustri síðastliðið sumar.
Guðný var meðal stofnfélaga í Myndlistarfélagi Fljótsdalshéraðs og er meðlimur í Myndlistarfélaginu á Akureyri. Hún hefur tekið þátt í samsýningum og haldið nokkrar einkasýningar.
Nánari upplýsingar um verkin á sýningunni gefur Guðný í síma 857-7501 eða með tölvupósti til