Skip to main content

admin

Bætt aðgengi að myndefni í safninu

Þó meginhlutverk Héraðsskjalasafnsins sé að varðveita skjöl á pappírsformi hefur safninu í gegnum tíðina borist nokkuð af efni á öðru formi en pappír. Nýlega var lokið við að færa myndefni sem varðveitt er í safninu af U-matic spólum yfir á stafrænt form (DVD). Það efni sem um ræðir kom frá Austfirska sjónvarpsfélaginu sem starfaði á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Með þessari yfirfærslu efnisins er það gert mun aðgengilegra en áður var og þar með er opnað fyrir að gestir safnsins geti skoðað það fyrirhafnarlítið sér til gagns eða gamans. 

Það voru Heiður Ósk Helgadóttir og Hjalti Stefánsson sem höfðu með höndum yfirfærslu efnisins af U-matic spólunum og yfir á stafrænt form og eiga þau þakkir skyldar fyrir vandaða vinnu. Um er að ræða umtalsvert magn myndefnis eða 65 diska sem flestir geyma um eða yfir 2 klukkustundir af myndefni. Samhliða yfirfærslunni var einnig útbúin vönduð og ítarleg efnisskrá yfir innihald diskanna. Það efni sem um ræðir er afar fjölbreytt en uppistaða þess er fréttaefni úr fjórðungnum, allt frá Hornafirði til Vopnafjarðar, og upptökur frá ýmsum menningarviðburðum. Má þar t.d. nefna myndir frá sýningunni Drekinn ´89, frá Djasshátíðum á Egilsstöðum, frá 400 ára verslunarafmæli Djúpavogs og frá 60 ára afmæli Neskaupstaðar, svo fátt eitt sé talið. Meðal efnisins eru einnig þættirnir Austurglugginn sem sendir voru út frá því síðla árs 1988 til miðs árs 1990.

Vonandi mun það aukna aðgengi sem nú er að þessum heimildabanka um líf og störf Austfirðinga fyrir 20 árum vekja áhuga bæði fræða- og námsfólks, að nýta það til ýmissa verkefna, sem og almennings að leggja leið sína í safnið til að skoða það sem á diskunum er, sér til gagns eða skemmtunar.