Skip to main content

admin

Úr starfi safnsins

Starfið í Safnahúsinu gengur sinn vanagang þó vor sé í lofti. Héraðsskjalasafnið hefur fengið margar afhendingar það sem af er ári og aðsókn að ljósmyndasýningunni Þrælkun þroski þrá  hefur verið mjög góð. Framundan nú á laugardaginn (27. mars) er hið árlega Páskafjör Minjasafnsins, en um það má fræðast nánar á heimasíðu þess. Slóðin er www.minjasafn.is

Starfsemi Héraðsskjalasafnsins er í hefðbundu formi þessa dagana. Mikið hefur verið að gera í skráningu skjala það sem af er árinu enda hafa afhendingar verið bæði margar og sumar stórar. Eru þar fyrirferðamiklar afhendingar frá einstaklingum og félögum, en mikill fengur er af slíkum afhendingum til viðbótar við afhendingar skilaskyldra aðila. 

Aðsóknin að safninu hefur verið mjög góð það sem af er ári. Fyrstu tvo mánuði ársins voru gestir alls 430 talsins (172 í janúar og 258 í febrúar). Er það töluvert meiri aðsókn en var á sama tíma undangengin tvö ár en fyrstu tvo mánuði ársins í fyrra voru gestir alls 395 og á sama tíma árið 2008 voru þeir 358 talsins. Gestir í marsmánuði eru þegar orðnir hátt í 200 talsins og er marsmánuður nú þegar orðin fjölmennari í gestum talið en marsmánuðir sl. tveggja ára.

Ljósmyndasýningn Þrælkun þroski þrá sem opnuð var í Safnahúsinu þann 4. febrúar sl. hefur vakið mikla athygli. Sýningin, sem byggð er á rannsókn Sigrúnar Sigurðardóttur menningarfræðings, er fengin að láni frá Þjóðminjasafni Íslands en þar hékk hún uppi í fyrra. Auk almennra gesta hefur fjöldi skólahópa komið gagngert til að skoða sýninguna í Safnahúsinu. Ákveðið hefur verið að sýningin standi út sumarið en upphaflega stóð til að hún yrði tekin niður í maímánuði.

Þann 18. mars sl. var haldinn fundur í stjórn Héraðsskjalasafnsins og er fundargerð þess fundar nú aðgengileg hér á heimasíðu safnsins (undir flipanum skjalasafn, efst á síðunni).