Skip to main content

admin

Þrælkun, þroski, þrá? - Börn við vinnu á sjó og landi

Næstkomandi fimmtudag kl. 17:00 opnar í Safnahúsinu ljósmyndasýningin Þrælkun, þroski, þrá? Sýningin er fengin að láni hjá Þjóðminjasafni Íslands en þar var hún upphaflega sett upp í febrúar 2009. Við opnunina á fimmtudaginn mun starfsfólk Safnahússins gera grein fyrir sýningunni en nánar má lesa um hana með því að klikka á fyrirsögn þessarar fréttar.

Sýningin Þrælkun, þroski, þrá fjallar um börn við vinnu á sjó og í landi. Sýningin vekur  spurningar um vinnumenningu og barnauppeldi á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar. Þar er kannað hvernig ljósmyndir geta breytt viðhorfi okkar til fortíðarinnar eftir því samhengi sem þær eru skoðaðar í. Þær kveikja umhugsun um  vinnu barna, aðbúnað þeirra og vinnuskilyrði og samskipti sjómanna og barna. Hvenær breytast ævintýri og heilbrigð vinnumenning í þrælkun? Hvenær verða aðstæðurnar óyfirstíganlegar fyrir lítil börn, líkamlega og tilfinningalega. Hvar liggja mörkin?

Á sýningunni getur að líta valdar ljósmyndir eftir íslenska ljósmyndara sem varðveittar eru í Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni. Enn á ný njótum við þess að fá innsýn inn í fortíðina í gegnum þennan ótrúlega og oft óútreiknanlega miðil sem ljósmyndin er. Ljósmynd sem upphaflega átti aðeins að varðveita augnabliks minningu verður innblástur í rannsókn og færir okkur sögur úr fortíðinni sem annars hefðu glatast.

Sýningin Þrælkun, þroski, þrá  byggir á stærri rannsókn sem Sigrún Sigurðardóttir menningarfræðingur vann í rannsóknarstöðu dr. Kristjáns Eldjárns við Þjóðminjasafn Íslands. Í tengslum við sýninguna gaf Þjóðminjasafnið út bókina Afturgöngur og afskipti af sannleikanum en í henni er fjallað um ljósmyndir sem menningarlegt greiningartæki og skoðað hvernig ljósmyndir móta sjálfsmynd, gildismat og viðhorf einstaklinga og þjóða. Sigrún er persónuleg í fræðilegri nálgun sinni, hún færir okkur augnabliksmyndir úr sínu eigin lífi ásamt því að fjalla um ljósmyndasöguna bæði innanlands og erlendis. Hún beitir nútíma greiningaraðferðum af öryggi og lýsir rannsóknum sínum í lifandi og fróðlegum texta. Bókin minnir á vissan hátt á íslenska samræðuhefð, þar sem hver sagan tekur við af annari og óvæntar tengingar færa mann á spennandi áfangastaði.