Fljótsdalshérað með augum þjóðskáldsins
Í bókasafni Héraðsskjalasafns Austfirðinga er að finna umfangsmikið safn ljóðabóka sem er aðgengilegt gestum og gangandi. Það kemur líka reglulega fyrir að til okkar er beint fyrirspurnum varðandi leit að ljóðum eða upplýsingum um höfunda.
Þannig barst okkur fyrirspurn um ljóð um Snæfell eftir Matthías Jochumsson (1835-1920) sem hljóðar svo:
Snæfell skín í suðri sælu:
Silfri krýnda héraðsdís,
frá þér holla finn ég kælu,
fagurlega djásn þitt rís.
Heilsa bað þér bróðir svás,
Bárður hvíti, Snæfellsás.
Hann á vestra hrós og lotning,
hér ert þú hin ríka drottning.
Það var sjálfsagt mál að bregðast við því að finna nánari upplýsingar um ljóðið og leiddi sú eftirgrennslan ýmislegt fróðlegt í ljós.
Þetta fallega ljóð er aðeins eitt erindi í heilmiklum ljóðabálki sem Matthías orti og nefnist því lýsandi nafni Ferð upp í Fljótsdalshérað 1900. Bálkurinn skiptist í þrjá hluta. Sá fyrsti nefnist Á Fjarðarheiði, annar nefnist Fljótsdalshérað og sá þriðji og síðasti Í Hallormsstaðaskógi. Bálkurinn birtist fyrst á prenti í blaðinu Austra, sem gefið var út á Seyðisfirði, í desember árið 1900. Var hver hinna þriggja hluta birtur hver í sínu tölublaði, nánar tiltekið í 43. tölublaði þann 10. desember, þá í 44. tölublaði þann 15. desember og loks í 45. tölublaði þann 21. desember. Síðan birtist bálkurinn í heild sinni í bókinni Ljóðmæli eftir Matthías Jochumsson sem út kom 1936.
Bálkurinn allur er athyglisverður. Hlutar hans eru mjög ólíkir innbyrðis. Fyrsti hlutinn ortur undir fremur fornum og tyrfnum bragarhætti en að efninu til býsna galgopalegur. Annar hlutinn, en þar er einmitt versið um Snæfell að finna, er um margt nokkuð hefðbundið lofkvæði um náttúru landsins:
Fljótsdalshérað friðarblíða,
fyrsta sinn ég heilsa þér!
blessuð Lagar-byggðin fríða
blasir við sem fagni mér!
Hátt ég stend á heiðarbrún,
horfi á grund og slegin tún.
Guð’ sé lof, sem gleðistundu
gaf mér enn á fósturgrundu.
En hér er jafnframt að finna ákveðinn brodd eða brýningu um að mennirnir megi gera betur:
Uxu þessir þéttu bæir
þúsund árin nokkra spönn?
eða þróast þjóðarhagir
þó ei skorti strit né önn?
Inn þú frá og seg til sanns,
sveitaprýðin þessa lands:
Hvað má leysa lýða dróma,
lífga forna dáð og sóma?
Landið allt, vér vitum, vitum,
vantar nýja þjóðmenning;
ekki er nóg við stritum, stritum;
stefnum nýja sjónhending!
ræktum saman léleg lönd,
lærum, menntum sál og hönd;
víkja hlýtur vanans blekking,
vaxa hlýtur táp og þekking.
Býlin strjál og borgir öngvar
bjóða gesti hér að sjá,
knappt um skóla, kirkjur þröngvar,
kjarrið visið, engin smá.
Og þú fljót sem flýtur dautt,
fiskilaust og skipasnautt!
Hlýðið til því sönn er saga. –
Samt vér eygjum betri daga!
Alls er þessi annar hluti 17 erindi og má lesa þau öll hér.
Þriðji og síðasti hluti kvæðisins er síðan langstystur og þar er ort um fegurð og yndi Hallormsstaðar, sem allir þekkja sem þangað hafa einu sinni komið. Þjóðskáldið endar bálkinn sinn mikla á þessum orðum:
Sit ég því glaður og sorgum hafna,
syng um hinn fagurlaufga Hallormsskóg.
Nú ríflega hundrað árum eftir lát skáldsins er spurning hvernig honum myndi lítast á Héraðið nú. Margt er breytt, til dæmis er hér orðið til þéttbýli og ýmislegt annað hefur gerst sem til framfara horfir en ekki er Lagarfljótið lífvænlegra en honum þótti það þá. Annað breytist ekki og má ennþá njóta, svo sem fegurð Snæfellsins og hin fagurlaufgaði skógur á Hallormsstað.
- Ritað .