Stjórnarfundur-1 26.11. 2009
Stjórnarfundur 26. nóvember 2009, kl. 13:00
Stjórn Héraðsskjalasafnsins kom saman til fundar að Végarði í Fljótsdal í aðdraganda aðalfundar fulltrúaráðsins.
Stjórnin þakkar heimboð hingað og hinn ljúffenga hádegisverð í Klausturkaffi.
Formaður setti fund og bauð viðstadda velkomna, en þeir eru auk Björns:
Magnús, Sævar, Ólafur Valg., Ólafur E., Sigmar og Hrafnkell. Ólafur Sigurðsson er á leiðinni – mætti kl. 13:30.
Páll boðaði forföll.
1. liður dagskrár
Staða bókasafns Halldórs og Önnu Guðnýjar innan Héraðsskjalasafnsins
Hrafnkell fór stuttlega yfir stöðuna, aðallega álitsgerð lögfræðingsins.
Sævar nefndi kostnað við álit lögfræðingsins og almennt um eignarhald.
Allir sammála um að Héraðsskjalasafnið sé hinn rétti eigandi bókasafnsins og varast beri sundurgreiningu af nokkru tagi.
Drög að endurskoðuðum reglum, unnin af Hrafnkeli Lárussyni. Hann fór yfir þessi drög ásamt skýringum. Miklar umræður og skoðanaskipti sem á endanum skiluðu okkur endurbættri útgáfu. Hún er innlímd á næstu síðu. Drög þessi að nýjum reglum fyrir bókasafn Halldórs og Önnu Guðnýjar þannig samþykkt samhljóða.
Reglur um bókasafn Halldórs Ásgrímssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur.
Önnur drög
1.gr.
Bókasafn Halldórs Ásgrímssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur, sem Anna Guðný gaf Héraðsskjalasafni Austfirðinga á Egilsstöðum (sbr. gjafabréf dags. 17. apríl 1974), myndar grunn að núverandi bókasafni Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Bókasafnið er hluti safnkosts héraðsskjalasafnsins en það skal vera kennt við gefendurna Halldór Ásgrímsson og Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur.
2.gr.
Bókasafnið er til afnota í lestrarsal héraðsskjalasafnsins og úr því eru leyfð takmörkuð útlán. Ákvarðanir um útlán eru á hendi forstöðumanns héraðsskjalasafnsins og eru heimiluð samræmist þau gildandi útlánareglum bókasafnsins. Öll útlán skal skrá í það bókasafnskerfi sem héraðsskjalasafnið styðst við.
3.gr.
Héraðsskjalasafns Austfirðinga fer með stjórn bókasafnsins. Erfingjar Halldórs og Önnu Guðnýjar tilnefna einn fulltrúa sem er stjórn héraðsskjalasafnsins til ráðuneytis. Stjórn skal gefa fulltrúa erfingja kost á að sitja fundi stjórnar, með málfrelsi og tillögurétt, þegar málefni bókasafnsins eru á dagskrá.
4.gr.
Tekjur bókasafnsins eru 6% árlegra rekstrarframlaga sveitarfélaganna sem mynda byggðasamlag um Héraðsskjalasafn Austfirðinga bs., sem og gjafir og áheit, er því kunna að áskotnast.
5.gr.
Forstöðumaður héraðsskjalasafnsins hefur með höndum innkaup til bókasafnsins. Við eflingu safnsins skal einkum að því stefnt að afla því handbóka og uppsláttarrita og viðhalda tímaritaeign þess. Jafnframt skal lögð áhersla á að kaupa til safnsins austfirska útgáfu og efni er varðar Austurland. Skulu innkaup annars taka mið af innkaupastefnu safnsins.
6.gr.
Leita skal leiða til að bókasafnið nýtist sem flestum framhalds- og háskólanemum á Austurlandi í þeirra námi og safnið styrki þannig uppbyggingu æðri menntunar á Austurlandi.
7.gr.
Fulltrúaráð Héraðsskjalasafns Austfirðinga getur endurskoðað reglur bókasafnsins. Reglum þessum verður eigi breytt, þannig að í bága brjóti við skilyrði í gjafabréfi Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur, dags. 17. apríl 1974, nema með samþykki fulltrúa erfingja.
8.gr.
Leita skal staðfestingar sveitarstjórna allra aðildarsveitarfélaga Héraðsskjalasafn Austfirðinga bs. á reglum þessum.
9.gr.
Reglur þessar taka gildi frá og með 1. janúar 2011.
2. Önnur mál
1) Samþykktur listi um verðskrá vegna gjafabóka er berast bókasafni Halldórs og Önnu Guðnýjar.
a) Bækur yngri en 5 ára (miðað við útgáfuár). Hver bók 3.000 kr.
b) Bækur eldri en 5 ára. Hver bók 1.500 kr.
c) Tímarit. Hvert hefti 800 kr.
2) Forstöðumaður sagði frá þeim verkefnum og nýmælum sem efst eru á baugi.
3) Sævar sagði frá hreppsbókasafni í sinni gömlu sveit og hvernig með skuli fara. Þar leynast eflaust góðir gripir og eigulegir fyrir bókasafn Halldórs og Önnu Guðnýjar.
Fundargerðin lesin og samþykkt.
Fundi slitið kl. 15:15
Ólafur Eggertsson [sign]
Björn Aðalsteinsson [sign]
Sævar Sigbjarnarson [sign]
Ólafur Valgeirsson [sign]
Magnús Stefánsson [sign]
Hrafnkell Lárusson [sign]
Sigmar Ingason [sign]