Skip to main content

admin

Ljósmyndasafn Austurlands

Ljósmyndasafn Austurlands er sérstök deild innan Héraðsskjalasafns Austfirðinga og rekið með framlagi frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Minjasafni Austurlands og Héraðsskjalasafni Austfirðinga. 

Í elsta hluta ljósmyndasafnsins eru um 14 þúsund kópíur og eru margar þeirra komnar til ára sinna. Margt er þar forvitnilegra mynda frá ýmsum tímum og stöðum, bæði mannamyndir og hópmyndir en einnig myndir af húsum, náttúru, menningu, skólastarfi og atvinnulífi.

Myndirnar eru flestar komnar til safnsins frá einstaklingum, jafnvel úr dánarbúum, eða í gegnum Minjasafn Austurlands sem afhendir Ljósmyndasafninu myndir sem þangað berast með öðrum gripum. Ljósmyndasafninu hafa einnig áskotnast nýrri söfn. Stærst þeirra er ljósmyndasafn (kópíu- og filmusafn) Vikublaðsins Austra sem var afhent árið 2004 og telur rúmlega 26 þúsund skannaðar og tölvuskráðar myndir. Þær myndir eru að mestu leyti teknar á níunda og tíunda áratug síðustu aldar og endurspegla vel mannlíf í fjórðungnum á sínum tíma.

Árið 2012 fékk safnið afhent ljósmynda- og filmusafn Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA). Um er að ræða rúmlega 10 þúsund myndir sem er búið að skanna og skráning þess er langt komin. Einnig má nefna ljósmyndir Sigurðar Aðalsteinssonar blaðamanns og leiðsögumenns sem spanna frá miðbiki 20. aldar til síðustu aldamóta.

Sífellt berst meira myndefni til Ljósmyndasafnsins, bæði á pappír og á stafrænu formi. Frá árinu 2011 hefur Héraðsskjalasafnið verið í átaksverkefni um skönnun og tölvuskráningu mynda. Í lok árs 2013 var búið að skanna rúmlega 58 þúsund myndir og skrá 52 þúsund þeirra í FotoStation myndakerfið. Elstu mannamyndirnar í eigu Ljósmyndasafns Austurlands, sem eru rúmlega 13 þúsund talsins, eru skráðar í FileMaker gagnagrunn. Skönnun og skráning þeirra í FotoStation hófst á árinu 2014 en í því safni eru meðal annars myndir í visit- og kabinetstærð.

Ljósmyndavefur

Ljósmyndavefur á slóðinni myndir.heraust.is var opnaður 28. maí 2014. Á vefnum eru um 55 þúsund myndir í eigu Ljósmyndasafns Austurlands. Þar má skoða fjölbreytt myndasöfn allt frá mannamyndum teknum fyrir aldamótin 1900 til frétta- og íþróttamynda frá síðari helmingi 20. aldar.

Megintilgangur ljósmyndavefsins er að gera myndir og myndasöfn í eigu Ljósmyndasafnsins Austurlands. aðgengileg almenningi og fræðimönnum. Skráning ljósmyndanna er samvinnuverkefni starfsmanna skjalasafnsins og almennings, en ýmsir hafa aðstoðað við að bera kennsl á myndefni. Mikilvægt að allir sem kannast við óþekkt fólk, hús eða viðburði á vefnum hafi samband við okkur. Leiðréttingar á skráningu myndanna eru einnig vel þegnar.

Heildarfjöldi mynda í eigu Ljósmyndasafns Austurlands er um 80 þúsund og sífellt bætist við safnið, bæði á pappír og á stafrænu formi. Myndum á ljósmyndavefnum á því eftir að fjölga enn frekar eftir því sem fjármagn fæst í verkefnið.

Gjaldskrá

Hægt er að kaupa afrit af myndum til einkanota eða fyrir útgáfu. Sjá nánari upplýsingar í gjaldskrá.