Skip to main content

admin

Fræðibókasafn

Bókasafn Halldórs Ásgrímssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur, sem Anna Guðný gaf Héraðsskjalasafni Austfirðinga á Egilsstöðum (sbr. gjafabréf dags. 17. apríl 1974) myndar grunn að núverandi bókasafni Héraðsskjalasafns Austfirðinga.

Til viðhalds bókasafnsins er ráðstafað ákveðinni upphæð af fjárhagsáætlun héraðsskjalasafnsins ár hvert. Þar af leiðir að í safninu er að finna nýtt efni í bland við gamalt, þar eru m.a. mörg sjaldgæf eldri rit. Við innkaup á bókum í safnið er einkum litið til fræðibóka ýmisskonar, þó annars konar efni megi einnig finna þar. Alls eru tæplega 10 þúsund bækur í safninu í byrjun september 2013.

Auk bókanna tilheyrir bókasafninu veglegt safn tímarita, sum þeirra innbundin, alls hátt í 500 titlar. Bæði er um að ræða tímarit sem enn eru gefin út en einnig tímarit sem hætt eru að koma út, þ.á m. tímarit frá 19. öld. Líkt og með bækurnar eru þau tímarit sem safnið kaupir flest fræðilegs eðlis og eru tímarit sem birta sögulegt efni (í einhverri mynd) þar einkum áberandi.

Héraðsskjalasafnið leggur sérstaka áherslu á að safna útgefnu efni frá starfssvæði safnsins, á þar jafnt við um bækur, tímarit eða staðbundna prentmiðla.

Á 10 ára afmæli Héraðsskjalasafns Austfirðinga árið 1986 var jólakort safnsins helgað minningu hjónanna Halldórs og Önnu Guðnýjar sem áratug áður gáfu nýstofnuðu Héraðsskjalasafni bókasafn sitt, sem taldi liðlega 4.600 bækur auk fjölda tímarita og bæklinga.

Halldór og Anna

Anna Guðný Guðmundsdóttir, f. 1895 d. 1978, var kennari að mennt og stundaði kennslu bæði á Borgarfirði og Vopnafirði.
Halldór Ásgrímsson, f. 1896 d. 1973, var samvinnuskólamaður og kaupfélagsstjóri. Þau hjón voru bæði mjög virk í félagsmálum, hvort á sínu sviði, og kjörin til ýmissa trúnaðarstarfa. Halldór var þingmaður Austfirðinga um 20 ára skeið.