Skip to main content

admin

Lög um opinber skjalasöfn

Lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 hafa tekið gildi. Lögin voru samþykkt á Alþingi þann 16. maí sl. og fella úr gildi lög um Þjóðskjalasafn Íslands nr. 66/1985.

Hér má nálgast Lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 á vef Alþingis.

Nýju lögin eru efnismeiri um ýmsa þætti í starfsemi opinberra skjalasafna. Þannig er í fyrsta skipti að finna reglur um inntak þess réttar sem almenningur og aðrir eiga um aðgang að skjölum í opinberum skjalasöfnum og á sama hátt takmarkaðan aðgang almennings að fjárhags- og einkamálefnum einstaklinga. Skýrari skilgreiningar eru á hverjir eru afhendingarskyldir aðilar og hverjar eru skyldur þeirra er varða skjalavörslu og skjalastjórn. Afhendingarskyld skjöl skal afhenda opinberu skjalasafni þegar þau hafa náð 30 ára aldri. Einnig er fjallað um söfnun og varðveislu einkaskjalasafna. Refsiheimildir vegna brota á lögum um opinber skjalasöfn eru nýmæli, s.s. er varðar þagnarskyldu og brot forstöðumanna stofnana á lögunum.

Hlutverk Héraðsskjalasafns Austfirðinga skv. 13. gr. laganna er meðal annars að:

  • taka við og heimta inn skjöl og varðveita þau og önnur gögn frá afhendingarskyldum aðilum sem hafa að geyma upplýsingar sem þýðingu hafa fyrir stjórnsýslu eða hagsmuni og réttindi borgaranna eða hafa sögulegt gildi
  • hafa eftirlit með framkvæmd afhendingarskyldra aðila á lögum þessum, reglugerðum sem ráðherra setur á grundvelli þeirra og á reglum sem settar eru skv. 8. gr.

Afhendingarskyld skjöl skal afhenda opinberu skjalasafni þegar þau hafa náð 30 ára aldri.Afhendingarskylda til Héraðsskjalasafns gildir um:

  • sveitarfélög, svo og allar stofnanir og nefndir á þeirra vegum sem fara með stjórnsýslu; hið sama gildir um byggðasamlög og aðra þá aðila sem sjá um framkvæmd einstakra stjórnsýsluverkefna vegna samvinnu sveitarfélaga
  • sjálfseignarstofnanir og sjóði sem stofnuð hafa verið með lögum eða á grundvelli heimildar í lögum í þeim tilgangi að sinna einkum opinberum verkefnum
  • stjórnsýsluaðila einkaréttareðlis hafi þeim á grundvelli laga verið fengið vald til þess að taka stjórnvaldsákvarðanir af hálfu ríkis eða sveitarfélags að því er varðar skjöl sem hafa orðið til hjá þeim eða komist í þeirra vörslu vegna mála er tengjast slíkum ákvörðunum
  • einkaréttarlega lögaðila sem tekið hafa að sér rekstrarverkefni með samningi skv. 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, eða skv. 100. og 101. gr. sveitarstjórnarlaga, að því er varðar skjöl sem hafa orðið til hjá þeim eða komist í þeirra vörslu vegna rækslu slíkra verkefna
  • lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera