Skip to main content

admin

"Til gagns og til fegurðar"

Síðdegis í gær, fimmtudaginn 22. janúar, var opnuð í anddyri Safnahússins ljósmyndasýningin "Til gagns og til fegurðar". Sýningin er hluti samnefndrar ljósmyndasýningar sem hékk uppi í Þjóðminjasafni Íslands á síðasta ári (frá 8. febrúar til 4. maí 2008) og eru myndirnar á sýningunni í Safnahúsinu fengnar að láni frá Þjóðminjasafni. Alls er vel á fjórða tug mynda á sýningunni og mun hún hanga uppi fram á vor en gert er ráð fyrir að hún muni taka breytingum þar sem myndirnar sem bárust voru fleiri en komust fyrir í sýningarrýminu. Breytingar á sýningunni verða auglýstar þegar þær verða. Það má því ganga út frá því vísu að sú sýning sem tekin verður niður í vor mun verða nokkuðt önnur en sú sem opnaði í gær.   

Ljósmyndasýningin "Til gagns og til fegurðar" byggir á rannsóknum Æsu Sigurjónsdóttur listfræðings á útliti og klæðaburði Íslendinga í ljósmyndum frá 1860 til 1960. Samhliða sýningunni í Þjóðminjasafninu var gefin út bók sem bar sama heiti og sýningin en í þeirri bók birtast rannsóknir Æsu á efninu auk myndanna sem voru á sýningunni. Í kynningu á sýningunni þegar hún var sett upp í Þjóðminjasafninu sagði eftirfarandi:  

"Flestir geta verið sammála um að ljósmyndir geri tímann nánast áþreifanlegan. Ljósmyndir hafa þó ekki einungis heimildargildi um tökutímann og það sem var, heldur búa þær yfir fagurfræðilegum eiginleikum og ríkulegu táknmáli. Þær móta hugmyndir okkar um hið liðna, og sýna afstöðu okkar til tímans og sögunnar, jafnframt því að vera áhrifamikill miðill til ímyndarsköpunar.
Tíminn hefur mikil áhrif á það hvernig við horfum á ljósmyndir, upplifum þær og skiljum, þær vekja spurningar um samband Íslendinga við táknheim sinn fyrr og nú. Hvernig er hægt að nota ljósmyndir til að setja saman mynd af fortíðinni og jafnvel nálgast hana á nýjan hátt? Geta myndir hjálpað okkur við að gera söguna sýnilega?"

Á sýningunni í Þjóðminjasafninu var bent á hvernig Íslendingar notuðu ljósmyndir, þjóðbúninga og tísku til að skapa sér sjálfsmynd og eru myndirnar á sýningunni vísbending um hvernig Íslendingar litu út og hvernig þeir vildu vera.

Ljósmyndasafn Austurlands og Héraðsskjalasafn Austfirðinga þakka Þjóðminjasafni Íslands fyrir að lána söfnunum sýninguna. Sérstakar þakkir fær Inga Lára Baldvinsdóttir fagstjóri Ljósmyndasafns Íslands.