Skip to main content

admin

Sumarsýningin Ó-líKINDi og þjóðhátíðardagurinn

Næstkomandi laugardag (14. júní) opnar formlega í safnahúsinu sýningin Ó-líKINDi sem er sumarsýning Minjasafns Austurlands. Þema sýningarinnar er íslenska sauðkindin, afurðir hennar og birtingarmyndir í íslensku landslagi sem og staða sauðkindarinnar í íslenskri sögu, menningu, listum og hönnun. Sýningin er á öllum hæðum í safnahúsinu og koma sýningargripir víða að. Framsetning sýningarinnar er margvísleg en á henni gefur m.a. að líta ljósmyndir, muni og afurðir sauðkindarinnar.

Ó-líKINDi er samsýning Minjasafns Austurlands með Donegal County Museum á Írlandi og Museum Nord í Vesterålen í Noregi. Margir hafa lagt sýningunni lið þ.á m. hin söfnin í safnahúsinu – Bókasafn Héraðsbúa og Héraðsskjalasafn Austfirðinga. Sýningarstjóri er Elfa Hlín Pétursdóttur, safnstjóri minjasafnsins, en hönnun sýningarinnar er í höndum Ríkeyjar Kristjánsdóttur sýningarhönnuðar.

Opnunarathöfnin á laugardaginn hefst kl. 13 en sýningin mun standa út sumarið. Minjasafn Austurlands er opið alla daga í sumar, en nánari upplýsingar um starfsemina má fá á heimasíðu safnsins. Slóðin er www.minjasafn.is

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní mun safnahúsið verða opið frá kl. 11-17. Þá verður hægt að skoða nýju sumarsýningu minjasafnsins sem og grunnsýningu þess, fleira verður einnig haft til skemmtunar.
Það er von okkar sem störfum í safnahúsinu að sem endranær leggi margt fólk leið sína í safnahúsið á þjóðhátíðardaginn.