Skip to main content

admin

Opnun sumarsýninga

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní voru tvær sýningar opnaðar: Austfirskt fullveldi – Sjálfbært fullveldi? Sýning í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Nr. 2 Umhverfing.

Fjölmenni mætti við opnun sumarsýninga í Safnahúsinu á þjóðhátíðardaginn 17. júní kl. 15:30. Báðar sýningarnar voru settar upp í samvinnu nokkurra aðila. Annars vegar myndlistarsýningin Nr. 2. Umhverfing og hins vegar sýningin Austfirskt fullveldi - Sjálfbært fullveldi?

Austfirskt fullveldi – Sjálfbært fullveldi?
Samsýning í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Einnig í Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri, Randulfssjóhúsi á Eskifirði og Tækniminjasafninu á Seyðisfirði.
Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldi Íslands hafa níu austfirskar mennta-, menningar-, og rannsóknarstofnanir hafa tekið höndum saman til að skoða á nýstárlegan hátt austfirskt fullveldi, sjálfbærni og tengslin þar á milli.
Á sýningunni er dregin upp mynd af lífi barna árin 1918 og 2018 og líf þeirra og nánasta umhverfi spegluð við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sýningin skiptist í fjóra hluta sem settir verða upp á Skriðuklaustri í Fljótsdal, Tækniminjasafninu á Seyðisfirði og í Randulfssjóhúsi á Eskifirði auk Safnahússins á Egilsstöðum.
Í tengslum við verkefnið hefur verið opnuð vefsíða: www.austfirsktfullveldi.is
Að verkefninu standa Austurbrú, Safnastofnun Fjarðabyggðar, Tækniminjasafn Austurlands, Minjasafn Austurlands, Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Gunnarsstofnun, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Skólaskrifstofa Austurlands og Landgræðsla ríkisins.

Myndlistarsýningin Nr. 2 Umhverfing
Listaverk eftir rúmlega 30 listamenn sem allir eiga það sameiginlegt að tengjast Fljótsdalshéraði á einn eða annan hátt. Fleiri verk eru til sýnis í Sláturhúsinu og Dynju. Að sýningunni stendur félagsskapur fjögurra myndlistakvenna sem nefnist Akademía skynjunarinnar. Að henni standa Anna Eyjólfsdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir, Rúrí og Þórdís Alda Sigurðardóttir. Auk þeirra eiga eftirtaldir listamenn verk á sýningunni en nöfn þeirra allra má sjá hér. Samstarfsaðilar akademíunnar í verkefninu eru Minjasafn Austurlands, Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Bókasafn Héraðsbúa, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Sýningin var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Fljótsdalshéraði og Listasjóði Dungal. Akademía Skynjunarinnar hafði frumkvæði að sýningunni. Eftirtaldir listamenn eiga verk í Safnahúsinu: Bjargey Ólafsdóttir, Borghildur Óskarsdóttir, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Kristín María Ingimarsdóttir, Ólöf Nordal, Steinunn Björg Helgadóttir, Yst Ingunn St. Svavarsdóttir, Þórdís Alda Sigurðardóttir og Þórunn Eymundardóttir. Verk eftir aðra listamenn eru í Dyngju og Sláturhúsinu.