Safnað og sýnt - Ólafur Friðriksson
Í safnkosti okkar er að finna ýmislegt sem gaman er að sýna og segja frá. Við höfum nú stillt út ýmsu sem tengist ritstjóranum og baráttumanninum Ólafi Friðrikssyni.
Auk þess að vera einn af frumkvöðlum verkalýðsbaráttu hér á landi, einn af fyrstu leiðtogum jafnaðarmanna hérlendis, blaðamaður, ritstjóri og afkastamikill rithöfundur, má líka kalla Ólaf Friðriksson Austfirðing. Hann var fæddur á Eskifirði, sonur Friðriks Möller sem var faktor við verslunina í Framkaupstað og konu hans, Ragnheiðar Jónsdóttur. Ólafur var yngstur fimm systkina sem upp komust, en tveir bræður dóu á barnsaldri. Meðal systra Ólafs var Margrét Möller (síðar Árnason) sem starfaði um tíma sem ljósmyndari á Eskifirði og á Stokkseyri.
Upp úr fermingu fluttist Ólafur til Akureyrar þar sem hann lauk gagnfræðaprófi auk þess að starfa við verslun mágs síns. Síðar lá leiðin til Kaupmannahafnar til frekara náms. Hann flutti heim árið 1914, fyrst til Akureyrar en síðar til Reykjavíkur þar sem hann átti eftir að gegna lykilhlutverki í verkalýðs- og stjórnmálabaráttu þess tíma, sem ritstjóri Alþýðublaðsins og einn af helstu hugmyndafræðingum vinstri hreyfingarinnar í íslenskum stjórnmálum. Hann er ekki hvað síst þekktur fyrir þátt sinn í því sem nefnt hefur verið „Drengsmálið“ eða „Hvíta stríðið“ árið 1921.
Í sýningarkassa á jarðhæð Safnahússins á Egilsstöðum getur nú að líta ýmislegt úr safnkosti sem tengist Ólafi. Það sem helst vekur athygli er heilmikið handrit sem hann hefur ritað á Kaupmannahafnarárunum, undir yfirskriftinni „Hvað vilja jafnaðarmenn? Umræður úr sveitinni.“ Handritið er þýðing á XI. bindi ritraðarinnar Socialistiske skrifter, sem danskir sósíalistar gáfu út á árabilinu 1888-1915. Því miður hefur ekki tekist að finna neinar upplýsingar um það hvenær eða hvernig handritið kom til Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Það er hins vegar ljóst að Ólafur hefur mjög vandað til verksins.
Í sýningarkassa:
1. „Hvað vilja jafnaðarmenn? Umræður úr sveitinni.“ Þýtt og ritað af Ólafi Friðrikssyni 1908-1909. (HérAust Eink 73-39). Einnig ljósrit af forsíðu.
2. Ljósmynd sem talin er vera af Valgerði Möller og er tekin af Margréti Möller, en þær voru systur Ólafs. (LjósAust 70-14140).
3. Tvö póstkort sem sýna kaupstaðinn á Eskifirði fyrir og um aldamótin 1900. (HérAust Úr póstkortasafni Sigurðar Vigfússonar).
4. „Klukkan var eitt: Viðtöl við Ólaf Friðriksson“ eftir Harald Jóhannsson. (Bókasafn 921 Óla).