Safnað og sýnt - Við minnumst
Í tilefni af allrasálnamessu 2. nóvember sýnum við fimm portrettmálverk úr eigu safnsins af einstaklingum sem bjuggu og störfuðu á Austurlandi en eru nú látin.
Fyrstu dagar nóvember eru víða um heim tengdir minningu látinna með ýmsum hætti einkum í löndum þar sem kristin trú hefur verið ríkjandi. Frægasta afsprengi þessa siðar er hrekkjavökuhátíðin sem æ víðar er haldin hátíðleg, en einnig þekkja margir til hátíðahalda í tilefni af Día de los Muertos, eða degi hinna látnu, sem fram fara í Mexíkó og víðar um rómönsku Ameríku 1. og 2. nóvember ár hvert.
Þessi hátíðahöld eiga rætur að rekja til tveggja messudaga kristinnar kirkju. Allraheilagramessu og allrasálnamessu, sem falla á þessa tvo daga.
Allraheilagramessa er 1. nóvember. Hún á sér fornar rætur því vitað er til að messur þar sem beðið var fyrir látnum voru haldnar þegar á 4. öld eftir Krist en oftast er upphaf allraheilagramessu rakið til þess er Pantheonhofinu í Rómaborg var breytt í kirkju og vígsludagurinn, 13. maí árið 609 eða 610 jafnframt helgaður öllum píslarvottum. Gregoríus III sem gegndi embætti páfa á árunum 731–741 vígði daginn síðan öllum sannhelgum kristnum einstaklingum svo að nú átti hann ekki lengur við píslarvottana eina. Um öld síðar flutti Gregoríus páfi IV hátíðina til 1. nóvember þar sem hún er enn. Til Norður-Evrópu barst hún árið 835.
Allraheilagramessa varð snemma einn af helgustu messudögum íslensku kirkjunnar og var ekki afnumin í þeirri mynd fyrr en árið 1770, eða rúmum 200 árum eftir siðaskiptin.
Í kringum árið 1000 varð til önnur hátíð fyrir áhrif trúarlegrar siðvæðingar, kenndrar við Clunyklaustrið í Frakklandi. Þetta var allrasálnamessa og var hún sett á 2. nóvember. Hún var einkum ætluð til hjálpar sálum fátækra. Þetta var á sama tíma og kirkjan á Íslandi var að festast í sessi og þessi áhersla hefur því frá upphafi verið partur af kristnum hugmyndaheimi Íslendinga.
Líkt og áður fyrr horfir allraheilagramessa til þeirra sem á liðnum öldum, og einnig nær í tíma, hafa styrkt kristnina, það er að segja nafnfrægra trúarhetja og dýrlinga, einkum meðal kaþólskra. En á allrasálnamessu er hugurinn meira bundinn öllum þeim sem við þekktum persónulega og elskum en eru nú fallnir frá.
Í íslensku þjóðkirkjunni fara þessir dagar orðið saman, eru eins og einn væri og beðið er fyrir sálum allra látinna.
Í gegnum árin hefur Héraðsskjalasafni Austfirðinga áskotnast nokkur málverk. Oft hefur það verið í tengslum við afhendingar á skjölum eða ljósmyndum, en einnig hefur verið tekið við málverkum sem hafa sögulega tengingu og skírskotun til Austurlands og Austfirðinga. Við sýnum hér fimm verk sem sýna alls sex einstaklinga sem bjuggu og störfuðu hér á svæðinu og öll eru fallin frá.
Við teljum viðeigandi að sýna þessi verk á þessum árstíma og heiðra þannig minningu genginna kynslóða. Sýningin hangir uppi á neðstu hæð Safnahússins á Egilsstöðum.
Málverkin á sýningunni:
i. Ingveldur Anna Pálsdóttir (1935-2020) kennari og skólastjóri við Hússtjórnarskólann á Hallormsstað & Þráinn Jónsson (1930-2007) oddviti Fellahrepps og framkvæmdastjóri. Málari: Guðráður Jóhannsson.
ii. Séra Sigurjón Jónsson (1881-1965) prestur í Kirkjubæ í Hróarstungu. Málari: Örlygur Sigurðsson.
iii. Þórarinn Þórarinsson (1904-1985) skólameistari á Eiðum. Málari: Bragi Þór Gíslason.
iv. Sigvarður Benediktsson (1895-1966) bóndi á Hofströnd í Borgarfirði eystra. Málari: Matthías Sigfússon.
v. Kristbjörg Sigurbjörnsdóttir (1933-2021) húsfreyja á Egilsstöðum. Málari: Ragnar Páll Einarsson.