Sumarsýningin 2024 - Austfirsk kona
Nú í sumar setur Héraðsskjalasafn Austfirðinga upp sýningu um Margréti Sigfúsdóttur frá Skjögrastöðum undir yfirskriftinni Austfirsk kona.
Margrét Sigfúsdóttir fæddist á Skjögrastöðum í Skógum 28. júlí árið 1873 og lést á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal 25. október 1955. Saga hennar er um margt dæmigerð fyrir hlutskipti kvenna á síðari hluta 19. og fyrri hluta 20. aldar, en þó átti hún einnig bæði athyglisvert og um sumt óvenjulegt lífshlaup.
Meginþræðirnir sem fléttast saman í æviferil Margrétar eru í fyrsta lagi fátækt, erfiðleikar og missir. Í öðru lagi umhyggja fyrir þeim sem minna mega sín og starf í þágu annarra. Í þriðja lagi er það einstök skáldagáfa og ritstörf sem hún sinnti alla ævi, hvað annað sem á gekk í hennar lífi.
Sýningin samanstendur af textaspjöldum þar sem rakin eru helstu æviatriði Margrétar og sýnishorn af skáldskap hennar koma fyrir. Einnig eru nokkur af handritum hennar til sýnis, en í skjalasafninu er varðveittur töluverður fjölda handskrifaðra bóka, bréfa og annars frá Margréti, auk muna úr Minjasafni Austurlands sem henni tengjast. Þá eru hljóðupptökur af konum á ýmsum aldri að lesa verk Margrétar einnig hluti sýningarinnar og gestir geta gripið með sér eintak af Leiftri, handskrifuðu tímariti sem Margrét gaf út um 17 ára skeið.
Sýningin er ein af þremur sem sett er upp á Austurlandi í sumar undir yfirskriftinni Konur/Women. Minjasafn Austurlands setur upp sýninguna Landnámskonur, einnig í Safnahúsinu á Egilsstöðum, og Tækniminjasafn Austurlands setur upp sýninguna Störf kvenna, í útigalleríi safninsins við Lónsleiru á Seyðisfirði.